Miðað við nýjustu orðróma eru línurnar að skýrast í veltivigt UFC. Svo virðist sem BMF titillinn verður aftur á dagskrá hjá Nate Diaz og Jorge Masvidal.
Ríkjandi meistari Kamaru Usman mun væntanlega verja veltivigtartitilinn næst gegn Gilbert Burns. Þeir áttu upphaflega að mætast í júlí en aðeins viku fyrir bardagann greindist Burns með kórónuveiruna og kom Jorge Masvidal inn í hans stað. Þeir munu væntanlega klára málin í desember en UFC stefnir á að hýsa bardagann á UFC 256 þann 12. desember.
Talið er að UFC sé nálægt því að ganga frá samningum en sjálfur kannaðist Burns ekkert við komandi titilbardaga.
That’s breaknews for me too! 🤣
— GILBERT BURNS DURINHO (@GilbertDurinho) September 1, 2020
Nothing signed! Hope I signed it soon! Dec 12 it’s a great date! https://t.co/P72azJuq37
Síðasti andstæðingur Usman, Jorge Masvidal, er síðan í viðræðum við UFC um næsta bardaga. UFC er að stefna á annan bardaga milli Masvidal og Nate Diaz. Fyrri bardagi þeirra fór fram í nóvember og var um svo kallað „Baddest Motherfucker“ belti eða BMF beltið eins og það var kallað.
Masvidal sigraði eftir að læknirinn stöðvaði bardagann í 3. lotu en margir voru ósáttir við endalok bardagans, þar á meðal Dana White, forseti UFC. Masvidal og Diaz gætu því mæst aftur og verður BMF titillinn aftur í húfi.
Bardaginn væri annað hvort á UFC 256 í desember eða aðalbardaginn á bardagakvöldi í janúar.
Eftir situr Leon Edwards en hann hefur lengi sóst eftir því að mæta Jorge Masvidal. Hann gæti þó fengið bardaga gegn Stephen ‘Wonderboy’ Thompson.