Friday, July 12, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining: Brunson vs. Holland

Leikgreining: Brunson vs. Holland

Á laugardagskvöld mætast þeir Derek Brunson og Kevin Holland í klassískum „striker vs. grappler“ bardaga. Bardaginn hefur þó meiri dýpt og við skoðum hvernig þeir eru líklegir til að reyna að gera bardagann að sínum.

Derek Brunson glímdi í bandarísku háskólaglímunni og hefur þungar hendur sem hann blandar vel saman við fellur. Brunson líður best í stuttri fjarlægð þar sem hann getur notað sín bestu vopn en átti það til að hlaupa oft inn á móti andstæðingum sem opnaði hann fyrir gagnárásum. Nú er Brunson orðinn þolinmóðari þar sem hann situr til baka, notar spörk til að sækja á andstæðinginn úr fjarlægð og til að loka fjarlægðinni og til að setja upp höggin sín.

Brunson sækir mikið í fellur en nær aðeins einni fellu fyrir hverjar þrjár fellutilraunir. Hann blandar þó vel saman höggum og fellutilraunum eins og áður segir og því geta fellutilraunirnar verið notaðar til að setja upp högg (sjá mynd 1). Brunson er sterkur en hefur átt erfitt með að stjórna andstæðingum í glímunni. Þeir ná iðullega að standa upp eða losa sig frá honum standandi. Brunson hefur þó gengið vel að lenda höggum á meðan andstæðingurinn er að losa sig frá honum.

Mynd 1

a) Brunson nær Shahbazyan upp við búrið og lendir þungri vinstri og b) hægri áður en hann c)&d) skýtur í fellu upp við búrið. Þegar fellan virkar ekki e) rammar Brunson á Shahbazyan, f) notar stungu til að kanna viðbragð Shahbazyan og g) fylgir eftir með þungu vinstra upphöggi.

Brunson sækir oft í fellur með því að beygja sig fram og hlaupa að andstæðingnum án þess að setja árásina upp. Hann hleypur einnig oft inn með höfuðið fyrst þegar hann hendir í vinstri króka (sjá mynd 2). Þetta opnar Brunson fyrir gagnárásum en Brunson virðist tilbúinn að éta högg til að finna andstæðinginn og hefur trú á því að hann geti þá lent þyngra höggi eða náð andstæðingnum niður.

Mynd 2

a)&b) Brunson beygir sig í mittinu og opnar sig þar með fyrir hné eða upphöggi til að c) grípa „single leg“. d) Brunson notar beina vinstri en hefur höfuðið það langt fyrir framan þyngdarpunktinn að hann þarf e) bókstaflega að hlaupa til að detta ekki á andlitið og reynir þá að fylgja eftir með f) annarri beinni vinstri.

Kevin Holland er bæði hávaxinn og með gríðarlega langan faðm. Hann nota lengdina vel, notar mikið af spörkum og beinum höggum og hefur góða tilfinningu fyrir fjarlægðinni. Holland er mjög frumlegur og snöggur að finna lausnir ef það sem hann hafði ætlað að sækja með er ekki lengur í boði (sjá mynd 3).

Mynd 3

a)&b) Holland stígur inn með hliðarsparki með fremri fæti og c) notar síðan fremri hendina til að finna hvar Stewart er fyrir beina hægri sem Holland er að hlaða í en d) þegar Stewart reynist nær en Holland hafði áætlað breytir Holland högginu í hamarshögg.

Holland hefur áður lent í því að vera stjórnað í gólfinu af betri glímumanni. Hann fékk þó eitt erfiðasta prófið í þyngdarflokknum í seinasta bardaga þegar kemur að því að takast á við sterkan glímumann. Hann sýndi þá hversu vel hann getur barist af bakinu í þeim bardaga og minnti á hversu lítið pláss hann þarf til að búa til kraft í höggin sín (sjá mynd 4).

Mynd 4

a)&b) Holland losar á sér hægri fótinn og c) sparkar honum upp og d) aftur niður sem veitir Holland skriðþunga til að e) lenda hægri handar höggi sem vankar Souza.

Holland er hraður, hann hefur sýnt að hann er góður hvar sem bardaginn fer fram og hann er mikill skemmtikraftur sem er þekktur fyrir að tala mikið í búrinu. Það hefur þó hægst á honum þegar líður á bardaga og hann orðið sjáanlega þreyttur í þriðju lotu. Því er spurning hvernig úthaldið dugar honum í fimm lotu bardaga.

Líklegt útspil bardagans

Holland mun líklega stjórna bardaganum til að byrja með. Hann hefur snarpari högg og spörk og mjög góð viðbrögð. Brunson hefur sýnt góða getu til að taka við höggum í síðustu bardögum en mun líklega byrja á því að sparka með Holland úr fjarlægð.

Ef Brunson lendir í miklum vandræðum standandi er líklegt að hann beygi sig fram og sæki í fellur. Holland gæti notað opnunina til að lenda hné eða sparki en ef Brunson nær Holland niður er líklegt að Holland sæki mikið af bakinu með högg og tilraunum til að ná Brunson í uppgjafartök.

Ef Brunson kemst út úr fyrstu lotunni og nær jafnvel nokkrum höggum á Holland verður spennandi að sjá hvort hann nái að snúa bardaganum sér í vil þegar hægist á Holland. Í síðasta bardaga gerði hann nákvæmlega það þegar hægja tók á yngri og sneggri andstæðingnum. Holland er þó meiri ógn af bakinu heldur en síðustu andstæðingar Brunson og hefur auk þess líklega yfirhöndina standandi.

Holland hefur allt að bera til að vera stjarna, hann er heillandi, berst oft og klárar bardaga. Brunson er því líklega ætlað að vera próf fyrir Holland, sem sýnir hvort Holland hafi það sem þarf til að komast á toppinn í þyngdarflokknum. Brunson var á sama stað í síðasta bardaga og minnti þá á af hverju það má ekki vanmeta hann.

Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular