spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 227

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 227

Embed from Getty Images

UFC 227 fór fram í Los Angeles nú um Verslunarmannahelgina. Ótrúlegri sigurgöngu Demetrious Johnson er lokið og þá hefur T.J. Dillashaw tryggt stöðu sína á toppnum í bantamvigt.

T.J. Dillashaw rotaði Cody Garbrandt í aðalbardaga kvöldsins á UFC 227. Í fyrri viðureign þeirra rotaði hann Garbrandt í 2. lotu en í þetta sinn kláraði hann bardagann í 1. lotu. Þar með má segja að hann hafi klárað Team Alpha Male kaflann í bili enda unnið Garbrandt núna tvisvar á skömmum tíma. Í bardögunum tveimur hefur hann sannað að hann er einfaldlega betri.

Nú er spurning hvað sé næst fyrir þá báða. Talað hefur verið um bardaga á milli Dominick Cruz og Dillashaw en sá bardagi gæti skorið úr um hvor er besti bantamvigtarmaður sögunnar. Þegar þeir mættust fyrst sigraði Cruz eftir klofna dómaraákvörðun í mjög jöfnum bardaga og ættu að berjast aftur einn daginn. Það er þó spurning hvort núna sé rétti tímapunkturinn og hvort Cruz eigi skilið að fá titilbardaga strax enda hefur hann ekki barist síðan hann tapaði fyrir Garbrandt í desember 2016. Marlon Moraes og Raphael Assuncao gera einnig tilkall til titilbardaga en ætli UFC fari ekki öruggu leiðina og hendi Cruz þarna inn?

Framtíð Cody Garbrandt í bantamvigtinni er erfið. Hann er nú kominn í sömu stöðu og Jose Aldo, Joanna Jedrzejczyk og fleiri bardagamenn sem hafa tvisvar tapað fyrir núverandi meistara. Það verður erfitt fyrir hann að fá annað tækifæri á beltinu á meðan Dillashaw er meistari. Hans besta von er að vinna nokkra bardaga í bantamvigt og vonast svo til þess að Dillashaw tapi beltinu einhvern veginn.

Embed from Getty Images

Við erum komin með nýjan meistara í fluguvigt! Það voru ekki margir sem höfðu trú á Henry Cejudo fyrir seinni viðureign hans gegn Demetrious Johnson en hann kom mörgum á óvörum með frábærri leikáætlun og sigraði á endanum.

Bardaginn var samt gríðarlega jafn og hefði Johnson alveg getað unnið. Það eru þó þrír menn sem ákveða sigurvegara bardagans og í þeirra augum vann Cejudo. Það er enginn skandall að Cejudo hafi unnið en þennan bardaga þurfum við að fá aftur.

Cejudo var líka sjálfur óviss hvor hefði unnið bardagann miðað við ummæli hans á blaðamannafundinum eftir bardagann. Það var hressandi enda heyrum við yfirleitt bardagamenn vera 100% sannfærða um að þeir hafi unnið þegar bardagar eru svona jafnir.

Það er hægt að deila um úrslitin endalaust en fellurnar hjá Cejudo gerðu þetta útslagið. Hann gerði svo sem ekki mikið þegar hann náði að taka DJ niður og var lítið sem ekki neitt um högg í gólfinu. Hann bara lá á honum og hélt DJ niðri en það er líka stjórn. Í lotum 4 og 5 voru fjöldi högga mjög jöfn og því kannski eðlilegt að ein fella geti gert gæfumuninn. Það er þó hægt að deila um þetta endalaust enda gríðarlega jafn bardagi.

Það er alveg ljóst að UFC þarf að bóka þennan bardaga aftur! DJ er sigursælasti meistari í sögu UFC og á skilið tækifæri á að endurheimta beltið um leið og hann nær sér af meiðslunum. Cejudo var strax til í að skora á Dillashaw en var líka vel opinn fyrir þriðja bardaganum gegn DJ.

Bardagakvöldið var fínasta skemmtun og sérstaklega tveir stærstu bardagar kvöldsins. Renato Moicano átti frábæra frammistöðu og þá var bardagi Brett Johns og Pedro Munhoz magnaður. Nú tekur við smá frí hjá UFC eftir þétta dagskrá en næsta bardagakvöld fer fram þann 25. ágúst þar sem þeir Justin Gaethje og James Vick mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular