Tuesday, May 21, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 220

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 220

UFC 220 fór fram á laugardaginn í Boston. Stipe Miocic bætti metið yfir flestar titilvarnir í þungavigtinni með sigri á Francis Ngannou í aðalbardaga kvöldsins.

Stipe Miocic er bara kóngurinn í þungavigtinni, það er bara þannig. Eftir jafna 1. lotu tók Miocic gjörsamlega yfir bardagann og var Ngannou fljótt orðinn örþreyttur. Miocic tók Ngannou niður ítrekað og átti Ngannou í miklum erfiðleikum með að komast á lappir.

Núna hefur Miocic varið þungavigtartitil UFC oftar en nokkur annar. Það eru reyndar bara þrjár titilvarnir en samt afrek út af fyrir sig. Eins og svo oft eftir bardagakvöld kemur upp umræðan hvort hinn eða þessi sé sá besti allra tíma. Það er svo sem ekki erfitt að færa rök fyrir því eftir metið að Miocic sé besti þungavigtarmaður í UFC og var Miocic, sem er yfirleitt frekar hógvær, bara sammála því. Miocic er kóngurinn núna og erfitt að sjá einhverja stóra ógn á hans meistaratign.

Það er eiginlega magnað að hann sé meistarinn sem bætti metið. Þetta er einn vanmetnasti meistari sem þungavigtin hefur séð, fær frekar litla athygli þrátt fyrir að vera með mörg rothögg og virkar bara eins og venjulegur kall. Venjulegur kall sem vinnur ennþá sem slökkviliðsmaður af því honum finnst svo gaman að hjálpa. Samt á hann ekki það marga aðdáendur og margir spá gegn honum.

Embed from Getty Images

Francis Ngannou sýndi að hann er enn með nokkuð stórar holur í sínum leik – nokkuð sem við höfðum varla fengið að sjá í UFC. Þetta tap er samt ekkert stórslys fyrir hann. Miocic sjálfur var rotaður af Stefan Struve árið 2012. Þetta tap sýndi stóra veikleika en ekkert sem ekki er hægt að laga. Hann hætti ekki þrátt fyrir að vera gjörsamlega búinn á því og það er góðs viti. Í þungavigtinni þar sem flestir eru eldri en tvívetra er eitt tap ekkert stórslys.

Ngannou sagði eftir bardagann að hann hefði vanmetið Miocic. Það er dýrmæt lexía og hefði hann varla getað fengið betri lexíu. Hann mun sennilega aldrei vanmeta andstæðinga sína aftur og fékk hann þarna 25 mínútur af lærdóm með sér í stað bara 90 sekúndna rothöggs eins og hann er vanur að fá. Þetta verður pottþétt ekki síðasti titilbardagi hins 31 árs Ngannou í UFC.

Embed from Getty Images

Daniel Cormier gerir sitt

Daniel Cormier átti ekki í teljandi vandræðum með Volkan Oezdemir. Oezdemir byrjaði af krafti og ætlaði greinilega að rota Cormier á undir 60 sekúndum eins og hann hafði gert við sína síðustu andstæðinga. Það gekk ekki eftir og tók Cormier hann niður í báðum lotunum. Í 2. lotunni komst Oezdemir ekkert upp fyrr en dómarinn hafði stöðvað bardagann og var bókstaflega pikkfastur undir Cormier.

Það sást bersýnilega að sigurinn var kærkominn fyrir Cormier. Síðustu mánuðir hafa verið hálfgerð rússíbanareið eftir að hafa verið rotaður af Jones í sumar, tapað titlinum og svo fengið hann aftur eftir að Jones féll á lyfjaprófi. Í hans huga var hann ekki meistari og var hann í raun að berjast um lausan titil UFC í léttþungavigtinni.

Núna er stóra spurningin hver er næstur fyrir Cormier? Líklegast verður það Alexander Gustafsson en hann er að jafna sig eftir aðgerð og hefur ekkert barist síðan í maí 2016. Fyrri bardagi þeirra var frábær skemmtun og verður Gustafsson vonandi heill heilsu innan tíðar.

Volkan Oezdemir sýndi að hann er ekki alveg tilbúinn fyrir þetta getustig sem stendur. Hann getur þó vonandi haldið sér í toppbaráttunni með sigri á sterkum andstæðingum enda þarf léttþungavigtin nauðsynlega á fersku blóði að halda.

Calvin Kattar átti svo frábæran sigur þegar hann kláraði Shane Burgos og er þetta enn ein skemmtilega viðbótin við fjaðurvigtina. Bardagi Gian Villante og Francimar Barroso var eins leiðinlegur og búist var við.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram á laugardaginn í Norður-Karólínu. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Derek Brunson og Ronaldo ‘Jacare’ Souza.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular