UFC 225 fór fram um síðustu helgi í Chicago. Þar fengum við að sjá einn besta bardaga ársins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Þvílíkur bardagi sem viðureign Robert Whittaker og Yoel Romero var. Ótrúleg fimm lotu orusta! Árið er varla hálfnað en nú þegar höfum við fengið tvo bardaga (þessi og svo bardagi Dustin Poirier og Justin Gaethje) á árinu sem verða klassískir bardagar þegar fram líða stundir.
Þetta var hreinlega ógleymanlegt fimm lotu stríð. Hjartað og baráttuandinn í báðum var saga bardagans en sama hvað gerðist ætluðu þeir bara ekki að tapa. Whittaker náði á einhvern ótrúlegan hátt að lifa af virkilega erfið augnablik margsinnis eftir bombur Romero en sá kúbverski hristi nánast allt af sér sem Whittaker henti í hann. Romero hristi af sér háspörk og virtist snemma gjörsamlega búinn á því en var samt ansi nálægt því að klára bardagann í 5. lotu. Romero er sennilega gerður úr einhverju allt öðru en við hin.
Lengi verður deilt um niðurstöðu dómaranna. Sigur eftir klofna dómaraákvörðun var niðurstaðan Whittaker í vil en margir töldu að bardaginn hefði átt að fara jafntefli eða Romero dæmdur sigur.
I gave Whitaker rounds 1 & 2 10-9. Round 3 goes to Romero 10-8. He hurt Robert & sustained that damage until he tired. Round 4 goes to Whitaker 10-9, he got rocked, but not enough damage to make up 4 the volume. Rd 5 to Romero 10-9. 48-48 draw Whitaker still champ #AskBJM https://t.co/umUkoWEteH
— Big John McCarthy (@JohnMcCarthyMMA) June 10, 2018
Dómarinn ‘Big’ John McCarthy taldi að Whittaker hefði unnið lotur 1, 2 og 4 (10-9) en Romero lotur 3 og 5 en 3. lotuna hefði Romero tekið 10-8. Þar með hefði þetta endað 48-48 og þar með jafntefli. Fimmta lotan hefði líka geta verið dæmd 10-8 Romero í vil þar sem hann var ansi nálægt því að klára Whittaker. Hrikalega jafn bardagi sem erfitt var að skora án þess að allir væru sammála.
Þrátt fyrir að hafa eytt 50 mínútum saman í búrinu værum við alveg til í að sjá berjast í 3. sinn. Það mætti samt alveg gefa Whittaker frí frá Romero enda meiddist hann á hné í fyrri bardaga þeirra og braut á sér höndina í seinni bardaganum. Spurning hvort að Kelvin Gastelum eða Chris Weidman séu næstir fyrir þennan magnaða bardagamann. Það er samt nokkuð ljóst að þarna eru á ferð tveir bestu 185 punda menn heims. Réttara sagt væri Romero besti 185,2 punda maður heims enda náði hann ekki vigt.
Colby Covington sigraði Rafael dos Anjos eftir dómaraákvörðun í góðum bardaga. Þrátt fyrir að vera leiðinlegasti maður í heimi er ekki hægt að neita því að Covington er virkilega góður bardagamaður. Hann er hægt og rólega að byggja upp góða ferilskrá með sigra gegn mönnum á borð við Dong Hyun Kim, Demian Maia og Rafael dos Anjos.
Hann hefur þar með tryggt sér titilbardaga gegn Tyron Woodley og ætti það að vera áhugaverður bardagi fyrir margar sakir. Covington ætlar að fara í Hvíta Húsið að heimsækja Donald Trump með nýja beltið sitt en Dana White, forseti UFC, sagðist auðveldlega geta komið því í kring. Trump er ekki vinsæll hjá blökkumönnum og á mörg vafasöm ummæli sem eru að margra mati full af kynþáttarfordómum. Tyron Woodley hefur sjálfur sakað UFC um slæma meðhöndlun þar sem hann er blökkumaður.
Bardagi Covington og Woodley gæti því verið óvenjulega pólitískur og þá sérstaklega ef Trump lýsir yfir einhvers konar stuðningi við hvíta bráðabirgðarmeistarann Colby Covington en ekki við alvöru meistarann Tyron Woodley. Woodley hefur ekki verið vinsæll meistari hjá aðdáendum en gæti skyndilega orðið vinsælli meistari með því að þagga niður í Covington.
Holly Holm átti svo flottan sigur gegn Megan Anderson. Sú síðarnefnda sýndi að hún er ekki tilbúin í meistarann Cyborg og spurning hver næstu skref hennar verða enda fáar konur í fjaðurvigtinni. Curtis Blaydes átti geggjaðan sigur á Alistair Overeem og gæti mögulega fengið titilbardaga. Hann hefur nú unnið sex bardaga í röð síðan hann tapaði fyrir Francis Ngannou (reyndar einn dæmdur ógildur þar sem smá marijúana fannst í lyfjaprófinu hans). Sergio Pettis náði svo í góðan sigur á Joseph Benavidez og er hann aðeins sá þriðji sem tekst að vinna Benavidez á eftir Demetrious Johnson og Dominick Cruz.
Nú tekur við viku frí hjá UFC áður en UFC heldur til Singapúr þann 23. júní þar sem Leon Edwards mætir Donald Cerrone í aðalbardaga kvöldsins.