Josh Samman vann stórglæsilegan sigur gegn Eddie Gordon á UFC 181 um helgina með rothöggssparki og fékk 50.000 dollara verðlaun fyrir frammistöðuna. Þetta var þó ekki aðeins glæsilegasti sigurinn á ferli Samman, heldur líka mikill persónulegur sigur fyrir Samman sem hefur gengið í gegnum ótrúlegar þrekraunir síðan hann keppti síðast í UFC í apríl 2013.
Samman vissi að eitthvað væri að þegar kærastan hans, hin 22 ára gamla Hailey Bevis, hætti að svara smáskilaboðum hans að kvöldi 30. ágúst 2013. Samman var á heimili parsins í Tallahassee í Flórída að bíða eftir Bevis sem var að keyra heim. Þau voru að senda hvort öðru skilaboð á meðan hún keyrði. „Þetta var ósiður sem við höfðum,“ sagði Samman.
Bevis komst aldrei heim. „Síðustu skilaboðin sem ég fékk frá henni komu kl. 20:36 og það var lögreglumaður á slysstaðnum kl. 20:41,“ sagði hinn 26 ára gamli Samman í viðtali við USA Today og MMAjunkie. „Þannig að ég hef alltaf kennt sjálfum mér um.“
Vissi hvað hann hafði áður en hann missti það
Samman hafði ekki barist síðan í apríl þetta ár en ferill hans var á uppleið og það sama var að segja um einkalífið en hann var nýbyrjaður að búa með kærustu sinni.
„Fólk segir að maður viti ekki hvað maður hefur fyrr en maður hefur misst það, en ég vissi það,“ sagði Samman. „Ég vissi hvað ég hafði þegar ég hafði það. Ég hafði aldrei á ævinni verið jafn hamingjusamur.“
Þegar Bevis lést tapaði Samman áttum. Það að berjast í UFC, sem eitt sinn var bara fjarlægur draumur, virtist ekki lengur skipta máli. „Ég var ekki viss hvað ég vildi gera, hvort ég vildi yfirhöfuð vera hér lengur,“ sagði Samman.
En þjálfarar hans og æfingafélagarnir gáfust ekki upp og það gerði UFC ekki heldur, segir Samman. UFC hélt áfram að fljúga með Samman á bardaga og fjölmiðlaviðburði og smám saman kom viljinn til að berjast aftur.
„Mér fannst ég búinn að vera eyðilagður nógu lengi og það væri kominn tími til að stíga skref í átt að því að halda áfram að lifa,“ segir Samman.
Áföll ofan á áföll
Nokkrum vikum fyrir bardaga meiddist hann svo alvarlega á hásin og varð að aflýsa bardaganum og fara í skurðaðgerð. Við tók langur og sársaukafullur bati en raunum Samman var ekki lokið. Ofan á allt þetta bættist dauði stjúpföður hans og hann þurfti að hugga móður sína í gegnum annað sorgarferli – svipað því sem hafði gleypt líf hans skömmu áður.
„Eftir svolítinn tíma veit maður ekki lengur hvað maður á að segja,“ sagði Joe Burtoft, þjálfari Samman. „Hvenær fær þessi strákur smá hlé?“
Samman velti því sama fyrir sér þangað til hann komst að því að UFC væri að skipuleggja stóran viðburð í Las Vegas 6. desember á afmælisdegi Hailey. Hann vissi að hann yrði að keppa á þessum viðburði. Þetta gæti ekki verið tilviljun, hugsaði Samman.
„Hailey sagði alltaf að allt eigi sér ástæðu,“ sagði Samman.
Ólýsanlega þýðingarmikið
Samman grátbað því um bardaga á þessum viðburði, sama hver andstæðingurinn væri. Hann fékk Eddie Gordon.
„Það er engin leið fyrir mig að útskýra hversu mikla þýðingu þessi dagsetning hefur fyrir mig,“ sagði Samman. „Ég get ekki tjáð það í orðum þannig að ég verð að fara þarna út og gera það með gjörðum mínum. Allir hvetja mig til að skilja tilfinningarnar eftir fyrir utan búrið, en það er engin leið að stöðva það.“
Samman sýndi svo sannarlega hve mikilvægur þessi dagur var með stórglæsilegu rothöggi gegn Gordon en hann lenti sparki í höfuðið á honum eftir rétt rúmar 3 mínútur í annarri lotu.
„Þrátt fyirr sigurinn var kvöldið ljúfsárt,“ sagði Samman eftir bardagann. „Hailey hefði orðið 24 ára í dag og ég veit að hún hefði verið mjög stolt. En ég var óvenjulega rólegur. Ég var ekki viss hvernig mér myndi líða og hvaða áhrif tilfinningarnar hefðu. En við vissum það í búningsherberginu að öll erfiðisvinnan myndi borga sig.“