spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 231

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 231

Mynd: Snorri Björns.

UFC 231 fór fram um helgina í Toronto í Kanada. Þar sáum við Gunnar Nelson sigra Alex ‘Cowboy’ Oliveira með uppgjafartaki í 2. lotu og einnig tvo skemmtilega titilbardaga. Hér eru ansi langar Mánudagshugleiðingar eftir skemmtilega helgi.

Þetta var fyrsti bardagi Gunnars síðan í júlí 2017 og var gaman að sjá hann aftur í búrinu. Þetta var gríðarlega mikilvægur bardagi fyrir Gunnar og þurfti hann að minna vel á sig. Það er auðvelt að gleymast í þessum bransa þegar menn berjast ekki og gott að sjá hann aftur.

Gunnar byrjaði á að stökkva inn með vinstri krók, „clincha“ við Oliveira og koma honum upp að búrinu. Þegar Gunnar reyndi að fara í lappirnar á Oliveira brást kúrekinn við með því að olnboga Gunnar í höfuðið. Góð aðferð til að fá menn til að hætta að fara í lappirnar og hefur maður séð menn ná rothöggi svona (Travis Browne gegn Josh Barnett t.d.). Oliveira olnbogaði Gunnar hins vegar í hnakkann og sagði Gunnar að hann hefði misst máttinn í löppunum í smá stund. Gunnar er í dag með smá kúlu á hnakkanum eftir þessa olnboga.

Gunnar brást við þessum olnbogum með því að breyta um vinkil á fellunni og fór til hliðar þar sem Oliveira náði ekki olnbogunum. Gunnar sagði að þetta væri eitthvað sem hann vildi vinna í til að koma í veg fyrir að lenda aftur í þessum olnbogum.

Þegar Gunnar var í þann mund að fara að ná fyrstu fellunni greip Oliveira í búrið og kom þannig í veg fyrir felluna. Klárt brot á reglunum og virkilega pirrandi. Sérstaklega pirrandi að Gunni var 100% kominn með felluna en dómarinn gefur Oliveira bara viðvörun og lætur þá byrja aftur í verri stöðu fyrir Gunnar upp við búrið.

Þarna hefði dómarinn ekki þurft að gefa viðvörun enda veit Oliveira að þetta er bannað. Það þurfti ekkert að vara hann við þessu. Það má skrifa þetta á ósjálfráð viðbrögð hjá Oliveira en menn eiga samt ekki að komast upp með þetta. Ef dómarinn ætlaði ekki að taka stig af honum hefði hann í það minnsta geta látið þá byrja í gólfinu. Dómarar í MMA oft óþolandi linir.

Mynd: Snorri Björns.

Gunnar náði þó á endanum að koma honum í gólfið, taka bakið og hélt maður að þetta væri þá bara komið eins og svo oft áður. Oliveira varðist samt vel og náði að snúa inn í Gunnar sem kom manni verulega á óvart. Gunnar sagði að það megi skrifa þetta að vissu leyti á smá kæruleysi hjá sér og sagði að þetta muni ekki gerast aftur.

Í gólfinu var Oliveira ansi árásargjarn og var óhræddur við að glíma aðeins við Gunnar í gólfinu. Hann lét góð högg dynja á honum og fannst manni þetta líta alls ekkert svo vel út á þessum tímapunkti.

Þarna hélt ég að Gunnar væri bara að fara að tapa. Hann virkaði smá þunglamalegur á fótunum í byrjun 2. lotu enda tók 1. lota vel á. Sem betur fer ákvað Oliveira að „clincha“ við Gunnar og reyna að taka hann niður. Oliveira eflaust fullur sjálfstrausts eftir 1. lotuna og ætlaði bara að taka Gunnar niður og halda áfram að kýla hann í gólfinu eins og gekk svo vel í 1. lotu. Gunnar varðist fellunum hins vegar vel og náði svo sjálfur að koma Oliveira upp við búrið. Þar kom aftur fella frá Gunnari og voru fellurnar svo sannarlega að standa fyrir sínu í bardaganum.

Þetta var það sem ég hafði beðið svo lengi eftir að sjá – að sjá Gunnar sýna hvað hann hefur verið að gera undanfarin tvö ár með glímuþjálfaranum Matthew Miller. Fellurnar hjá Gunnari eru orðnar svo miklu betri í dag og loksins gat hann sýnt það í bardaga. Það fannst mér virkilega gaman að sjá.

Mynd: Snorri Björns.

Þegar í gólfið var komið í 2. lotu var Gunnar fljótur að komast í „mount“. Oliveira gerði samt ekkert til að sleppa í fyrstu heldur hélt utan um Gunnar til að komast í veg fyrir að Gunnar gæti gert einhvern skaða. Gunnar var þolinmóður ofan á og hafði ég smá áhyggjur að dómarinn myndi láta þá standa upp úr „mount“ þar sem dómarinn var að vara Gunnar við að hann þyrfti að sjá meira gerast í gólfinu.

Þá tóku við þessir svakalegu olnbogar frá Gunnari sem við höfum séð svo oft áður. Albert Tumenov, Omari Akhmedov, Jorge Santiago og nú Alex Oliveira hafa allir fengið að finna fyrir þessum olnbogum úr „mountinu“ hjá Gunnari. Það fossaði blóðið eftir olnbogana en eftir einn olnboga sá maður að Oliveira vildi ei meir og gaf á sér bakið þar sem Gunnar kláraði bardagann.

Þetta var virkilega vel gert en það sem mér fannst það besta við þennan sigur er þessi hálfgerða endurkoma. Fyrsta lota var mjög erfið, Gunnar tapaði henni og var útlitið ekki bjart þá. En Gunnar kom sterkur til baka í 2. lotu og kláraði dæmið. Það var líka gaman að sjá Gunnar öskra þegar sigurinn var kominn í höfn og greinilegt að þetta skipti hann miklu máli.

Þarna komu líka styrktar- og þrekæfingarnar að góðum notum. Fyrsta lotan tók vel á en Gunnar gat samt haldið áfram og gerði það sem hann ætlaði að gera. Samkvæmt Unnari Helgasyni, þrekþjálfara Gunnars, var Gunnar fljótur að bæta þrek og styrk þegar þeir byrjuðu samstarfið en það er enn rými til bætingar á næstu mánuðum. Þeir eru bara rétt að byrja. Þetta hljómar eins og við séum núna að sjá Gunnar Nelson 2.0 í fullu veldi.

Mynd: Snorri Björns.

Það sem allir vilja vita núna er; hvað næst? Gunnar er stórt nafn í Evrópu og vill UFC sennilega setja hann á UFC bardagakvöldið í London í mars. Gunnar gæti jafnvel endaði í aðalbardaganum þar ef andstæðingurinn er nafn líka. Bretinn Leon Edwards gæti verið næstur en hann er í 10. sæti styrkleikalistans og er búinn að vinna sex bardaga í röð. England gegn Íslandi í London gæti verið fínn aðalbardagi kvöldsins í London. Þá finnst mér Gunnar skulda Neil Magny bardaga en kannski er það ekki í myndinni núna þar sem Magny tapaði síðast. Magny er ennþá á topp 15 og væri fínt næsta skref.

Það þarf ekki að vera að Gunnar berjist í London en það sem skiptir mestu máli er að Gunnar fái bardaga aftur sem fyrst. Hann tekur sér sennilega gott frí um jólin en svo í janúar verður eflaust farið í leit að næsta bardaga.

Gunnar minnti vel á sig um helgina með eftirminnilegri frammistöðu. Þetta var grimmur endir á bardaganum með öllu blóðinu og var umtalað. Núna þarf að koma smá sigurganga hjá Gunnari ef hann á að klífa að toppnum. Næstu skref þurfa að vera vel úthugsuð og þarf allt að ganga upp. Engin meiðsli, ekki endalaus bið eftir næsta bardaga og ná smá sigurgöngu í gang!

Embed from Getty Images

Geggjaður Holloway

Max Holloway sigraði Brian Ortega í stórkostlegum aðalbardaga kvöldsins. Maður var að efast um að Holloway væri heill og gæti enn barist í fjaðurvigt. Hann var í engum vandræðum með að fara í gegnum loturnar fjórar á laugardaginn og það á háu tempói. Holloway á sennilega heima í léttvigt í dag en engu að síður magnað að sjá hvað hann fór vel í gegnum þessar lotur gegn Ortega eftir erfiðan niðurskurð. Holloway kaffærði Ortega með höggum yfir loturnar fjórar og þurfti læknirinn að stöðva bardagann eftir 4. lotu, réttilega, þar sem Ortega var hættur að sjá með öðru auganu. Frábær bardagi hjá tveimur frábærum bardagamönnum.

Joe Rogan lýsti því yfir eftir bardagann að Holloway væri besti fjaðurvigtarmaður allra tíma. Ég er ekki alveg sammála því enda maður að nafni Jose Aldo sem má ekki gleyma. Aldo gerði magnaða hluti á sínum tíma og er enn topp bardagamaður í dag þó hann sé ekki lengur upp á sitt besta. Holloway er samt á magnaðri 13 bardaga sigurgöngu sem er sú næst lengsta í sögu UFC (ásamt Georges St. Pierre og Demetrious Johnson) á eftir 16 bardaga sigurgöngu Anderson Silva.

Persónulega langar mig bara mest að sjá Holloway upp í léttvigt. Hann er kannski ekki alveg búinn að hreinsa þyngdarflokkinn og væri gaman að sjá hann gegn Frankie Edgar, Renato Moicano eða Chad Mendes en hann virðist vera á tæpasta vaði þegar kemur að niðurskurðinum. Holloway gegn Khabib væri rosalegur bardagi sem mig langar mikið að sjá!

Valentina Shevchenko er loksins UFC meistari! Hún hefur lengi beðið eftir þessu og hlutirnir ekki alveg gengið upp hjá henni en núna er hún svo sannarlega verðskuldaður meistari. Hún tapaði gegn Amöndu Nunes í mjög tæpum bardaga í fyrra og missti svo titilbardaga í haust þegar þáverandi meistari, Nicco Montano, náði ekki vigt. Núna getur hún loksins kallað sig meistara og það eftir sigur á verðugum andstæðingi.

Valentina átti bara frábæra frammistöðu gegn Joanna Jedrzejczyk. Valentina var nákvæmari standandi og náði nokkrum góðum fellum sem skilaði henni sigrinum. Mögnuð frammistaða hjá henni og getur þyngdarflokkurinn nú loksins farið almennilega af stað með alvöru meistara. Valentina mun sennilega mæta Jessica Eye en Eye sigraði Kaitlyn Chookagian á laugardaginn og er núna með þrjá sigra í röð í fluguvigtinni.

Þetta eru erfiðir tímar fyrir Joanna Jedrzejczyk. Það er bara rúmt ár síðan hún var ríkjandi meistari og virtist vera langt á undan samkeppninni. Núna er hún 1-3 í síðustu fjórum bardögum sínum og sennilega næst best í tveimur þyngdarflokkum. Fljótt að breytast. Jedrzejczyk gæti farið aftur niður í strávigt en þar er Rose Namajunas enn ríkjandi meistari sem hún hefur tapað tvisvar fyrir.

UFC 231 var ótrúlega skemmtilegt bardagakvöld. Eins og vanalega eftir bardaga hjá Gunnari kemur einhver umræða hér á landi um hvort þetta sé íþrótt og hvort þetta sé ekki of ofbeldisfullt og allt þetta. Persónulega er mér alveg sama þó fólki finnist MMA ekki vera flott íþrótt. Það fólk getur bara sleppt því að horfa. Þetta er afar harðgert sport og hættulegt en það er það sem fær marga til að horfa en líka marga til að slökkva. Þetta verður alltaf leiðinleg umræða og leiðinlegar rökræður sem fara aldrei neitt. Maður er ekkert að fara að breyta skoðunum fólks sem finnst þetta villimanslegt eða of hættulegt fyrir þeirra smekk. Sumum finnst þetta ekki flott, öðrum finnst þetta skemmtilegt. That’s it.

Næsta UFC kvöld er líka ansi skemmtilegt en þar verður síðasta UFC on FOX bardagakvöldið áður en ESPN samningurinn tekur gildi. Þar mætast þeir Kevin Lee og Al Iaquinta í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular