spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 246

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 246

Embed from Getty Images

UFC 246 fór fram á laugardaginn í Las Vegas. Conor McGregor komst aftur á sigurbraut með sigri á Donald Cerrone eftir aðeins 40 sekúndur en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Það tók Conor McGregor ekki langan tíma að klára kúrekann. Þetta tók eiginlega aðeins of fljótt af enda flestir búnir að vaka lengi eftir þessu og þurftu að sitja undir hundleiðinlegum bardaga Holly Holm og Raquel Pennington á undan. Maður hefði viljað sjá aðeins meira en þetta var flott frammistaða hjá Conor.

Þessi sigur hjá Conor var gríðarlega mikilvægur fyrir hann og UFC. Conor hefur ekki beint verið til fyrirmyndar utan búrsins undanfarin tvö ár og komið sér oft í vandræði sem hefur haft slæm áhrif á ímynd hans. Margir hafa einfaldlega snúið baki við honum – sérstaklega eftir að hann kýldi gamla manninn á barnum og eftir alvarlegu ásakanirnar á hans hendur.

Þessi sigur og framkoma hans í aðdraganda bardagans gerði mikið fyrir Conor. Hann sagði allt það rétta fyrir bardagann, var viðkunnalegur í viðtölum, viðurkenndi að hann hefði ollið aðdáendum sínum vonbrigðum og nældi sér í mikilvægan sigur.

Þetta hefði líka varla getað farið betur fyrir UFC og Dana White. Conor náði rothöggi sem hægt er að nota í næstu kynningarpakka, Conor kemur meiðslalaus úr bardaganum og gæti verið tilbúinn í annan bardaga fljótlega.

Dana White sagði þó eftir bardagann að hann vilji sjá Conor fara í Khabib Nurmagomedov næst. Það eru kannski ekki margir sem vilja sjá það strax en ef það er bardaginn sem UFC vill setja Conor í næst yrði það líklegast ekki fyrr en í fyrsta lagi október. Khabib mætir Tony Ferguson í apríl en eftir það tekur við Ramadan um sumarið og berst Khabib því væntanlega ekki um sumarið. Næsti bardagi Khabib á eftir Tony Ferguson yrði því væntanlega ekki fyrr en um haustið. Auk þess má ekki gleyma því að það er langt í frá gefið að Khabib vinni Tony Ferguson í apríl.

Það eru fáir á því að Conor eigi skilið að fá annað tækifæri gegn Khabib en það yrði risastór bardagi. Justin Gaethje hefur gert jafn mikið (ef ekki meira) og Conor til að fá titilbardaga en allir vita að Conor bardagi selur mun meira en Gaethje bardagi. Conor-Khabib 2 er alltaf að fara að verða stór bardagi en hversu stór yrði hann ef Conor myndi taka einn mjög sannfærandi sigur í viðbót gegn topp bardagamanni?

Jorge Masvidal var viðstaddur bardagann og væri gaman að sjá þá mætast í sumar. Sá bardagi myndi kannski ekki hafa mikla þýðingu fyrir titilbardaga en það yrði skemmtilegt og þetta eru tvær stærstu stjörnurnar í UFC í dag.

Ef Conor ætlar að fara aftur í Khabib finnst mér hann þurfa að fara í gegnum Justin Gaethje fyrst. Gaethje fór líka létt með Cerrone og þarf Conor að gera miklu meira til að sýna mér að hann eigi séns í Khabib aftur. Conor virðist hins vegar vera opinn fyrir öllu og langar að berjast aftur sem fyrst.

Embed from Getty Images

Donald Cerrone kemur ekkert sérstaklega vel frá þessum bardaga. Þetta var hans fljótasta tap á ferlinum og náði hann ekki einu höggi í Conor. Eins og var talað um fyrir bardagann er Cerrone með sína galla sem henta Conor vel – Cerrone er alltaf lengi í gang en Conor byrjar af krafti. Hakan hjá Cerrone er síðan farin að gefa sig allverulega og var þetta aðeins of auðvelt fyrir Conor.

Cerrone fékk ekki einu sinni það vel borgað. Cerrone fékk 200.000 dollara fyrir að mæta og hefði átt að fá aðra 200.000 dollara fyrir að vinna. Ég ætla rétt að vona að Cerrone hafi fengið hluta af Pay Per View sölunni en það er ekki vitað enn sem komið er.

Þetta var þriðja tap Cerrone í röð og eru dagar hans sem einn af þeim bestu sennilegast taldir. Hann hefur samt áður sýnt manni að hann eigi nóg eftir þegar maður heldur að hann sé búinn. Það er samt spurning hvort UFC hætti ekki að bóka Cerrone gegn topp 5 andstæðingum í bili.

Embed from Getty Images

Holly Holm sigraði Raquel Pennington eftir dómaraákvörðun í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Þeim Holm og Pennington tókst hið ómögulega og áttu ennþá leiðinlegri bardagi heldur en fyrri bardagi þeirra. Holm selur kannski ennþá einhver Pay per view en ég veit ekki hverjum datt það í hug að hafa þennan leiðinlega bardaga þarna. Miðað við hvað fyrri bardagi þeirra var leiðinlegur, hvað bjuggust þeir við að myndi gerast ef þær myndu mætast aftur? UFC hefði alveg eins getað hent Francis Ngannou-Derrick Lewis 2 þarna.

Bardaginn fór að miklu leyti fram í „clinchinu“ upp við búrið þar sem Holm lenti heilum 10 höggum yfir loturnar þrjár. Ég veit ekki hvað planið var hjá Holm að gera í „clinchinu“. Hún var ekki að koma með hættulega olnboga eða hné og var ekki nálægt því að ná Pennington niður. Vissulega á Pennington að gera betur að losa sig úr stöðunni og festast ekki þarna en það er skrítið að sjá margfaldan heimsmeistara í boxi fara þessa leið.

Carlos Diego Ferreira átti frábæra frammistöðu þegar hann sigraði Anthony Pettis. Þetta var stærsti sigur ferilsins hjá Ferreira og er hann nú með sex sigra í röð. Hann var líka sá fyrsti til að klára Pettis með uppgjafartaki og var þetta auðveldara en maður bjóst við.

Roxanne Modafferi átti frábæra frammistöðu um helgina! Það voru ekki margir sem höfðu trú á Modafferi og var hún stærsti „underdog“ helgarinnar hjá veðbönkum. Modafferi leit vel út standandi og naut líka yfirburða í gólfinu gegn Maycee Barber.

Barber hefur ítrekað sagt að hún ætli sér að verða yngsti meistarinn í sögu UFC. Það gæti orðið erfitt núna en eftir bardagann kom í ljós að hún hafi slitið krossband í 2. lotu. Barber er aðeins 21 árs gömul en þetta tap og að minnsta kosti níu mánuðir á hliðarlínunni vegna meiðsla er stór hindrun.

Næsta bardagakvöld UFC er strax næstu helgi þegar UFC heimsækir Raleigh í Norður-Karólínu þar sem Junior dos Santos mætir Curtis Blaydes í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular