Þær fregnir bárust í morgun að Tyron Woodley og Rory MacDonald muni berjast þann 14. júní á UFC 174. Bardaginn mun að öllum líkindum úrskurða um næsta áskoranda fyrir veltivigtarmeistarann Johny Hendricks.
Það bendir allt til þess að Woodley og MacDonald muni berjast um hvor fær næsta titilbardaga. Bardaginn fer fram í Vancouver í Kanada og gæti verið aðal bardaga kvöldsins. Nýkrýndi veltivigtarmeistarinn Johny Hendricks er með rifinn tvíhöfða og getur ekki barist fyrr en í haust. Þetta er því gott tækifæri fyrir UFC að útlkjá hvor er áskorandi númer 1. Bardaginn hefur þó ekki verið staðfestur af UFC enn sem komið er.
Tyron Woodley sigraði síðast Carlos Condit á UFC 171 fyrr í mánuðinum. Woodley sigraði bardagann með tæknilegu rothöggi eftir að Carlos Condit sleit krossband eftir fellu frá Woodley. Condit gat ekki haldið áfram og því var bardaginn stöðvaður.
Rory MacDonald sigraði Demian Maia á UFC 170 í febrúar. MacDonald gerði gríðarlega vel í að lifa af fyrstu lotuna eftir að Maia komst í “mount” snemma í fyrstu lotu og sigraði að lokum eftir dómaraákvörðun. MacDonald er í 2. sæti á lista UFC yfir bestu veltivigtarmennina á meðan Woodley er í því 4.