spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Barboza vs. Lee

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Barboza vs. Lee

Á laugardaginn hélt UFC skemmtilegt bardagakvöld í Atlantic City í New Jersey. Kevin Lee átti magnaða frammistöðu þegar hann sigraði Edson Barboza í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Það verður að segjast eins og er en Kevin Lee einfaldlega rústaði Edson Barboza. Hann tók hann margoft niður og var með þung högg í gólfinu – ekki ósvipað því sem Khabib Nurmagomedov gerði við hann í desember.

Þetta var besti sigur ferilsins hjá Kevin Lee og má segja að hann hafi fyrir alvöru stimplað sig inn meðal þeirra bestu í léttvigtinni. Fyrir helgina var hans besti sigur Michael Chiesa en nú er hann alls ekki langt frá toppnum.

Lee óskaði eftir bardaga gegn Khabib eftir sigurinn en það verður að teljast fremur ólíklegt á þessari stundu. Conor McGregor, Dustin Poirier og Eddie Alvarez eru sennilega allir á undan honum í röðinni. Það er líka spurning hvort Lee eigi í erfiðleikum með að ná 155 punda léttvigtarmörkunum. Hann var einu pundi of þungur núna og var að ströggla fyrir vigtunina fyrir Tony Ferguson bardagann. Einn sannfærandi sigur í viðbót ætti samt að duga Lee til að fá titilbardaga en í þyngdarflokki með Conor McGregor virðist enginn vita hvað gerist næst.

Barboza hefur nú tapað tveimur bardögum í röð og voru bæði töpin frekar slæm. Hann var einfaldlega tekinn niður og laminn. Þó hann hafi náð einu geggjuðu snúnings hælsparki um helgina og var ekki langt frá því að klára bardagann var þetta eiginlega sami bardagi og gegn Khabib.

Hann hefur sýnt að hann er grjótharður en sama leikáætlunin stoppar hann alltaf. Sáum það gegn Jamie Varner, Michael Johnson, Khabib Nurmagomedov og núna Kevin Lee – mikil pressa, fellur og góð toppstjórn í gólfinu. Hann er sennilega ekki að fara að komast hærra en þetta í léttvigtinni í UFC.

Frankie Edgar náði fínum sigri gegn Cub Swanson þrátt fyrir að taka óþarflega mikla áhættu og snúa svona fljótt aftur í búrið eftir að hafa verið rotaður. Cub Swanson hefur samt oft litið betur út og gerði eiginlega aldrei neitt fyrr en síðustu 30 sekúndurnar í hverri lotu. Annars var hann of hægur, of mikið að bíða og virtist hræddur um að vera tekinn niður eins og gerðist oft í fyrri bardaga þeirra. Þá sagði hornið honum að hann væri að vinna eftir fyrstu tvær loturnar sem er svo langt frá sannleikanum enda vann Edgar allar fimm loturnar.

Dan Hooker rotaði svo Jim Miller með hnésparki í 1. lotu. Hooker hefur núna hægt og rólega unnið þrjá bardaga í röð og klárað þá alla. Þetta var aftur á móti fjórða tap Miller í röð og spurning hvort hann fái einn séns í viðbót hjá UFC. Miller er orðinn 34 ára gamall og á ekki marga bardaga eftir.

Núna tekur við smá pása hjá UFC en næsta bardagakvöld fer fram 12. maí þegar UFC 224 fer fram í Brasilíu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular