spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 194

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 194

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Stærsta bardagakvöld ársins fór fram á laugardaginn. Á bardagakvöldinu fóru tveir titilbardagar fram og sáum við bæði beltin skipta um eigendur.

Conor McGregor rotaði Jose Aldo eftir aðeins 13 sekúndur og var þetta fljótasti titilbardagi í sögu UFC. McGregor bætti met Rondu Rousey sem sigraði Cat Zingano á aðeins 14 sekúndum. Þetta var ótrúlega vel gert hjá McGregor enda var hann búinn að segja að hægri hönd Aldo ætti eftir að koma honum í vandræði.

McGregor ætlar að hugsa vel og vandlega um sín næstu skref. Hann gæti farið upp í léttvigtina og skorað á hvern þann sem heldur beltinu þar eða varið fjaðurvigtartitilinn gegn Frankie Edgar eða Jose Aldo. Hann ætlar ekki að láta beltið af hendi þó hann fari í léttvigtina. Hann ætlar að halda báðum beltunum á sama tíma enda segist hann vilja berjast sem oftast.

Ef McGregor tekst ætlunarverk sitt, að vera fjaður- og léttvigtarmeistari UFC og verja bæði beltin nokkrum sinnum á ári, yrði hann sannkölluð guðsgjöf fyrir UFC. McGregor hefur gert afar vel hingað til fyrir UFC en þetta myndi ná nýjum hæðum.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Jose Aldo var gjörsamlega niðurbrotinn eftir tapið gegn McGregor. Þetta hefði ekki getað endað verr fyrir hann – að vera rotaður á 13 sekúndum gegn erkióvininum. Hann mun eflaust leggjast undir feld á næstunni og hugsa sín næstu skref. Það kæmi svo sem ekkert á óvart ef honum myndi verða að ósk sinni og fá annað tækifæri gegn McGregor. Það kæmi manni heldur ekkert á óvart ef hann myndi segja þetta hafa verið heppni hjá McGregor og næst muni þetta ekki endurtaka sig.

Luke Rockhold er nýr millivigtarmeistari UFC. Rockhold átti einfaldlega frábæra frammistöðu gegn Chris Weidman. Undirbúningur hans var þó ekki eins og best verður á kosið en Rockhold fékk sýkingu í sár sem hann fékk á sköflunginn. Rockhold var á sýklalyfjum í tvær vikur fyrir bardagann sem hafði áhrif á þol hans. Hann vildi því flæða í stað þess að þvinga stöðurnar í gegn.

Rockhold á ærið verk fyrir höndum ef hann ætlar að halda millivigtarbeltinu. Þyngdarflokkurinn hefur aldrei verið betri á toppnum og bíður hans hið erfiða verkefni að halda beltinu. Weidman á pottþétt eftir að koma sterkur til baka, Romero er líklegast næstur í röðinni, Jacare á eflaust líka eftir að koma til baka og svo gæti Rockhold fengið ósk sína uppfyllta og mætt Vitor Belfort.

Í lokin er rétt að minnast aðeins á Urijah Faber og bantamvigtina. Þeir TJ Dillashaw og Dominick Cruz mætast um bantamvigtartitilinn í janúar og óskaði Faber eftir að fá titilbardaga gegn sigurvegaranum. Það yrði frábær saga ef Faber mætir Dillashaw enda æfðu þeir saman í mörg ár hjá Team Alpha Male áður en Dillashaw yfirgaf liðið. Það var Faber sem kom Dillashaw í MMA og væri aðdragandi bardaga milli þeirra líkt og í Rocky mynd. Faber hefur lengi eldað grátt silfur með Dominick Cruz svo bardagi milli þeirra væri líka áhugaverður. Allt í einu er bantamvigtin orðin áhugaverð aftur eftir erfitt ár.

Næsta UFC er á laugardaginn þegar Rafael dos Anjos og Donald Cerrone mætast um léttvigtartitilinn. Bardagakvöldið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular