Það stefnir allt í að Jorge Masvidal fari næst í veltivigtarmeistarann Kamaru Usman. Bardaginn er í vinnslu og mun sennilega eiga sér stað í júlí.
Næsta titilvörn veltivigtarmeistarans Kamaru Usman verður gegn Jorge Masvidal en þetta sagði Dana White í þætti Jim Rome á dögunum. Bardaginn verður líklegast í júlí þegar International Fight Week hjá UFC fer fram.
Usman og Masvidal áttu í útistöðum í vikunni þegar þeir hittust á fjölmiðlaviðburði. Köppunum lenti saman og áttu þeir í orðaskiptum.
„Það var alltaf planið að láta Usman berjast við Jorge. Við vorum ekki búnir að tilkynna það [að þeir mætist] en þessi uppákoma í vikunni neyðir mig til að tilkynna þetta,“ sagði Dana.
Usman sigraði Colby Covington í frábærum bardaga í desember og var það hans fyrsta titilvörn. Usman er að jafna sig á handarmeiðslum á vinstri hendi sem hann varð fyrir í bardaganum gegn Covington. Samkvæmt umboðsmanni Usman verður hann búinn að ná sér í mars eða apríl.
Samningar hafa þó ekki verið kláraðir og er bardaginn því ekki endanlega staðfestur.
Þar sem Masvidal er nú að fara í titilbardaga er spurning hvað gerist næst fyrir Conor McGregor. Dana White er enn á því að Conor fari næst í Khabib Nurmagomedov en Khabib mætir Tony Ferguson í apríl.