spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 205

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 205

conor-2-beltiUFC 205 fór fram í New York um helgina. Bardagakvöldið var einfaldlega frábært og eitt það stærsta í sögu UFC.

Conor McGregor kláraði Eddie Alvarez með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Bardaginn var talsvert meira einhliða en flestir (nema Conor) bjuggust við. Conor setti svo punktinn yfir i-ið með frábæru viðtali við Joe Rogan þar sem hann svaraði fáum spurningum.

Hver annar en Conor McGregor, nýbúinn að vinna annan heimsmeistaratitil, getur ekki hugsað um neitt annað nema hvar hitt beltið hans sé? Flestir bardagamenn hugsa ekkert sérstaklega skýrt eftir bardaga enda mikið adrenalín í gangi og mikið áreiti. En þarna vissi Conor McGregor nákvæmlega hvað hann ætlaði að segja og hvað hann vildi gera. Hann vildi fá bæði beltin svo hann gæti fengið Kodak augnablikið sitt í búrinu með beltin á öxlunum. Og bað auðvitað enga afsökunar.

Á blaðamannafundinum talaði hann einnig um hve kunnuglegt þetta væri allt saman, tvöfaldur meistari í UFC. Hann var búinn að sjá þetta það oft fyrir sér að honum fannst þetta bara hið eðlilegasta. Hann er búinn að segja þetta frá því hann kom í UFC og núna hefur hann náð því og er sá fyrsti í sögunni.

Eins og áður segir leit bardaginn afar einhliða út. Eddie Alvarez leit út fyrir að vera einhver nýliði og var eins og hann ætti ekki heima þarna með Conor. Í aðdraganda bardagans sagði Alvarez þetta:

„Hann gerir það sem við köllum ‘rock back‘ vel, Mayweather gerir þetta. Margir bardagamenn frá Philly [Philadelphia] gera þetta og þetta notar hann mikið standandi. Það eru margir í MMA sem kunna ekki þessa box tækni en þetta er nokkuð sem er auðvelt að núlla út. Við munum hafa yfirburði allan tímann.“

„Án þess að segja of mikið um leikáætlunina, þá er hægt að afvopna alla með réttum undirbúningi. Ég hef trú á þjálfurum mínum, leikáætlun minni og getunni til að fara í búrið og gera þetta. Við fylgjum leikáætluninni skref fyrir skref.“

Hvað klikkaði?

Eftir bardagann talaði Alvarez um að hann hefði ekki fylgt leikáætluninni og Conor hefði verið mun sneggri en hann bjóst við. Það er eins og eftir fyrsta þunga höggið sem felldi Alvarez hafi leikáætlunin farið gjörsamlega út um gluggann. Alvarez hefur örugglega verið með gott plan en þessi eitraða vinstri á Conor McGregor er vopn sem erfitt er að undirbúa sig fyrir. Hann hefur verið með plan til að núlla út þessa beinu vinstri en það gekk hreinlega ekki eftir – Conor var mun hraðari en Alvarez hélt.

Allar fellutilraunir hans voru fyrirsjáanlegar og átti Conor ekki í erfiðleikum með að verjast þeim. Það hefur væntanlega verið planið hjá Alvarez að þrýsta Conor upp við búrið, nota „dirty boxing“ og gera þetta að ljótum bardaga. Það var nánast ekkert um það hjá Alvarez og sást lítið af þessum góða undirbúningi hans.

Hann byrjaði bardagann vel á nokkrum spörkum í innanvert læri Conor en hætti því svo alfarið eftir fyrsta þunga höggið. Alvarez hefur margoft verið kýldur niður og það var hálfgert grín hve oft hann var kýldur niður en náði samt að vinna í Bellator. Þarna náði hann aldrei að jafna sig svo það má velta því fyrir sér hvers vegna hann hafi ekki náð að komast aftur inn í bardagann í þetta sinn líkt og hann hefur gert svo oft áður?

Var augnablikið of stórt? 20.000 öskrandi aðdáendur og meirihlutinn á móti þér. Var það allt þetta skítkast í fjölmiðlum og á blaðamannafundum? Hafði það áhrif á hann? Þetta eru allt vangaveltur en kannski var tæknilegi munurinn einfaldlega svo mikill.

stephen-thompson-1

Stephen Thompson og Tyron Woodley gerðu jafntefli í skemmtilegum bardaga. Framan af var bardaginn nokkuð rólegur en fjórða lota var ein mest spennandi lota ársins. Woodley var nánast búinn að rota Thompson en einhvern veginn náði karate strákurinn að þrauka og halda sér í bardaganum.

Þegar Woodley fór svo í henginguna hefðu margir tappað út og játað sig sigraðan. Ef hengingin hefði ekki verið alveg 100% þétt og Thompson ekki að kafna hefði enginn getað ásakað hann um að hætta ef hann hefði kosið að tappa út. En einhvern veginn náði hann, mjög vankaður, að vera nógu skýr í kollinum til að búa til smá pláss til að anda og finna kjarkinn og viljann til að vinna. Það er hreinlega magnað og sýnir að Thompson er gríðarlega harður af sér og mjög andlega sterkur. Margir hefðu tappað út þarna en það gerði Thompson ekki.

Það var svo uppi mikið fíaskó þegar Bruce Buffer las upp dómaraákvörðunina. Fyrst rauk hann úr búrinu og athugaði aftur hjá dómurunum en tilkynnti á endanum vitlausa niðurstöðu. Fyrst var Woodley tilkynntur sigurvegari en það svo leiðrétt og bardaginn úrskurðaður jafntefli. Woodley heldur þó beltinu en þetta var ansi vandræðalegt.

Þeir munu mætast aftur og getur maður ekki annað en vorkennt Demian Maia. Hann þarf að bíða lengur eftir titilbardaganum sínum og er það í raun engum að kenna. UFC er ekki að svíkja hann, meistarinn er ekki að forðast hann og enginn er meiddur (ennþá). Þetta er bara leiðinleg óheppni hjá hinum 39 ára Maia. Svo gæti reyndar farið svo að ef Thompson meiðist þá gæti Maia stokkið inn og stolið titilbardaganum.

Joanna Jedrzejczyk átti í meiri vandræðum með Karolinu Kowalkiewicz en flestir bjuggust við. Kowalkiewicz er mjög hörð af sér og kom meistaranum í mikil vandræði í 4. lotu. Núna er enginn augljós næsti áskorandi fyrir Jedrzejczyk og spurning hvað er næst framundan hjá henni.

Það væri hægt að halda endalaust áfram að skrifa um þetta magnaða bardagakvöld en einhvers staðar þarf að segja stopp. Við verðum þó að tala um Khabib Nurmagomedov sem átti einfaldlega magnaða frammistöðu.

Eftir smá vandræði í byrjun tók hann Michael Johnson niður, sem er sjálfur frábær glímumaður og hafði ekki verið tekinn niður síðan 2013, og hafði þvílíka yfirburði. Þetta er nákvæmlega það sem Nurmagomedov þurfti að gera til að minna á sig og nú verður erfitt fyrir UFC að ákveða hvort Nurmagomedov eða Tony Ferguson fái næsta titilbardaga í léttvigtinni. Þeir eiga það báðir skilið.

V0nandi fer samt UFC ekki í bullið og gefur Nate Diaz óverðskuldaðan titilbardaga.

Næstu helgi fara tvö UFC bardagakvöld fram. Annað fer í Belfast þar sem Gunnar Nelson átti auðvitað að mæta Dong Hyun Kim áður en hann meiddist og hitt fer í Brasilíu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular