Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC 170

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 170

Aðfaranótt sunnudags fór fram UFC 170 í Las Vegas. Fjórir af fimm bardögum á aðalkortinu enduðu með tæknilegu rothöggi og heilt yfir var þetta spennandi bardagakvöld. Hér eru helstu hugleiðingar eftir viðburðinn:

 UFC Logo Vector Resource

Stöð 2 Sport hefur sýningar á UFC

Það eru frábærar fréttir fyrir íslenska MMA aðdáendur að Stöð 2 Sport hafi ákveðið að hefja sýningar á UFC viðburðum. UFC 170 var fyrsta kvöldið og von er á fleirum. Það er greinilegt að MMA vex sífellt í vinsældum og þetta hafa stóru miðlarnir áttað sig á. Við getum því látið okkur hlakka til að sjá stöðugan vöxt og aukin gæði þegar það kemur að umjöllun um MMA hér á landi.

Cormier, Cummins og auglýsingaskrumið

Daniel Cormier lítur virkilega vel út sem léttþungavigtarmaður og að öllum líkindum mun hann mun valda mörgum í þeim þyngdarflokki vandræðum. Það var þó hálfgerð synd að við fengum ekki að sjá meira af honum í þessum bardaga, en Cummins átti einfaldlega ekkert í hann. Þessi bardagi var skýrt dæmi þess að stundum reynir UFC markaðsvélin að sannfæra mann um að allskyns keppendur eigi séns, þegar þeir eiga í raun lítinn sem engan. Cummins átti að vera stórhættulegur Cormier, þar sem hann hafði unnið hann á æfingu árið 2004. Útkoman sýndi hins vegar klassamuninn á þessum tveim keppendum; þetta voru einfaldlega tveir andstæðingar sem áttu ekki heima í sama búrinu á þessum tímapunkti

Cummins fékk samning hjá UFC þar sem enginn annar vildi mæta Cormier með 10 daga fyrirvara eftir að Rashad Evans meiddist. Maður sýnir því vissan skilning að Dana White og UFC hafi gert allt sem þeir gátu til að redda Cormier nýjum andstæðingi, en hins vegar hefur Dana White látið hafa eftir sér að næsti andstæðingur Cormier verði Rashad Evans, þegar Evans hefur jafnað sig af meiðslum sínum. Þetta þýðir að þessi bardagi Cormier og Cummins hafði nákvæmlega engin áhrif á stöðuna í léttþungavigtinni og var nánast eins konar sýningarbardagi. 

cormier
Daniel Cormier rotar Patrick Cummins

Hver getur stöðvað Ronda Rousey?

Ronda Rousey heldur áfram að líta út fyrir að vera óstöðvandi. Eftir sigurinn gegn McMann hefur hún sigrað átta af níu bardögum í fyrstu lotu og hefur aldrei lent í vandræðum, fyrir utan hengingartilraun Caramouche í fyrsta UFC bardaga hennar. Eins og staðan er núna virðast konurnar í bantamvigtinni ekki geta staðist henni snúning. Það er vissulega gaman að sjá svo hæfileikaríkan meistara gjörsamlega bera höfuð og herðar yfir andstæðingana, en hætta er á því að yfirburðir Rousey séu slíkir að við fáum ekki að sjá spennandi titilbardaga í langan tíma. Fyrr um kvöldið börðust Alexis Davis og Jessica Eye og ég held að hvorug þeirra sé í sama klassa og Rousey á núverandi tímapunkti.

Menn hafa lengi beðið eftir að Cyborg Santos, sem er af flestum talin næstbest í heiminum, færi sig niður um þyngdarflokk og mæti Rousey. Þetta er eitthvað sem hefur verið talað um í þónokkurn tíma og er klárlega bardaginn sem aðdáendurnir vilja sjá. Dana White þarf að koma því í kring.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

2 COMMENTS

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular