UFC 239 fór fram um helgina og var bardagakvöldið gjörsamlega frábært. Meistararnir héldu velli en bardagarnir voru svo sannarlega skemmtilegir og af nógu að ræða eftir helgina.
Umtalaðasta atvik helgarinnar var án nokkurs vafa rothögg Jorge Masvidal. Masvidal rotaði Askren eftir aðeins fimm sekúndur og er þetta fljótasta rothögg í sögu UFC.
Þetta var ekki bara fljótasta rothögg í sögu UFC heldur einnig eitt það grimmasta. Askren lá lengi í gólfinu eftir rothöggið, var lengi að standa upp og var enn töluvert ringlaður þegar hann yfirgaf búrið. Hann fékk grjótharða hnéskelina í höfuðið og lá óvígur eftir. Fyrsta tap Askren í MMA.
Höggin tvö sem Masvidal lét fylgja eftir í gólfinu hafa síðan verið umdeild. Masvidal sagði höggin hafa verið nauðsynleg og er hans starf að berjast þangað til dómarinn stöðvar bardagann. Það sáu samt allir að Askren var gjörsamlega úti þarna. Það er samt erfitt að setja sig í spor einhvers eins og Masvidal – með þennan götustráks bakgrunn, með adrenalínið á fullu og gegn einhverjum sem hann bar ekkert sérstaklega ljúfar tilfinningar gagnvart. Það var enginn að búast við að Masvidal myndi hneigja sig fyrir andstæðingnum eftir hnésparkið og láta staðar numið en þessi skortur á eftirsjá hans er kannski það óþægilegastsa við þetta. Þetta er hættulegur bardagamaður. Hann er að gera það sem hann á að gera, brýtur engar reglur en hefði alveg getað sleppt þessu. Hann kaus hins vegar ekki að gera það og er hann svo sannarlega ekki sá síðasti sem mun sleppa því að taka Mark Hunt á þetta og labba rólega í burtu eftir að hafa slegið andstæðinginn niður.
Nú verður áhugavert að sjá hvað Ben Askren gerir. Hann hefur áður hætt í MMA en snéri aftur í íþróttina til að sanna að hann væri bestur í heimi. Nú hefur hann verið í brasi í fyrstu tveimur bardögum sínum og tekið meiri skaða en hann hafði gert í hinum 19 bardögum sínum fyrir innkomu sína í UFC. Það kæmi manni ekkert á óvart ef hann myndi kjósa að hætta. Hann er orðinn 34 ára, er með nokkur járn í eldinum og þarf sennilega ekki að berjast fjárhagslega séð.
Hann hefur samt ekki sannað að hann sé bestur í heimi og kannski er það enn á stefnuskránni hjá honum. Það þyrfti allavegna verulega mikinn andlegan styrk til að snúa aftur í búrið eftir þetta.
Embed from Getty ImagesJon Jones átti síðan fremur slappa frammistöðu gegn Thiago Santos í aðalbardaga kvöldsins. Jones sigraði eftir klofna dómaraákvörðun og var þetta skuggalega tæpt hjá Jones. Það má vel færa rök fyrir því að Santos hafi unnið þennan bardaga en þetta var gríðarlega jafnt.
Skorblöð dómaranna fóru um víðan völl en dómararnir voru aðeins sammála um 1. lotuna (sem Santos vann) og 3. lotuna (sem Jones vann). Hinar loturnar voru mjög jafnar og hvorugur náði að vinna aðrar lotur með afgerandi hætti.
Það kom samt á óvart að Jones skildi ekki reyna að taka þetta niður. Santos var einfættur frá 2. lotu og hefði Jones sennilega getað tekið Santos auðveldlega niður. Þess í stað vildi hann standa með Santos og var það ansi tæp ákvörðun. Með smá heppni/óheppni hefði egó-ákvörðun Jones getað skilað Thiago Santos titlinum og hann sá fyrsti til að sigra Jonathan Dwight Jones í MMA (sorry Matt Hamill en þú sigraðir ekki Jones). Jones leið vel, hélt hann væri að vinna og fannst hann ekki þurfa að breyta um áætlun.
Embed from Getty ImagesAmanda Nunes sýndi svo að hún er besta bardagakona allra tíma. Oft er „GOAT“ (Greatest of all Time) stimplinum fleygt fram og maður oft fljótfær að henda þeim stimpli á bardagamenn- og konur eftir góða helgi. Nunes á samt rétt á þessu. Hún hefur klárað alla bantamvigtarmeistara kvenna í UFC og rotað þær allar í 1. lotu. Nunes á þennan stimpil skilið skuldlaust eins og staðan er núna.
Næst bíður hennar sennilega titilbardagi í fjaðurvigt gegn sigurvegaranum úr viðureign Cyborg og Felicia Spencer. Ef henni tekst að verja fjaðurvigtarbeltið einnig væri það sögulegt. Hún væri þá fyrstu tvöfaldi meistarinn í UFC sem er í alvörunni tvöfaldur meistari með því að verja bæði beltin.
Nánar er farið yfir bardagakvöldið í Tappvarpið sem kemur út í hádeginu á þriðjudaginn.