spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC 168

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 168

Chris Weidman vs Anderson SilvaUFC 168 var eitt minnistæðasta bardagakvöld fyrr og síðar. Ekki nóg með að fullt af frábærum bardögum hafi átt sér stað þetta kvöld heldur var þetta líklega í síðasta skiptið sem Anderson Silva mætir í búrið.

Chris Weidman sigraði eftir að Anderson Silva fótbrotnaði. Sigurinn er sagður tæknilegt rothögg en Weidman “checkaði” spark frá Anderson með skelfilegum afleiðingum. Weidman talaði um eftir bardagann að þetta hefði verið eitt af því sem hann og þjálfarar hans hefðu unnið mikið með fyrir bardagann, að “checka” spörk. Weidman sló Anderson Silva niður í fyrstu lotu og var í raun með yfirburði allan tíman í bardaganum. Ekki á neinum tímapunkti í bardaganum var Anderson Silva að vinna bardagann. Það hefði verið gaman ef bardaginn hefði haldið lengur áfram og ekki endað svona snemma og óvenjulega. Í fyrsta skipti í langan tíma var Anderson Silva ekki með nein fíflalæti í búrinu sem mátti svo sem við búast eftir fyrri bardaga þeirra.

Eftir þetta hræðilega fótbrot eru margir á því að Anderson Silva muni aldrei berjast aftur. Ýmsir læknar hafa þó sagt að endurkoma eftir svona meiðsli sé ágæt og hann gæti verið kominn af stað eftir eitt ár. Hann hefur áður talað um að hætta og gæti þetta verið ágætis tímapunktur til að setja hanskana á hilluna eftir frábæran feril.

Weidman mætir Vitor Belfort á næsta ári en það er í raun bara spurning hvar og hvenær. Það er virkilega spennandi bardagi og verður gaman að sjá hvar sá bardagi færi fram í ljósi TRT meðferðar Belfort. Millivigtin er allt í einu orðin ein mest spennandi deildin í UFC. Sá næsti til að fá titilbardaga verður sigurvegarinn úr Machida – Mousasi bardaganum og svo hefur Jacare sýnt frábær tilþrif í UFC. Þarna er heill hellingur af frábærum bardögum!

Ronda Rousey sigraði Miesha Tate með “armbar” í þriðju lotu. Aldrei áður hefur Rousey farið úr fyrstu lotu í bardaga og því kærkomin reynsla fyrir hana. Þó að bardaginn hafi farið í þriðju lotu var Tate mest í því að verjast og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Tate gekk betur í standandi viðureign en kaus að “clincha” við júdóstelpuna og lét kasta sér nokkrum sinnum í bardaganum sem verður að teljast afar undarleg leikáætlun. Rousey sýndi þar heimsklassa köst og var hrein unun að fylgjast með henni kasta Tate.

Ronda Rousey neitaði að taka í hönd Tate eftir bardagann sem var mjög óvinsælt hjá áhorfendum og var mikið baulað á meistarann. Rousey sagði að Tate hefði móðgað fjölskyldu sína og það var eitthvað sem hún gæti ekki fyrirgefið nema með því að fá afsökunarbeiðni frá Tate. Ekki er vitað hvenær nákvæmlega Tate móðgaði fjölskyldu Rousey en Rousey átti þarna við þjálfara sína sem hún er mjög náin við. Vinsældir Rousey hafa hrapað og hún virðist alltaf segja einhverja vitleysu í hvert sinn sem hún fær hljóðnema í höndina. Þetta gæti þó allt verið með vilja gert til að auka umtal og áhuga.

Eins og kom fram á blaðamannafundinum eftir bardagana mætir Rousey Sara McMann á UFC 170. McMann er silfurverðlaunahafi í glímu frá Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og verður þetta því bardagi tveggja Ólympíuverðlaunahafa. Það verður þó að segja að í kvennaflokkunum er getustigið hærra í júdó heldur en glímu enda hefur kvennajúdó verið á Ólympíuleikum frá 1980 á meðan kvennaglíma hefur aðeins verið frá árinu 2004. McMann er sennilega ekki tilbúinn í Rousey en meistarinn mun sennilega sigra örugglega.

Travis Browne rotaði Josh Barnett með svakalegum olnbogum og er þetta í annað skiptið sem hann nær slíku rothöggi. Það sem er athyglisvert er að Browne hefur verið spáð ósigri af veðbönkunum í nánast öllum bardögum sínum í UFC. Fáir (undirritaður meðtalinn) töldu að Browne myndi sigra Barnett en Browne hefur sýnt að hann er hörku bardagamaður. Líklegast er hann þó einn af fjölmörgum þungavigtarmönnum á topp 10 sem eiga ekki séns í Cain Velasquez og Junior Dos Santos, en hann hefur svo sem sýnt fram á annað áður. Browne mætir Fabricio Werdum næst og mun sigurvegarinn þar mæta Cain Velasquez.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular