spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 244

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 244

Embed from Getty Images

UFC 244 fór fram á laugardaginn og var virkilega skemmtilegt bardagakvöld. Jorge Masvidal sigraði Nate Diaz í skemmtilegum bardaga en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Jorge Masvidal sigraði Nate Diaz með tæknilegu rothöggi eftir 3. lotu. Læknirinn stöðvaði bardagann þar sem skurðurinn á Nate Diaz var orðinn of slæmur að hans mati. Áhorfendur voru ekki beint sáttir með þessa ákvörðun en við fyrstu sýn virtist þetta ekki vera neitt svo slæmur skurður. Maður hefur séð það verra. Þetta var reyndar sami skurður (eða á svipuðum stað) og hann fékk í bardaganum gegn Anthony Pettis í ágúst. Lengri hvíld á milli bardaga hefði sennilega hjálpað honum en BMF titillinn gat ekki beðið.

Dana White, forseti UFC, var óánægður með þessa ákvörðun læknisins í fyrstu en eftir að hafa séð skurðinn nálægt var hann ekki lengur á sama máli. Nate Diaz, Dominick Cruz og fleiri bardagamenn voru ósáttir við ákvörðun læknisins en starf læknisins er fyrst og fremst að hugsa um öryggi keppenda. Hann taldi að Nate Diaz gæti ekki haldið áfram eins slæmur og skurðurinn var.

Það má samt velta því fyrir sér hvort Nate hefði fengið að halda áfram ef bardaginn hefði farið fram í Las Vegas. Tyson Fury var með slæman skurð í sínum síðasta bardaga og þurfti 47 spor eftir bardagann. Sá bardagi var ekki stöðvaður enda fór hann fram í Las Vegas. Sennilega verður alltaf hægt að finna til dæmi hér og þar en svona tilvik verða alltaf metin eftir tilvikum.

Skurðurinn gerir endalok bardagans ekki eins ánægjuleg og bardaginn sjálfur. Skurðurinn skyggir í raun á frábæra frammistöðu Jorge Masvidal. Masvidal pakkaði Nate Diaz saman í þrjár lotur. Diaz átti eiginlega aldrei séns. Ef þetta hefði verið einhver annar en Diaz hefðu fáir haft á móti því að stöðva bardagann eftir þrjár lotur en þar sem Diaz er einn sá allra harðasti vildu menn sjá meira.

Nate Diaz er vissulega góður í 4. og 5. lotu en að mínu mati var ekkert sem bendi til þess að hann væri að fara að snúa þessu sér í vil þó það sé auðvitað aldrei hægt að útiloka það. Masvidal virtist ekkert vera farinn að þreytast og var með þetta í hendi sér á öllum vígstöðum. Persónulega hef ég ekki mikinn áhuga á að sjá þá mætast strax aftur. Kannski einhvern tímann í framtíðinni en held að seinni bardagi þeirra yrði ekki ósvipaður.

Eins og eftir alla stóra bardaga er Conor McGregor nefndur til sögunnar en eins og staðan er núna er Masvidal bara að fara í titilbardaga í veltivigtinni. Það hlítur að vera eftir þessa þrjá sigra á árinu. Masvidal er klárlega bardagamaður ársins ásamt Israel Adesanya og á skilið að fá titilbardaga. Það er bara spurning hvort það verði gegn Kamaru Usman eða Colby Covington.

Á meðan Masvidal fær titilbardaga sé ég alveg fyrir mér að Nate Diaz verði bara tuðandi á hliðarlínunni um annan bardaga gegn Masvidal næstu árin jafnvel. Ég gæti alveg trúað því að Diaz muni ekkert berjast næsta hálfa árið í hið minnsta.

Embed from Getty Images

Darren Till sigraði síðan Kelvin Gastelum í fremur leiðinlegum bardaga. Till gerði vel samt og var ekki annað hægt en að samgleðjast honum eftir einlæga framkomu í viðtölum eftir bardagann. Till viðurkenndi að hann hefði verið skíthræddur fyrir bardagann og var að spá í að gera sér upp meiðsli til að hætta við. Hann sýndi samt alvöru hugrekki og fór í búrið þar sem hann nældi sér í sigur. Gríðarlega þýðingarmikill sigur fyrir hann og gaman að sjá hann svona einlægan.

Millivigtin er á áhugaverðum stað þessa stundina þar sem menn eins og Chris Weidman, Luke Rockhold og ‘Jacare’ Souza eru farnir upp í léttþungavigt. Till getur hæglega fengið titilbardaga á næsta ári og væri gaman að sjá hann t.d. á móti Robert Whittaker næst.

Gastelum var bara ekki nógu góður en Till gerði vel að „clincha“ við Gastelum í hvert sinn sem Gastelum komst nálægt Till. Þetta var fimmta tap Gastelum á ferlinum en fjögur af þeim eru eftir klofna dómaraákvörðun.

Stephen Thompson var síðan frábær í sigri á Vicente Luque. Thompson var aggressívur og er langt síðan hann hefur verið jafn ferskur. Thompson lenti 138 höggum í bardaganum sem er met hjá honum í UFC. Þetta var útgáfa af Thompson sem var að klára menn en því miður fyrir hann var Vicente Luque bara of harður. Frábær sigur hjá Thompson og greinilegt að hann er ekki dauður úr öllum æðum.

Kevin Lee nældi sér sennilega í eitt af rothöggum ársins þegar hann kláraði Gregor Gillespie með hásparki í 1. lotu. Svakalegt rothögg og frábær sigur fyrir Kevin Lee. Líkt og með Till var maður kannski full fljótur að afskrifa Lee en hann er bara 27 ára gamall. Það verður mjög gaman að sjá hvað hann gerir með Firas Zahabi í náinni framtíð.

Embed from Getty Images

Það voru margir frábærir bardagar á kvöldinu. Corey Anderson slökkti á Johnny Walker hæpinu og missti sig aðeins í fögnuðinum. Edmen Shahbazyan slátraði síðan Brad Tavares. Virkilega sannfærandi sigur hjá Edmund Tarverdyan nemandanum. Aldrei áður hefur einn maður náð að hjálpa orðspori þjálfara eins mikið og Shahbazyan er núna að gera fyrir Edmund. Shahbazyan hefur verið hjá Edmund síðan hann var 12 ára gamall og er einn sá mest spennandi í millivigtinni í dag.

Shane Burgos var flottur gegn Makwan Amirkhani og er hann núna 6-1 í UFC. Arlovski lét síðan rota sig á 29 sekúndum og var það hans ellefta tap eftir rothögg á ferlinum. Hann grætur samt sennilega ekki of mikið enda fékk hann tæpar 40 milljónir króna fyrir bardagann.

Næstu helgi fer UFC til Rússlands þar sem þeir Zabit Magomedsharipov og Calvin Kattar mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular