Magnús Ingi Ingvarsson var einn af fimm Íslendingum sem barðist á FightStar kvöldinu í London um síðustu helgi. Magnús Ingi tapaði eftir rothögg í 1. lotu en við spjölluðum aðeins við hann um bardagann og framhaldið.
Magnús Ingi mætti Farukh Aligadjiev á laugardaginn en lítið var vitað um hann annað en að hann væri frá Dagestan og hefði unnið alla fimm bardaga sína. Eftir yfirhandar hægri frá Aligadjiev féll Magnús niður og fylgdi Dagestaninn því eftir með höggum í gólfinu. Bardaginn var því stöðvaður eftir 30 sekúndur af fyrstu lotu.
Á Instagram kvaðst Magnús vera í lagi eftir tapið en talaði um að upphitunin hefði farið úrskeiðis. En hvað klikkaði í upphituninni?
„Það varð á misskilningur á milli okkar og þeirra sem voru að kalla á fighterana inn í búr. Þegar verið var að vefja á mér hendurnar var mér sagt að mér yrði gefinn nægur tími til að hita upp og það væri ekkert stress. Nokkrum mínútum síðar þegar ég var aðeins byrjaður að teygja og hreyfa mig þá kemur sami strákur og segir að ég þurfi að drífa mig niður og að lagið mitt væri byrjað. Þannig að ég náði því miður ekkert að hita upp og hljóp frá upphitunarklefanum alla leið inn í búr, alltof seinn,“ segir Magnús. Ekki beint draumaaðstöður til að fara inn í.
„Ég stóð inni í búrinu og leið engan veginn eins og ég væri að fara að berjast. Þegar bjallan hringdi þá hugsaði ég með mér að ég myndi nota fyrstu sekúndurnar í reyna að hitna vel áður en að ég færi að kasta einhverju af alefli. Eftir á að hyggja var það frekar vitlaus hugsun í bardaga.“
Síðan þá hefur Magnús horft á bardagann og farið yfir hvað hann gerði rangt. „Þegar ég horfði á bardagann aftur sá ég að ég var ekki einu sinni með stílinn minn. Ég var frekar nálægt honum og ég vil helst berjast úr fjarlægð. Svo kom þessi yfirhandar hægri og vankaði mig og þaðan komst ég ekki til baka.“
Þetta var fyrsti bardagi Magnúsar síðan á Evrópumótinu í Prag í lok síðasta árs. Magnús átti að berjast í apríl en þurfti að hætta við þann bardaga vegna ofþjálfunar. Eftir langa bið voru úrslitin sérstaklega súr.
„Þetta er mjög súr biti að kyngja og mér finnst alveg ömurlegt að ég hafi ekki fengið séns á að sýna hversu mikið ég hef bætt mig í einu og öllu síðan að ég barðist síðast. En þetta var klárlega lærdómur og mikið af hlutum sem hægt er að taka frá þessu. Ég tók áhættu með því að fara á móti andstæðingi sem ég vissi ekkert um annað en að vera ósigraður frá Rússlandi. Hann hafði allt myndefni um mig og mína bardaga þar sem að flestir þeirrra eru á samfélagsmiðlum. En eins og áður hefur komið fram þá er ég í þessu til að skora á sjálfan mig og ég tek tessu tapi og held ótrauður áfram. Engar áhyggjur þetta tap var einungis bensín á bálið fyrir mér.“
Eftir rothöggið mun Magnús taka sér pásu frá höfuðhöggum áður en hann heldur áfram. Hann ætlar samt sem áður að huga að öðrum hlutum á meðan og var strax mættur á jiu-jitsu æfingu í vikunni. „Heilsan mín skiptir mig öllu máli og það eru fullt af hlutum sem hægt er að vinna í án þess að taka höfuðhöggum. En ég mun núna taka mér tveggja mánuða pásu að lágmarki frá öllum höfuðhöggum.“