UFC 240 fór fram í Kanada á laugardaginn. Max Holloway varði titilinn sinn með sigri á Frankie Edgar en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Max Holloway sigraði Frankie Edgar eftir dómaraákvörðun og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Holloway stjórnaði ferðinni nær allan tímann og notað beinu höggin sín vel til að halda Edgar í skefjum. Holloway var með góða stjórn á fjarlægðinni og varðist nánast öllum fellum Edgar.
Holloway hefur nú varið fjaðurvigtartitilinn sinn þrívegis og eru margir á því að hann sé besti fjaðurvigtarmaður allra tíma. UFC-lýsandinn Joe Rogan lýsti því yfir í útsendingunni á laugardaginn og má auðveldlega færa rök fyrir því.
Að mínu mati er Jose Aldo ennþá besti fjaðurvigtarmaður í sögu MMA þrátt fyrir að Holloway hafi tvisvar sigrað hann. Jose Aldo varð WEC mestari árið 2009 (þegar UFC var ekki með fjaðurvigt) og síðar gerður að fjaðurvigtarmeistara UFC þegar WEC var innleitt í UFC. Hann varði fjaðurvigtartitilinn níu sinnum (tvisvar í WEC og sjö sinnum í UFC) og vann alla bestu fjaðurvigtarmenn heims í sex ár.
Holloway er í dag sennilega betri bardagamaður en Jose Aldo var þegar hann var upp á sitt besta en það er líka bara þróunin sem er að eiga sér stað í íþróttinni. Andstæðingar hans eru líka sennilega betri en andstæðingar Jose Aldo voru á þeim tíma sem Aldo var að vinna þá. Að mínu mati vantar ekki mikið upp á að Holloway verði sá besti frá upphafi í fjaðurvigtinni en Jose Aldo á þann titil ennþá.
Holloway þarf kannski ekki að verja beltið níu sinnum til að taka fram úr Aldo í mínum bókum þar sem Holloway hefur þegar unnið 14 (!!!) bardaga í röð í fjaðurvigtinni. Holloway fór í gegnum svo marga áskorendur á leið sinni að titlinum að það eru í raun fáir eftir fyrir hann að vinna. Alexander Volkanovski fær næsta titilbardaga og ætti það að verða hörku bardagi.
Embed from Getty ImagesCris Cyborg sigraði Felicia Spencer eftir dómaraákvörðun í bardaga sem var mun jafnari en flestir höfðu gert ráð fyrir. Sigurinn var samt í raun aldrei í hættu en það kom manni bara svo mikið á óvart að sjá Cyborg blóðgaða. Ég hef mögulega misst mig aðeins þegar ég var að lýsa þessu en sigurinn var nokkuð öruggur hjá Cyborg þegar uppi er staðið.
Nú er stóra spurningin hvað Cyborg ætlar að gera þar sem þetta var hennar síðasti bardagi á samningnum. Baksviðs var Cyborg strax farin í bol sem á stóð „Cyborg vs. Nunes coming in January 2020“ og strax farinn að ýta undir annan bardaga þeirra á milli en ég held að það muni ekki gerast.
Það hefur alltaf verið mín trú á að Cyborg vilji fá annan bardaga gegn Nunes, alveg síðan hún tapaði og finnst mér hún hafa margoft sagt það. Samt hefur Dana White verið að segja undanfarnar vikur að Cyborg vilji ekki mæta Nunes aftur og núna að mögulega vilji Cyborg fara til að fá auðveldari bardaga annars staðar. Þetta er svona dæmigert fyrir samband UFC/Dana White við Cyborg.
Þetta er eitthvað sem er bara ekki að virka. Cyborg virðist aldrei hafa liðið vel í UFC og ég held að það þurfi að taka einhvern alvöru krísufund til að laga það. Þetta samband á sér svo langa og slæma sögu eða alveg frá því að Dana White líkti Cyborg við Wanderlei Silva í kjól. UFC var síðan stöðugt að reyna að fá hana til að fara niður í 135 pundin sem Cyborg sagði að væri ómögulegt og létu hana þess í stað berjast í 140 punda hentivigt sem var óskiljanlegt. Núna virðist Dana White hreinlega vera að ljúga einhverju um að Cyborg vilji ekki berjast við Nunes sem Cyborg er afar ósátt með.
Auðvitað eru tvær hliðar á peningnum og er Cyborg sögð geta verið erfið í samskiptum en miðað við sögu UFC og Dana White á maður ekki erfitt með að trúa málstað Cyborg. Scott Coker og Cyborg áttu gott samband þegar hann var með Strikeforce og spái ég því að hennar næsti bardagi verði í Bellator.
Felicia Spencer kemur samt vel úr helginni. Það má segja að Spencer eigi bjarta framtíð í íþróttinni en aðal vandamál hennar er þunnur þyngdarflokkur. Sem stendur eru sex bardagakonur í fjaðurvigt kvenna í UFC. Spencer hefur mætt Megan Anderson og Cyborg og getur því bara mætt Cat Zingano og nýliðanum Zarah Fairn dos Santos sem mætir Anderson í haust. Kannski mun UFC fá fleiri stelpur inn í fjaðurvigtina en Spencer sýndi helling í þessum bardaga sem gaman væri að sjá meira af í náinni framtíð.
Næsta bardagakvöld er núna á laugardaginn þar sem þeir Robbie Lawler og Colby Covington mætast í aðalbardaga kvöldsins.