Saturday, April 20, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Belfort vs. Henderson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Belfort vs. Henderson

Mynd: USA TODAY Sports

Á laugardaginn fór fram ansi skemmtilegt bardagakvöld í Brasilíu. Vitor Belfort og Thomas Almeida sigruðu báðir eftir glæsileg rothögg og Gleison Tibau sigraði með umdeildum hætti.

Belfort setur met

Vitor Belfort rotaði Dan Henderson með haussparki í aðalbardaga kvöldsins. Þetta var 12. sigur hans í UFC eftir rothögg sem er met. Fyrra metið átti Anderson Silva en hann er með 11 rothögg. Belfort hefur klárað 14 bardaga í UFC og jafnaði þar með met Anderson Silva.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig sagan mun meta feril Belfort þegar hann loksins leggur hanskana á hilluna. Hann hefur tvisvar fallið á lyfjaprófi og frammistöðubætandi lyf alltaf verið viðloðin feril hans. Á sama tíma á hann metið yfir flest rothögg í sögu UFC og barist sex titilbardaga í UFC.

Belfort mun alltaf vera umdeildur í MMA en í dag segir hann að lyfin (eins og TRT meðferðin) hafi ekki hjálpað sér að vinna bardaga. Ef svo er, hvers vegna var hann þá í meðferðinni á sínum tíma? Í dag er hann svo blessaður af Guði að hann þarf engin lyf að eigin sögn. Belfort er eiginlega óheppinn að hafa ekki verið blessaður af guði fyrr. Þá hefði hann kannski getað sleppt sterunum og ekki fallið á lyfjaprófi tvisvar.

Hendo vs. Ken Shamrock?

Dan Henderson hefur nú aðeins unnið tvo af síðustu átta bardögum. Það er ekkert sérstakt og fær Henderson alltaf þá spurningu frá blaðamönnum hvenær hann ætli að hætta. Sjálfur er Henderson ekkert á því að hætta (því miður). Einu skiptin sem hann hugsar um að hætta eru þegar blaðamenn spyrja hann út í þetta. Hann er alltaf til í bardaga svo lengi sem einhver borgar honum fyrir það.

Það gæti orðið stórt vandamál síðar meir. UFC mun eflaust halda honum örlítið lengur en það mun koma sá tími þegar UFC segir einfaldlega hingað og ekki lengra og segir upp samningi hans (þ.e. ef hann heldur áfram að tapa). Það er nánast öruggt að Bellator myndi bjóða Henderson samning ef UFC myndi segja upp samningi hans. Í raun er Henderson aðeins korteri frá bardaga gegn mönnum á borð við Ken Shamrock og Renato ‘Babalu’ Sobral.

Thomas Almeida með tilþrif

Enn heldur Thomas Almeida áfram að rota andstæðingana sína. Hann rotaði Anthony Birchak í fyrstu lotu um helgina og var þetta 20. sigur hans á ferlinum og sá 16. eftir rothögg. Hinn 24 ára Almeida er taplaus og hefur klárað alla bardaga sína nema einn.

thomas almeida

Enn einn sigur Tibau

Gleison Tibau nældi sér í sinn 17. sigur í UFC. Hann er nú með þriðju flestu sigrana innan UFC ásamt Michael Bisping. Aðeins Georges St. Pierre og Matt Hughes eiga fleiri sigra. Þetta var einnig 26. bardagi hans í UFC sem er það næst mesta í sögu UFC. Hann er aldrei að fara að verða meistari en Tibau er sennilega einn af þeim fáu sem er sáttur með Reebok samninginn. Þar sem hann er með fleiri en 21 bardaga fær hann 20.000 dollara frá Reebok fyrir hvern bardaga. Til samanburðar fékk Trujillo 5000 dollara.

Sigurinn á Abel Trujillo var þó umdeildur. Tibau læsti „rear naked choke“ hengingu en dómarinn stöðvaði bardagann áður en Trujillo hafði tappað út. Trujillo var ekki sáttur með þá ákvörðun dómarans en að sögn Tibau var hann búinn að læsa hengingunni og var aðeins tímaspursmál hvenær Trujillo hefði tappað út.

 

Næsta UFC er um næstu helgi þegar Ronda Rousey mætir Holly Holm á UFC 193.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular