spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 241

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 241

Embed from Getty Images

UFC 241 fór fram um helgina þar sem Stipe Miocic endurheimti titilinn. Miocic er nú þungavigtarmeistarinn aftur en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Daniel Cormier var með yfirhöndina í bardaganum þangað til í 4. lotu. Cormier var að vinna 29-28 (hjá tveimur af þremur dómurum) þegar komið var í 4. lotu en þá snéri Stipe blaðinu við. Stipe hóf að kýla Cormier í skrokkinn nokkrum sinnum og sást að Cormier hafði síður en svo gaman af því.

Cormier tókst ekki að aðlagast þessum skrokkhöggum Stipe og fylgdi Stipe eftir með fleiri þungum höggum sem rotuðu Cormier á endanum. Meistaralega vel gert hjá Stipe og er hann verðskuldaður þungavigtarmeistari.

Þetta voru alvöru meistarataktar hjá Stipe um helgina og var gaman að sjá hann í sjöunda himni eftir sigurinn. Þetta er það sem maður borga fyrir að sjá – endurkomu í bardaga þar sem allt er undir. Það er ánægjulegt að sjá flott tilþrif en skemmtilegast er að sjá alvöru endurkomu þegar bardaginn virðist vera nokkuð ráðinn. Miocic mætir líklegast Francis Ngannou næst en stærsta spurningin eftir þennan bardaga er; hvað mun Daniel Cormier gera?

Cormier gaf það út að hann ætlaði að hætta þegar hann yrði fertugur. Það var í mars á þessu ári og nú er spurning hvort þetta séu endalokin. Cormier hefur sagt að hann vilji ekki vera of lengi í íþróttinni þannig að aðdáendur muni meira eftir síðustu árunum þegar hann var kannski ekki upp á sitt besta lengur. Hann vildi hætta sem meistari en nú er beltið horfið. Getur keppnismaður á borð við Cormier stigið frá keppni án þess að vera bestur?

Cormier þarf alls ekki að berjast en hann þarf ekki að hætta. Cormier er ennþá meðal allra bestu bardagamanna heims en hefur góða framtíð í íþróttinni utan búrsins. Cormier er að lýsa UFC, er með verkefni hjá ESPN og er að þjálfa ólympíska glímu. Cormier hefur þénað vel á MMA ferlinum og þarf ekki að berjast tekjulega séð. Hann er bara svo mikill keppnismaður að það er erfitt fyrir hann að hætta að keppa.

Cormier veit líka að hann getur tekið óþarfa skaða með því að halda áfram. Þetta er hættuleg íþrótt, það er ekki eins og þetta sé golf. En Cormier veit líka að hann getur fengið annan bardaga gegn Stipe og telur sig örugglega geta unnið Stipe ef þeir mætast í þriðja sinn. Cormier þarf að taka þessa erfiðu ákvörðun á næstu vikum og verður forvitnilegt að sjá hvað hann gerir.

Embed from Getty Images

Nate Diaz snéri aftur með pompi og prakt þegar hann sigraði Anthony Pettis eftir dómaraákvörðun. Nate Diaz er ennþá sama stjarnan og hann var þegar hann mætti Conor McGregor og var gaman að sjá hann aftur. Samband hans og UFC hefur stundum verið brösótt en kannski þurfa bara báðir aðilar að skilja hvorn annan svo áhorfendur fái sem mest úr Nate Diaz. Diaz segist bara vilja fá áhugaverða bardaga við „real gangsters“ og væri bardagi gegn Jorge Masvidal draumbardagi fyrir alla.

Diaz kveikti líka í jónu á opnu æfingunni á miðvikudag og þurfti síðan ekki að mæta á fjölmiðladaginn á fimmtudaginn. UFC refsaði Diaz ekki fyrir jónuna og gáfu Diaz leyfi til að skrópa á fimmtudaginn. Diaz virðist vera mjög sáttur ef hann fær bara andstæðinga sem henta honum. Það má svo sem setja spurningamerki um það út frá íþróttalegu sjónarmiði en Diaz verður alltaf bara Diaz.

Paulo Costa sýndi síðan að hann á vel heima á toppnum í millivigtinni. Bardaginn gegn Yoel Romero var frábær og leit Costa virkilega vel út framan af. Romero komst betur inn í bardagann þegar á leið og vilja einhverjir meina að hann hafi átt skilið að vinna eftir dómaraákvörðun.

Þetta var fyrsti sigur Costa eftir dómaraákvörðun en fyrstu 12 bardagana kláraði hann í 1. eða 2. lotu. Þrátt fyrir það er þetta glæsilegasti sigur hans enda aðeins Robert Whittaker sem hefur unnið Romero á undanförnum árum. Costa er alvöru bardagamaður og sýndi margt sem maður hafði ekki séð áður hjá honum.

Næstu helgi er frí hjá UFC en þann 31. ágúst fer UFC til Kína þar sem þær Jessica Andrade og Weili Zhang mætast um strávigtartitil kvenna.

Embed from Getty Images
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular