spot_img
Thursday, November 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining fyrir UFC 256

Leikgreining fyrir UFC 256

Á laugardaginn fer fram UFC 256 og þrátt fyrir að stærstu bardagarnir hafi verið settir saman með stuttum fyrirvara hefur ekkert bardagakvöld á árinu litið jafn vel út.

Í aðalbardaga kvöldsins er barist um fluguvigtartitil karla en bæði áskorandinn Brandon Moreno og meistarinn Deiveson Figueiredo börðust fyrir aðeins rúmum tveimur vikum síðan. Báðir kláruðu þó bardaga sína í fyrstu lotu og ættu því að vera klárir í flugeldasýningu þar sem stílar þeirra passa skemmtilega saman. Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætir Tony Ferguson glímusérfræðingnum Charles Oliveira í bardaga sem er líklegur til að verða einn sá skemmtilegasti á árinu.

Figueiredo gegn Moreno

Deiveson Figueiredo hefur litið afar vel út í síðustu bardögum og lenti ekki í miklum vandræðum gegn síðasta áskoranda. Við fórum yfir hans bardagastíl í leikgreiningunni á fluguvigtartitilbardögum UFC 255. Hann minnti þó á í bardaganum við Perez hversu góð spörk hann er með úr langri fjarlægð og því má ekki vanmeta hann úr þeirri fjarlægð eins og við gerðum í þeirri greiningu.

Brandon Moreno er með góða hnefaleikakunnáttu og langan faðm og líður best rétt fyrir utan þá fjarlægð sem andstæðingurinn nær til hans. Moreno stendur með höfuðið fyrir framan þyngdarpunktinn og byrjar oftast á því að finna fjarlægð með beittri stungu. Stunguna notar hann einnig til að setja upp langan vinstri krók sem hann notar með beinni hægri og ef andstæðingurinn fer að halla sér aftur endar Moreno oft fléttuna á sparki í höfuðið með fremri fæti. Hann notar góðar fléttur af höggum niður miðlínuna og í kringum vörn andstæðingsins sem gerir erfitt að verjast höggunum hans (sjá mynd 1).

Mynd 1.

a) & b) Moreno notar stunguna til að fá vörnina hjá Kara-France í miðjuna.
c) & d) Moreno kemur þá með langan vinstri krók í kringum vörnina og notar opnunina sem myndast þegar Kara-France færir vörnina í átt að króknum til að e) lenda beinni hægri.

Moreno er höggþungur en það getur orðið honum að falli gegn Figueiredo því Moreno er tilbúinn að fá á sig högg til að lenda þyngra höggi og líður mjög vel í vasanum. Moreno gæti einnig verið hið fullkomna skotmark fyrir spörk Figueiredo en í síðasta bardaga Moreno var hann að fá á sig mikið af spörkum og virtist eiga í vandræðum með að takast á við þau.

Moreno sækir sjaldan í fellur sjálfur en eins og Figueiredo er hann mikill tækifærissinni í þessu og tekur þær fellur sem andstæðingurinn gefur honum. Hann á það einnig til að taka andstæðinga niður sem sækja mikið í fellur á hann, til að sýna þeim að þeir geti ekki bara lokað fjarlægðinni áhyggjulaust. Þegar Moreno nær andstæðingum niður reynir hann aðallega að lenda höggum í „closed guard“. Hann stendur oft upp til að verjast uppgjafartökum og lendir höggum standandi þökk sé því hversu langar hendur hann hefur.

Moreno er með góða felluvörn og er góður í að búa til pláss og koma sér aftur á fætur ef hann er tekinn niður. Hann spilar ekki „closed guard“ heldur setur fæturna á mjaðmir andstæðingsins og reynir að sparka andstæðingnum af sér. Þetta opnar þó fyrir að andstæðingurinn komist framhjá fótunum hans og því lendir Moreno í vandræðum ef hann nær ekki að búa til „scramble“ og koma sér upp. Hann gefur oft á sér bakið til að standa upp en sýnir flotta takta við að sleppa úr bakstöðu og reynist flestum erfitt að halda bakinu á honum (sjá mynd 2).

Mynd 2.

a) Moreno nær að standa upp eftir að hafa komið sér á hnén en Formiga náði að stökkva á bakið á honum.
b) & c) Moreno stjórnar efri hendinni og kemur henni hinum megin við miðlínuna á sjálfum sér.
d) Moreno stekkur upp og snýr sér við í loftinu í átt að höndinni sem hann stjórnar.
e) Við lendingu reynir Formiga að komast upp og ná bakinu á Moreno aftur en f) Moreno er sneggri að komast upp og nær „underhook“ sem lokar á möguleika Formiga að ná bakinu.

Líklegt útspil bardagans

Þessi bardagi helst líklega að mestu leiti standandi þar sem hvorugur sækir mikið í fellur. Stærsta spurning bardagans er hvor stjórnar fjarlægðinni og hvernig Figueiredo tekst á við andstæðing sem er með lengri faðm og er góður boxari. Líklega notar hann aftur spörkin sín mikið úr fjarlægð. Þegar Moreno reynir síðan að loka fjarlægðinni er líklegt að Figueiredo reiði sig á höggþyngdina og noti þunga beina hægri til að refsa Moreno.

Ef Moreno byrjar að sveifla víðum krókum á móti er líklegt að Figueiredo sæki fellu. Í gólfinu gæti Figueiredo klárað bardagann með hengingu ef tækifæri gefst á meðan Moreno reynir að standa upp, en eins og áður segir gefur Moreno oft færi á sér á meðan hann reynir að standa upp.

Ef Figueiredo notar ekki spörkin og reynir bara að boxa við Moreno gæti það boðað vandræði. Moreno myndi þá líklega finna fjarlægðina með stungunni og síðan fara að setja saman fléttur með pressu sem gæti yfirþyrmt Figueiredo. Moreno endi síðan flétturnar á upphöggi eða höfuðsparki til að letja Figueiredo frá því að sækja í fellur.

Önnur stór spurning er hvað gerist ef bardaginn kemst í seinni loturnar? Figueiredo byrjar líklega af miklum krafti og stjórnar bardaganum til að byrja með. Figueiredo setur mikinn kraft í öll sín högg og það kostar hann mikla orku. Figueiredo hefur aldrei þurft að fara í meistaraloturnar auk þess sem hann sker mikið niður en það hefur oft slæm áhrif á þol bardagamanna.

Moreno á móti er með bardagastíl sem krefst ekki mikillar orku standandi og þar sem hann notar mikla pressu verður Moreno oft betri eftir því sem líður á bardagann. Þá hefur Moreno tvisvar farið í meistaraloturnar. Því er líklegt að ef Moreno nær að lifa fyrstu tvær loturnar af fari honum að ganga betur eftir því sem líður á bardagann.

Ferguson gegn Oliveira

Charles Oliveira er á lengstu virku sigurgöngu í léttvigtinni að undanskildum meistaranum, með sjö sigra í röð, og hann hefur klárað þá alla. Hann mætir hinum pressuþunga Tony Ferguson í erfiðasta bardaga sínum til þessa. Ferguson er nýbúinn að missa næstlengstu sigurgöngu í léttvigtarsögunni en fyrir seinasta bardaga var hann með 12 sigra í röð. Við fórum yfir stíl Ferguson í greiningu okkar á bölvaða bardaganum. Hann notar gríðarlega pressu, framspörk, lágspörk, bein högg og olnboga til að brjóta niður andstæðinginn.

Charles Oliveira líður best þegar hann er að pressa, eins og Ferguson, en hann hefur ekki jafn þunga pressu og Ferguson. Hann notar að miklu leiti sömu vopn og Ferguson en er með hreinni tækni. Hans besta vopn standandi er lágspark en hann notar einnig gott framspark og beina hægri. Í seinasta bardaga sýndi hann bætingar með vinstri hendinni en hann notar hana enn mest til að finna fjarlægð fyrir hægri hendina. Ef fjarlægðin er mikil notar Oliveira oft fljúgandi hné eða sýningarspörk eins og hopp framspark til að loka fjarlægðinni og sækir þaðan í fellu.

Oliveira sækir oft fellur og sérstaklega ef andstæðingurinn nær að pressa á hann. Hann er lúmskt sterkur og nær oft að læsa efri líkama andstæðingsins með höndunum og fleygja þeim þaðan í gólfið. Ef hann nær ekki fellunni er Oliveira farinn að nota olnboga til að brjóta sér leið úr „clinchinu“. Oliveira hefur þó einnig stokkið í „guard“ ef hann er í vandræðum standandi og nær ekki fellunni.

Í gólfinu er Oliveira algjör vél þegar kemur að uppgjafartökunum enda á hann metið yfir flesta sigra eftir uppgjafartak í UFC eða 14 talsins. Hann sækir í alla lása hvort sem hann er ofan á eða undir og sækir oft í fléttum (sjá mynd 3). Þegar Oliveira kemst ofan á reynir hann að komast framhjá fótum andstæðingsins og stekkur á hálsinn með hengingu ef andstæðingurinn gefur eitthvað pláss. Ef andstæðingurinn snýr sér við til að standa upp er Oliveira snöggur að koma inn krókunum og sækir beint í henginguna. Af bakinu sækir Oliveira mikið í „triangle“ hengingu eða armlás en hann sækir einnig í fæturna ef andstæðingurinn stendur upp.

Mynd 3.

a) Oliveira rammar á andlitið á Lee og b) & c) setur fótinn yfir til að læsa hendinni á honum í armlás.
d) Lee snýr hendinni til að reyna að sleppa en Oliveira reynir að klára lásinn með því að fylgja snúningnum og þrýsta hendinni út gegn olnboganum.
e) & f) Oliveira notar tækifærið sem opnast við það að Lee snýr sér undan og skiptir yfir í „omoplata“ axlarlás en þegar g) & h) Lee snýr sér aftur að Oliveira til að verja axlarlásnum skiptir sá síðarnefndi einfaldlega yfir í „triangle“ hengingu. Virkilega falleg flétta af uppgjafartökum.

Líklegt útspil bardagans

Tony Ferguson lendir oft í vandræðum í byrjun bardaga og virðist þurfa að fá á sig nokkur högg til að koma sér inn í bardagann. Það er ekki ólíklegt að sú verði raunin aftur og hann fái á sig þungar hægri hendur þegar hann reynir að pressa á Oliveira. Þar sem spörk eru sterkasta vopn Oliveira standandi er ein af stóru spurningum bardagans hvort Oliveira nái að búa sér til nóg pláss til að sparka en Ferguson notar það mikla pressu að fáir hafa náð að lenda góðum spörkum á hann. Í síðasta bardaga hans voru þó kálfaspörk stór ástæða fyrir því að hann tapaði og þar sem lágspörk eru besta vopn Oliveira standandi þarf Oliveira aðeins að miða þeim örlítið neðar til að hægja á pressu Ferguson og gera honum erfitt fyrir.

Önnur stór spurning í bardaganum er hvernig Oliveira bregst við pressunni. Við höfum oft séð Oliveira brotna undir pressu og á núverandi sigurgöngu hefur enginn náð að pressa á hann almennilega. Ef Ferguson nær að nota sína óbilandi pressu gegn Oliveira með stungu, sýndarhöggum, skera hann með olnbogum og sparka úr honum vindinn með framspörkum í skrokkinn er hætt við að Oliveira brotni. Hann gæti þá reynt ótímabæra fellu og fallið inn í hengingu hjá Ferguson.

Í gólfinu ætti Oliveira að hafa yfirhöndina en þó má ekki vanmeta getu Ferguson í glímunni. Ferguson er með gríðarlegan gripstyrk og notar olnboga og högg vel til að bæta stöðu sína eða til setja upp uppgjafartök. Oliveira hefur bætt sig í að nota högg og olnboga í gólfinu til að setja upp sínar sóknir sem eru stanslausar. Því má búast við mikilli veislu ef bardaginn fer í gólfið þar sem báðir sækja mikið og bardaginn verði mjög hraður.

Sama hvernig þessi bardagi fer er hægt að ábyrgjast að hann verði gríðarleg skemmtun.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular