Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLeikgreining: Volkanovski vs. Ortega

Leikgreining: Volkanovski vs. Ortega

Í aðalbardaga helgarinnar fer fram titilbardagi í fjaðurvigt milli Alexander Volkanovski og Brian Ortega. Þeir hafa báðir sýnt að þeir eru með þeim allra bestu í heiminum og því áhugavert að sjá hvernig stílar þeirra skarast.

Alexander Volkanovski hefur átt frábæran feril í UFC og er hingað til ósigraður. Volkanovski hefur sýnt góða stungu, frábær lágspörk og vel tímasetta króka. Hann „skip steppar“ oft inn með fremri krók og gerir það vel úr báðum stöðum. Ef hann vill nota hægri krókinn skiptir Volkanovski einfaldlega um fótastöðu áður en hann skip steppar inn (sjá mynd 1).

Mynd 1.

Mynd 1: Volkanovski skiptir um fótastöðu og færir síðan aftari fótinn þangað sem fremri fóturinn var í stökk skrefi, skip step. Hann notar stökkið til að loka fjarlægð fyrir hægri krókinn.

Volkanovski er einnig með góða vörn standandi en þar ber helst á góðum höfuðhreyfingum og frábærum gabbhreyfingum. Eitt sterkasta vopnið hans er hvað hann er alltaf í góðu formi og getur haldið hröðum bardaga þar sem hann er mjög heyfanlegur.

Volkanovski hefur einnig góðar fellur og er sterkur í „clinchinu“ en hann hefur bakgrunn í ruðning. Volkanovski gerir þar vel að stjórna andstæðingnum með „underhook“ og sækir fellur með því að krækja í fæturnar (sjá mynd 2). Ef hann ætlar að sækja í „clinch“ gegn Ortega þarf hann þó að vera agaður til að lenda ekki í „front headlock“ Ortega.

Mynd 2.

Mynd 2: Volkanovski er með einn „underhook“ á mynd 2og klemmir hinni hendinni yfir hendi Holloway. Hann krækir síðan innan á fót Holloway og notar það til að taka Holloway niður.

Brian Ortega var einn sá besti í að lenda í veseni í byrjun bardaga en ná síðan að klára bardagann í seinni lotum. Þetta skilaði honum flekklausum ferli þar til hann komst í titilbardaga gegn Holloway. Eftir þann bardaga bætti Ortega sig mikið standandi og sýndi í sínum síðasta bardaga hversu mikið hann hafði bætt sig.

Þar sýndi Ortega góða stungu sem hann blandaði vel saman við hægri krók, góð lágspörk og lág hliðarspörk sem hann notaði til að halda fjarlægð, og bættar fellur þar sem hann notaði ógnina af fellunum til að setja upp högg (sjá mynd 3).

Mynd 3.

Mynd 3: Ortega sækir í „single leg“ en þegar hann finnur að hendur Jung eru uppteknar að verjast fellunni sleppir Ortega fætinum og kýlir Jung.

Ortega sýndi einnig bætta vörn standandi, en þar hafði hann lent í mestu vandræðunum. Hann notaði stunguna og lága hliðarsparkið til að halda vel fjarlægð. Ortega hafði lengi notað svipaða vörn og Poirier þar sem hann setur fremri olnbogann hátt upp en hann sýndi bætta vörn með aftari hendi og lokaði þannig á flest höfuðhögg. Hann hefur þó einnig notað olnbogann sem vopn þar sem hann stígur inn með olnboga á móti andstæðing sem er að elta hann (sjá mynd 4).

Mynd 4.

Mynd 4: Ortega nær að koma sér akkúrat nógu langt frá til að sleppa frá króknum og setur þá olnbogann upp og lendir því á gagnauga Holloway.

Hættulegasta vopn Ortega eru þó uppgjafartökin og er hann sérstaklega hættulegur úr „front headlock“. Ortega hefur sýnt ótrúlega hæfni til að sækja „front headlockið“ úr „clinchi“ þegar flestir eiga litla von á að lenda í stöðunni enda sækja mjög fáir jafn grimmt í „front headlock“ og Ortega (sjá mynd 5). Úr „headlockinu“ er Ortega snöggur að læsa Anaconda hengingu eða „guillotine“.

Mynd 5.

Mynd 5: Ortega er með einn „underhook“ en hann sleppir honum og heldur yfir bak Swanson. Þannig nær hann að halda Swanson niðri á meðan að hann skiptir gripinu sínu yfir í „front headlock“ grip. Ortega læsir strax saman Anaconda hengingu og nær að krækja í löpp Swanson til að koma honum í gólfið. Þaðan krækir Ortega með löppunum í hendur Swanson til að klára henginguna.

Leiðir til sigurs:

Alexander Volkanovski

Ef að Volkanovski sigrar verður það líklega á dómaraákvörðun. Ortega er opinn fyrir mikið af bestu árásum Volkanovski eins og lágspörkunum og hægri krók. Því er helsta leið Volkanovski til sigurs:

  • Nota lágspörkin mikið en líka mikið af gabbhreyfingum til að gera Ortega erfitt fyrir að grípa spörkin.
  • Skipta um stöðu og skip steppa inn með hægri krók.
  • Halda hröðum bardaga og þreyta Ortega þannig.
  • Vera agaður í clinchinu og taka Ortega mikið úr jafnvægi þannig að Ortega nái ekki að koma sér í góða stöðu.

Brian Ortega

Ef að bardaginn klárast er Ortega líklegri til að vera sigurvegari. Volkanovski hefur þó sýnt að það er erfitt að klára hann og þarf því Ortega að vera upp á sitt allra besta til að ná því. Hans helstu leiðir til sigurs eru:

  • Halda fjarlægð með stungunni en byggja einnig á henni til að lenda hægri krók og beinni vinstri.
  • Nota spörk í skrokk og höfuð til að Volkanovski þurfi að hafa hendurnar hjá sér til að verja spörkin.
  • Nýta allar lokanir á fjarlægð til að fara í clinchið.
  • Nota högg til að setja upp fellur og fellur til að setja upp högg.

Þetta er einn besti bardagi ársins á pappír og verður gríðarlega áhugavert að sjá hvor þeirra nær að gera bardagann að sínum. Meistarinn verður að teljast líklegri til sigurs þar sem hann hefur sýnt fáa veikleika hingað til, en hann má ekki gleyma sér í eina sekúndu þar sem Ortega hefur sýnt hvað hann þarf lítið til að klára bardaga.

spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular