spot_img
Thursday, November 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir Mayweather vs. McGregor

Mánudagshugleiðingar eftir Mayweather vs. McGregor

Boxbardagi Conor McGregor og Floyd Mayweather fór fram síðastliðið laugardagskvöld. Mánudagshugleiðingarnar eru vanalega bara eftir UFC kvöld en gerum smá undantekningu að þessu sinni þar sem um stórviðburð var að ræða.

Þá er þetta bara búið. Floyd Mayweather barðist við MMA bardagamann. Hver man ekki eftir endalausum pælingum fjölmiðla um hvort Ronda Rousey myndi mæta Floyd Mayweather í hringnum eða búrinu? Það var ótrúlegt bull og dó um leið og Ronda tapaði.

Conor McGregor tók við keflinu og slúðruðu fjölmiðlar um mögulegan bardaga Floyd Mayweather og Conor McGregor. Það virtist vera jafn mikið bull og Rondu Rousey bardaginn en um það bil tveimur árum síðar gerðist þetta bara. Conor McGregor barðist við Floyd Mayweather í boxi. Það er ennþá eiginlega fáranlegt.

En fólkið valdi þetta. Gríðarlegur áhugi var á bardaganum og hafði fólk mikinn áhuga á þessum óhefðbundna bardaga. Framan af var þetta ekkert nema sirkus en bardaginn var á endanum betri en flestir höfðu gert ráð fyrir. Græðgin var þó til staðar hjá þeim sem stóðu að bardaganum en uppskáru samt ríkulega þrátt fyrir að miðasalan hafi staðið undir væntingum. Ofmat á miðaverði voru eiginlega einu mistökin þeirra – allt annað gekk einfaldlega upp (fyrir utan truflun á Pay Per View sölu en það var ekki í þeirra höndum).

Það virðast eiginlega allir vera bara nokkuð sáttir með hvernig fór á laugardagskvöldið. Floyd fór með sigur af hólmi eftir tæknilegt rothögg í 10. lotu en Conor stóð sig betur en margir höfðu spáð. Boxáhugamenn voru ánægðir með að sjá Floyd klára óreynda boxarann Conor og Conor varð MMA áhugamönnum ekki til skammar. Þetta var eiginlega eins og flestir höfðu spáð fyrir og svona ætti bardagi á milli heimsklassa MMA bardagamanns og heimsklassa boxara að fara í hringnum. MMA bardagamaðurinn stóð sig vel en einfaldlega ekki nógu góður til að sigra ansi góðan boxara á hans heimavelli.

Nú má Conor bara koma aftur í MMA. Þetta var frábært fyrir hann að keppa á móti einum besta boxara sögunnar en við þurfum ekkert að sjá hann aftur í boxi. Ljóst er að möguleikarnir fyrir Conor í UFC eru margir. Khabib Nurmagomedov, Nate Diaz, Max Holloway, Tyron Woodley, Kevin Lee og Tony Ferguson hafa allir verið nefndir til sögunnar í mismikilli alvöru.

Eðlilegast væri ef léttvigtarmeistarinn Conor myndi mæta nýkrýndum bráðabirgðarmeistara, sigurvegaranum úr viðureign Tony Ferguson og Kevin Lee í október, en eins og við höfum áður séð er ekkert eðlilegt við feril Conor McGregor. Hann hefur ekki ennþá varið titil á ferli sínum, hvorki í Cage Warriors né UFC, og er kominn tími á það.

Staðreyndin er hins vegar sú að bardagi gegn Nate Diaz er stærsti bardaginn þessa stundina fyrir Conor. Það er eitthvað sem bæði Conor og UFC horfa til þegar ákvörðun um framhaldið verður tekin. Hver sem andstæðingurinn verður er óhætt að fullyrða að áhugavert verði að sjá Conor aftur í UFC eftir að hafa bara einbeitt sér að boxinu undanfarið hálft ár. Hversu góður verður hann standandi?

Paulie Malignaggi má svo endilega hverfa ofan í einhverja holu og halda áfram að vera hættur. Við þurfum ekkert að hlusta á fleiri viðtöl við hann þar sem hann talar um Conor og þurfum ekkert að sjá Conor boxa við hann.

Nú er þetta boxævintýri búið og hefðbundin UFC dagskrá tekur við. Næsta UFC kvöld er nú á laugardaginn þegar þeir Stefan Struve og Alexander Volkov mætast í aðalbardaga kvöldsins. Langt frá því að vera mest spennandi bardagi ársins en alltaf þægilegt að komast aftur í smá rútínu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular