spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMallory Martin: Veit að Sunna verður tilbúin og það mun ég líka...

Mallory Martin: Veit að Sunna verður tilbúin og það mun ég líka vera

Mynd af Facebook síðu Mallory.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir mætir Mallory Martin á Invicta FC bardagakvöldinu í Kansas nú á laugardaginn. Við heyrðum í Martin á dögunum og spjölluðum við hana um bakgrunn hennar, bardagann gegn Sunnu og æfingarnar í Tælandi.

Mallory Martin er 23 ára Bandaríkjamær sem æfir í dag hjá Tiger Muay Thai í Tælandi. Hún er 1-0 í Muay Thai og 1-0 sem atvinnumaður í MMA eftir sinn fyrsta atvinnubardaga í desember. Bardaginn á laugardaginn verður hennar fyrsti í Invicta.

Martin hefur æft MMA í nokkur ár eftir að hafa verið í íþróttum alla sína ævi. „Ég byrjaði í MMA þegar ég var á lokaárinu mínu í menntaskóla (high school). Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum og var í blaki, körfubolta, fótbolta og frjálsum íþróttum,“ segir Martin

„Ég var alltaf aðeins of aggressív fyrir þær íþróttir og langaði alltaf að prófa að berjast. Ég spurði pabba hvort ég mætti það en hann og stjúpmamma mín voru ekkert alltof hrifin af því. Það var ekki fyrr en pabbi sá kvennabardaga á MMA bardagakvöldi sem hann sagði að þetta væri eitthvað sem ég gæti orðið góð í. Hann sagði að ég mætti gera þetta ef ég myndi finna góðan klúbb til að æfa í.“

Það gerði Martin og byrjaði hún að æfa hjá Zingano BJJ sem er bardagaklúbbur sem UFC bardagakonan Cat Zingano og eiginmaður hennar heitinn, Mauricio Zingano, ráku. Martin vissi það strax á fyrstu æfingunni að þetta væri eitthvað sem hún vildi gera.

„Ég var á miðju tímabilinu í körfuboltanum þegar ég byrjaði að æfa. Ég fór á körfuboltaæfingar eftir skóla og svo beint í Zingano BJJ að æfa jiu-jitsu eða Muay Thai. Ég vissi það eftir fyrstu æfinguna að þetta væri það sem mig langaði að gera, mig langaði strax að gerast atvinnumaður í MMA. Um leið og ég kláraði menntaskólann byrjaði ég að æfa á fullu og gerði ekkert annað.“

„Markmið mitt frá byrjun var alltaf að gerast atvinnumaður. Ég æfði á hverjum degi með það markmið í huga. Mig langaði ekki í háskóla og veit að háskólinn verður alltaf til staðar í framtíðinni. Ég fann ástríðuna mína um leið og ég steig á dýnuna og hef bara einbeitt mér að æfingum síðan þá til að ná markmiðum mínum.“

Í dag æfir Martin í Tælandi þar sem hún lifir draumnum en hún hreinlega elskar að æfa þarna. „Ég bý í Phuket í Tælandi og elska það. Þetta er algjör paradís að geta bara einbeitt sér að æfingum og ég elska þennan lífstíl. Ég vann úrtökumót Tiger Muay Thai 2016 þar sem ég vann mér inn æfingastyrk til að æfa frítt í eitt ár. Þetta er besta félag heims. Ég hef bætt mig svo mikið hérna og lært ótrúlega mikið. Það eru mjög góðir æfingafélagar hérna og maður fær að æfa með mörgum mismunandi stílum og fólki alls staðar að úr heiminum, það er æðislegt.“

Sunna æfði á sama stað í nokkra mánuði árið 2013 og þekkja þjálfarar Martin til Sunnu. „Það eru nokkrir hér sem þekkja Sunnu og þeir eru sammála um að þetta verði frábær bardagi. Það er ekki óalgengt að nokkrir af strákunum hér berjist við aðra sem hafa áður æft hér svo það er ekkert óvenjulegt við þetta fyrir þjálfarana.“

Sjálf veit Martin ekki mikið um Sunnu eða Ísland en veit að þetta verður frábær bardagi. „Ég veit að Sunna er góð alls staðar en er held ég aðeins meira fyrir að halda þessu standandi. Ég veit ekki mikið um Sunnu eða Ísland yfir höfuð nema að það sé kalt þar og mjög fallegt. Ég væri alveg til í að fara þangað einn daginn. Ég veit hins vegar að þetta verður frábær bardagi.“

Martin barðist sinn fyrsta atvinnubardaga í desember eftir 6-1 feril í áhugamennsku. Þar fór Martin með sigur af hólmi gegn Heqin Lin eftir dómaraákvörðun á bardagakvöldi í Kína.

„Fyrsti atvinnubardaginn minn var í desember með viku fyrirvara og þyngdarflokki ofar en ég keppi vanalega í. Ég var að undirbúa mig fyrir Muay Thai bardaga en fékk tækifæri á að keppa fyrir Kunlun bardagasamtökunum í Beijing í Kína. Þetta var ótrúleg upplifun og ég fékk að fara til Hong Kong og Beijing. Ég mætti virtri kínverskri stelpu og sigraði eftir einróma dómaraákvörðun. Reynslan var ómetanleg.“

Bardaginn gegn Sunnu verður þriðji bardagi kvöldsins á Invicta FC 22 í Kansas á laugardaginn. Bardaginn fer fram í strávigt og er Martin 100% viss um að þetta verði frábær viðureign. „Þetta verður frábær bardagi. Mögulega besti bardagi kvöldsins. Ég veit að hún verður tilbúin og það mun ég líka vera. Ég hef verið að æfa vel, ég er andlega, líkamlega og tilfinningalega tilbúin í þetta allt! Ég vanmet aldrei andstæðinga mína og ég veit að hún mun vera tilbúin. Ég er ákveðin, hungruð og ég kem til að berjast! Ég mun fylgja leikáætlun minni og standa uppi sem sigurvegari,“ sagði Martin að lokum.

Það verður afar spennandi að fylgjast með Sunnu takast á við Martin en bardagakvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á laugardaginn á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending á miðnætti.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular