UFC 258 fór fram á laugardaginn þar sem Kamaru Usman sigraði Gilbert Burns í aðalbardaga kvöldsins. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Kamaru Usman sýndi sannkallaða meistaratakta þegar hann sigraði Gilbert Burns í aðalbardaga kvöldsins. Burns kýldi Usman niður í 1. lotu en Usman jafnaði sig, snéri stöðunni sér í vil og kláraði Burns snemma í 3. lotu.
Usman fékk góð ráð frá Trevor Wittman en Wittman sagði honum að „stungan þín skilaði þér þessum titli“ og fór Usman að nota hana upp frá því. Frábært ráð frá Wittman en það þarf sterkan haus til að meðtaka svona ráð og framfylgja skilaboðunum þegar það er nýlega búið að kýla þig niður. Meistaraleg frammistaða hjá Usman.
Usman hefur oft verið leiðinlegur og farið eins örugga leið og mögulegt er. Það getur verið pirrandi að horfa á hann berjast en núna er hann kominn með tvær mjög flottar titilvarnir gegn Colby Covington og Burns (og svo eina frekar óspennandi gegn Jorge Masvidal) og á hrós skilið fyrir þær frammistöður.
Embed from Getty ImagesUsman er kominn á þann stað að verið er að bera hann saman við Georges St. Pierre. Á laugardaginn bætti hann met GSP yfir flesta sigra í röð í veltivigtinni en 13 sigrar Usman eiga ennþá eitthvað í land í 19 sigra GSP í UFC. GSP varði beltið sitt níu sinnum áður en hann lét það af hendi en þetta var þriðja titilvörn Usman í UFC. Usman er ekki kominn á sama stall og GSP en hann er að taka góð skref.
Usman hefur verið nær ósnertanlegur á sínum ferli í UFC enda unnið alla 13 bardagana sína. Sigurganga hans er sú næst lengsta í sögu UFC (ásamt fleirum) á eftir Anderson Silva. Hann var vankaður á laugardaginn og er það í fyrsta sinn sem maður sér hann í einhverjum vandræðum í UFC. Líkt og sannur meistari tókst honum að jafna sig og kom öflugur til baka. Hann er orðinn það góður að það er erfitt að sjá einhvern ógna honum á næstunni.
Það er samt einn maður þarna úti sem mann langar að sjá Usman fara í næst – Colby Covington. Covington er einn sá allra leiðinlegasti í UFC en hann er frábær bardagamaður. Fyrri bardagi þeirra árið 2019 var einn sá besti sem ég hef séð og verða þeir að mætast aftur. Því miður hefur Colby aðeins barist einu sinni síðan hann tapaði fyrir Usman og er því lítið í umræðunni.
Colby virðist endalaust vera í einhverjum samningaviðræðum við UFC um sinn næsta bardaga og tekur óratíma fyrir hann að koma sér í búrið aftur. Colby er pínu gleymdur og virðist núna ætla að missa þennan Jorge Masvidal dramabardaga líka því Usman kom á óvart og lýsti yfir áhuga á að mæta Masvidal aftur.
Þó Masvidal bardaginn hafi örugglega gefið Usman vel í aðra hönd ætti Masvidal að þurfa að taka annan bardaga fyrst áður en hann fær annan titilbardaga. Fyrri bardaginn var mjög einhliða og ekkert sérlega spennnandi. Erfitt að sjá hvernig þetta ætti að vera öðruvísi núna. Usman vill Masvidal, Masvidal er til, Dana er til og það verður ekkert erfitt að selja þennan bardaga. Allir græða nema Colby Covington.
Gilbert Burns var sársvekktur eftir tapið og hágrét í búrinu. Það var auðvelt að finna samúð með manninum og átti Usman sjálfur erfitt með að horfa á fyrrum liðsfélaga sinn í sárum. Burns vill þetta bara svo ótrúlega mikið.
Að hans sögn varð hann bara aðeins of æstur eftir góða byrjun og vill komast aftur í titilbardaga. Hann vill berjast aftur sem fyrst og segist þegar vera kominn með tvö nöfn í huga samkvæmt umboðsmanni hans. Hann virðist ekki ætla að hugsa eitthvað allt of mikið um eðlilega hvíld þrátt fyrir tap eftir rothögg. Vonandi munu þeir sem standa honum næst og UFC hafa vit fyrir honum og senda hann ekki of snemma aftur í búrið.
Embed from Getty ImagesAlexa Grasso sigraði Maycee Barber í skemmtilegum bardaga. Grasso vann þar með tvo bardaga í röð í fyrsta sinn í UFC. Hún getur blandað sér í toppbaráttuna í fluguvigtinni en þarf að sýna meira ef hún ætlar að verða einhver áskorandi. Þetta var engu að síður mjög flott frammistaða og eitthvað til að byggja ofan á.
Barber er núna með tvö töp í röð og er ekki að fara að verða yngsti meistari í sögu UFC. Bara 22 ára gömul samt og hefur nægan tíma til að bæta sig. Hún var að koma til baka eftir erfið meiðsli en á ýmislegt ólært áður en hún getur farið að hugsa um titilinn.
Embed from Getty ImagesEin óvæntustu úrslit kvöldsins var síðan sigur Anthony Hernandez á Rodolfo Vieira með uppgjafartaki í 2. lotu. Vieira, sem er margfaldur heimsmeistari í BJJ, var bara sprunginn þegar 1. lota var hálfnuð. Eftir það var hann aldrei nálægt því að komast í yfirburðastöðu í gólfinu og Hernandez át hann lifandi. Sú staðreynd að Hernandez hafi klárað hann með uppgjafartaki er ótrúlegt en Vieira var auðvitað örmagna, vankaður og í andlegu þroti. Flottur sigur hjá Hernandez sem hafði nú ekki gert merkilega hluti í UFC fram að sigrinum um helgina.
Næsta UFC kvöld fer fram á laugardaginn þar sem Derrick Lewis mætir Curtis Blaydes í aðalbardaga kvöldsins.