spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 228

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 228

Embed from Getty Images

UFC 228 fór fram um síðustu helgi og var einfaldlega geggjað bardagakvöld. Tyron Woodley kláraði Darren Till í 2. lotu og kemur gríðarlega sterkur frá helginni.

Enn einu sinni var andstæðingur Woodley sigurstranglegri hjá veðbönkum. Woodley gerði þó bara sitt og varði titilinn í fjórða sinn. Bardaginn byrjaði nokkuð fjörlega en Woodley vann 1. lotu á meðan Darren Till gerði lítið. Í annarri lotu sótti Till meira og fékk hann þunga hægri beint á kjammann. Eftir að hann hrundi í gólfið át hann þung högg frá Woodley sem sótti að lokum í hengingu og kláraði Till.

Það má segja að allt við þennan bardaga hafi verið fullkomið fyrir Tyron Woodley. Woodley hefur oft verið gagnrýndur fyrir að væla og tuða í fjölmiðlum yfir að vera ekki nógu vinsæll hjá aðdáendum og UFC. Í aðdraganda bardagans var ekkert um tuð hjá Woodley. Hann var bara frekar jákvæður og kom mjög vel fyrir.

Síðustu bardagar Woodley hafa hreint út sagt verið fremur leiðinlegir. Um helgina tók hann spennandi bardagamann sem var með mikið hæp á bakvið sig og hreinlega pakkaði honum saman. Frábær frammistað í búrinu.

Eftir bardagann sagðist hann einfaldlega vilja berjast við hvern sem er. Áður fyrr hefur hann óskað eftir bardögum við Nick Diaz og Georges St. Pierre með þeim rökum að sigrar gegn þeim geri hann sjálfkrafa að besta veltivigtarmanni allra tíma. Hann hefur tuðað yfir því að fá ekki stóra peningabardaga en í þetta sinn sagðist hann bara vera tilbúinn í hvern sem er – hvort sem það er Colby Covington, Kamaru Usman eða jafnvel Robert Whittaker. Það var ekkert um óraunhæfar óskir um bardaga gegn Georges St. Pierre, Nick Diaz eða jafnvel Nate Diaz. Þá var hann ekki að rembast við að reyna að sannfæra alla um að hann væri risastjarna.

Woodley kom mjög vel fyrir á öllum vígstöðum bardagans og var þetta fullkominn bardaga fyrir hann ef allt er tekið með í reikninginn. Glæsilegur sigur, ekkert tuð og strax tilbúinn í næsta bardaga. Svona verður hann vinsæll hjá bardagaaðdáendum. UFC gæti svo líka alveg gert meira til að kynna hann en í staðinn er forseti UFC, Dana White, frekar að grafa undan honum heldur en að hýfa hann upp í fjölmiðlum.

Bardagi gegn Colby Covington virðist vera næst á dagskrá hjá Woodley og gæti það orðið virkilega áhugaverður bardagi. Woodley hefur sagt að hann fái ekki þá athygli sem hann á skilið þar sem hann er þeldökkur. Á sama tíma er hvíti bráðabirgðarmeistarinn Colby Covington í heimsókn í hvíta húsinu til Donald Trump ásamt Dana White. Bardaginn gæti orðið mjög pólitískur í Bandaríkjunum.

Embed from Getty Images

Jessica Andrade rotaði Karolinu Kowalkiewicz í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Karolina hrundi niður eins og kartöflupoki og var þetta eitt svakalegasta rothögg sem sést hefur í kvennabardaga í UFC. Andrade hefur sýnt að hún er með svakalegan höggþunga en þetta er í fyrsta sinn sem hún rotar einhvern svona í UFC. Andrade bað um titilbardaga og á það svo sannarlega skilið.

Zabit Magomedsharipov var í smávægilegum vandræðum í 1. lotu gegn Brandon Davis. Zabit datt svo í gang í 2. lotu og kláraði Davis með frábærum hnélás (e. kneebar). Þetta verður klárlega eitt af flottustu uppgjafartökum ársins þegar árið verður gert upp en það merkilega er að við sáum einnig svona uppgjafartak í einum af upphitunarbardögum kvöldsins. Aljamain Sterling tók þá Cody Stamann með svipuðum hnélás og voru bæði uppgjafartökin einkar glæsileg.

Bardagakvöldið var einfaldlega geggjað og eitt það besta á árinu. Geoff Neal pakkaði Frank Camacho saman og er þetta nafn sem vert er að fylgjast með. Tatiana Suarez gerði slíkt hið sama við Carla Esparza og Irena Aldana sigraði Lucie Pudilova í geggjuðum bardaga. Þá fengu gömlu kallarnir Jim Miller og Diego Sanchez góða sigra en báðir hafa átt erfitt uppdráttar.

Haustið fer frábærlega af stað og vonandi gefur þetta góð fyrirheit fyrir það sem koma skal. Næsta bardagakvöld UFC verður í Rússlandi á laugardaginn þar sem þeir Mark Hunt og Oleksiy Oliynyk mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular