Saturday, April 20, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 216

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 216

UFC 216 fór fram á laugardaginn í Las Vegas. Bardagakvöldið var bara ansi skemmtilegt en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir helgina.

Harmleikurinn í Las Vegas á dögunum setti svip sinn á bardagakvöldið. Margir klæddust VegasStrong bolum og áður en aðalhluti bardagakvöldsins hófst var sérstök heiðursathöfn fyrir þá sem voru fyrstir til að bregðast við. Bardagamenn voru meðvitaðir um atburðina og tileinkuðu margir sigur sinn fórnarlömbum hryðjuverkanna.

Tony Ferguson er bráðabirgðarmeistari UFC eftir sigur á Kevin Lee í aðalbardaga laugardagskvöldsins. Ferguson kláraði Lee með „triangle“ hengingu í 3. lotu og fagnaði vel og innilega að leikslokum. Þetta var hans tíundi sigur í röð sem er einfaldlega magnað afrek.

Ferguson var í veseni til að byrja með og át fullt af höggum eins og hann gerir svo oft á fyrstu stigum bardagans. Lee átti mjög góða 1. lotu og kláraði lotuna ofan á Ferguson að láta höggin dynja á honum. Það fjaraði svo undan hjá Lee og þreyttist hann á meðan Ferguson gaf í. Ferguson er þekktur fyrir að vera með einstaklega gott þol og kom það að góðum notum enn einu sinni.

Ferguson nýtti tækifærið og hraunaði yfir Conor McGregor í viðtalinu eftir sigurinn. Þó hann hafi ekki verið frumlegur í skítkastinu sínu nýtti hann samt tækifærið vel. Hann hafði líka rétt fyrir sér, Conor á að mæta bráðabirgðarmeistaranum og ef hann gerir það ekki ætti hann bara að láta beltið af hendi.

Bardagi milli Conor og Tony Ferguson yrði afar spennandi. Ferguson er skrítinn gaur og gæti verið mjög skemmtilegt að sjá orðaskiptin á milli þeirra. Bardaginn sjálfur verður líka mjög áhugaverður. Tony Ferguson er gríðarlega aggressívur og sækir grimmt. Hann er með ótrúlega gott þol, með harða höku, hefur aldrei verið rotaður og er afar góður að ná upgjafartökum í gólfinu. Hann fær hins vegar mikið af höggum í sig og þá sérstaklega í byrjun bardagans og það veit ekki á gott gegn manni eins og Conor McGregor sem byrjar alltaf af krafti. Vonandi fáum við að sjá þennan bardaga því bardagi Nate Diaz og Conor McGregor getur alltaf beðið.

Kevin Lee byrjaði vel en erfiður niðurskurður og sýking hafði áhrif á hann. Á blaðamannafundinum eftir á talaði hann um að UFC þyrfti að opna 165 punda þyngdarflokk. Niðurskurðurinn í 155 punda léttvigtina er erfiður fyrir hann og væri 165 pund fullkomið fyrir hann. Hann er ekki sá eini sem vill sjá 165 punda flokk en UFC virðist ekkert vera á leiðinni að opna fleiri þyngdarflokka. Hann er ennþá ungur, á langan feril framundan og kemur bara sterkur til baka.

Demetrious Johnson átti enn eina mögnuðu frammistöðuna þegar hann kláraði Ray Borg með armlás í 5. lotu. Uppgjafartakið var eitt það glæsilegasta sem við höfum séð á þessu ári og bætti hann um leið met Anderson Silva yfir flestar titilvarnir í sögu UFC. Það verður eflaust langt þangað til nokkur muni bæta þetta met. Hann hefur núna klárað sjö af 11 titilbardögum sínum sem er magnaður árangur.

Núna þegar hann hefur bætt metið er spurning hvort það sé ekki kominn tími á alvöru áskorun hjá honum. Sergio Pettis eða annar bardagi gegn Henry Cejudo er ekki nógu spennandi. Yfirburðirnar hans eru slíkir. En UFC þarf líka að borga honum þá alvöru upphæðir. DJ vill fá meira borgað ef hann á að fara upp og taka erfiðari en stærri bardaga. Það er alls ekkert ósanngjörn krafa af besta bardagamanni heims.

Bardagakvöldið var ansi skemmtilegt og fengum við að sjá fjóra sigra með uppgjafartaki í röð. Næsta UFC kvöld fer fram í Póllandi eftir tvær vikur en þar mætast þeir Donald Cerrone og Darren Till.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular