spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 222

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 222

UFC 222 fór fram á laugardaginn og var fínasta bardagakvöld. Cyborg náði enn einu rothögginu og Brian Ortega tókst hið ómögulega.

Cris ‘Cyborg’ Justino er langbesta bardagakonan í 145 punda fjaðurvigtinni. Hún sýndi það enn og aftur með því að rota 135 punda andstæðing í aðalbardaga kvöldsins. Yana Kunitskaya reyndi og byrjaði ágætlega með því að ná fellu og var ekki langt frá því að ná bakinu á Cyborg. Cyborg kom sér þó úr öllum vandræðum og byrjaði að lenda höggum í Kunitskaya. Kunitskaya entist því miður ekki lengi og var Cyborg búin að klára bardagann eftir rúmar þrjár mínútur í 1. lotu.

Þessi bardagi var settur saman á tiltölulega stuttum tíma en það hlýtur að vera hægt að finna aðra andstæðinga fyrir Cyborg heldur en 135 punda konur sem eru ekki einu sinni nálægt toppnum í sínum þyngdarflokki. Kunitskaya gæti alveg gert fína hluti í bantamvigt kvenna og á hrós skilið fyrir að taka bardagann en vonandi getur næsti andstæðingur veitt henni harðari samkeppni.

Megan Anderson, sem er ein af fáum konum í UFC sem berst í alvörunni í fjaðurvigtinni, virðist vera tilbúin að snúa aftur miðað við neðangreinda færslu hennar á Twitter en Anderson hefur verið frá vegna persónulegra málefna. Það verður áhugaverður bardagi og í fyrsta sinn sem Cyborg mætir 145 punda andstæðingi í UFC. Cyborg er samt að sýna að hún getur alltaf verið upp á sitt besta á stóra sviðinu. Vamat og öll umræða um hve lítin séns andstæðingurinn á gegn henni gæti auðveldlega truflað hana en hún gerir alltaf sitt.

Brian Ortega tókst það sem Gray Maynard, Jose Aldo, Ben Henderson, Chad Mendes, BJ Penn, Cub Swanson og fleirum tókst ekki – að klára Frankie Edgar! Þetta var í fyrsta sinn sem Frankie Edgar hefur verið kláraður í 29 bardögum í MMA.

Embed from Getty Images

Brian Ortega hefur núna klárað alla sjö bardaga sína í UFC (einn dæmdur ógildur eftir lyfjamisferli) og er það einfaldlega magnað afrek. Þeir sem töldu að Ortega myndi klára Edgar héldu eflaust að það yrði eftir uppgjafartak en ekki rothögg. Hann hefur sýnt stöðugar framfarir standandi síðan hann kom í UFC og var þetta klárlega hans besta frammistaða á ferlinum. Hann rotaði Frankie Edgar! Það verður geggjað að sjá hann og Max Holloway eigast við þegar meistarinn hefur jafnað sig á meiðslunum sínum.

Svo oft höfum við fengið að sjá hinn 36 ára Edgar jafna sig eftir svona högg en í þetta sinn var það ekki hægt. Nú er spurning hvert hann fer eftir þetta. Kannski er hraðinn og hakan farin að gefa sig og ef svo er gæti fallið orðið ansi hratt hjá honum. Hann tók séns með því að mæta Ortega í stað þess að bíða eftir Holloway og það borgaði sig ekki. Aðdáendur og bardagamenn munu þó alltaf bera ómælda virðingu gagnvart honum enda er hann svona ekta bardagamaður sem er ekki með neitt vesen.

Embed from Getty Images

Sean O’Malley hélt áfram sigurgöngu sinni með sigri á Andre Soukhamthath. Bardaginn var mjög skemmtilegur en þó verður að taka með í reikninginn að Soukhamthath tók hræðilegar ákvarðanir í 3. lotu. O’Malley meiddist á fæti í 3. lotu og gat nánast ekkert staðið í fótinn. Í stað þess að halda bardaganum standandi gegn hinum einfætta O’Malley tók Soukhamthath þá hörmulega ákvörðun að taka O’Malley niður. Soukhamthath tókst vissulega að vinna lotuna en hann átti talsvert betri möguleika á að klára bardagann standandi en í gólfinu. Skelfilega ákvörðunartaka hjá Soukhamthath. Stjarna O’Malley skein þó skært og verður gaman að fylgjast með honum áfram.

Næstu helgi er frí hjá UFC í fyrsta sinn í langan tíma en næsta bardagakvöld UFC fer fram í London þann 17. mars.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular