spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Gustafsson vs. Smith

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Gustafsson vs. Smith

Embed from Getty Images

UFC var með bardagakvöld í Svíþjóð um helgina þar sem þeir Alexander Gustafsson og Anthony Smith mættust í aðalbardaga kvöldsins. Smith kláraði Gustafsson með hengingu í 4. lotu en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Bardaginn var ágætis skemmtun en Smith var með yfirhöndina nær allan tímann. Gustafsson kom aðeins til baka í 3. lotu en sigurinn verðskuldaður hjá Smith.

Með sigrinum getur maður eiginlega hætt að efast um Anthony Smith. Hann var meðalmaður í millivigt en þrír sigrar í léttþungavigt var nóg til að skila titilbardaga á sínum tíma. Ég var lengi vel efins um Smith enda voru fyrstu tveir sigrarnir hans á öldruðum Rashad Evans og Shogun Rua. Sigurinn á Volkan Oezdemir var flottur en þar var Smith að tapa þar til Oezdemir gasaði og Smith tók yfir. Hann átti svo ekki séns gegn Jones en það er svo sem engin skömm í því.

Þetta var hans besti sigur í MMA og hefur hann fest sig í sessi sem einn af þeim bestu í léttþungavigt. Smith ætlar að vinna sig upp í annan titilbardaga gegn Jon Jones og þarf að safna nokkrum sigrum í viðbót til að það gerist. Dominick Reyes gæti verið fínn næsti andstæðingur en fyrst þarf Smith að jafna sig eftir að hafa líklegast brotið á sér höndina í bardaganum.

Embed from Getty Images

Alexander Gustafsson tilkynnti síðan að hann væri hættur sem kom nokkuð á óvart. Gustafsson er bara 32 ára gamall og lýkur ferlinum með 18 sigra og sex töp.

Miðað við söguna er ólíklegt að Gustafsson sé endanlega hættur. Það virðist heyra til undantekninga að bardagamenn séu í alvörunni hættir þegar þeir segjast vera hættir. Urijah Faber, Vitor Belfort og Brad Pickett eru nýleg dæmi um menn sem hafa sagst ætla að snúa eftir að áður hætt.

Gustafsson var þó sannfærandi þegar hann sagðist ekki vera með þetta lengur. Hann er í þessu til að vera bestur en eftir þrjár misheppnaðar tilraunir til að ná léttþungavigtarbeltinu og tap um helgina telur hann að hann sé einfaldlega ekki bestur. Sagan segir að Gustafsson sé nokkuð lemstraður í skrokknum eftir að hafa barist í 12 ár sem atvinnumaður og eigi erfitt með að fara í gegnum æfingabúðir fyrir bardaga án þess að meiðast. Fjórum sinnum hefur hann hætt við bardaga vegna meiðsla á síðustu fjórum árum. Þó það sé erfitt að trúa því þessa dagana þegar menn segjast vera hættir þá gæti vel verið að Gustafsson sé bara búinn á því – líkamlega og andlega.

Embed from Getty Images

Alexander Rakic átti síðan eitt klikkaðasta rothögg ársins þegar hann steinrotaði Jimi Manuwa eftir 47 sekúndur. Rakic er að stimpla sig inn í léttþungavigtina og er nú 4-0 í UFC. Rakic er bara 27 ára gamall og verður spennandi að fylgjast með honum á næstunni.

Jimi Manuwa mætti þó sennilega leggja hanskana á hilluna. Hann er orðinn 39 ára gamall, hefur tapað fjórum bardögum í röð og verið rotaður í þremur þeirra. Heilsu hans vegna vona ég að hann leggi hanskana á hilluna.

Næstu helgi er geggjað bardagakvöld! UFC 238 fer fram í Chicago þar sem þeir Henry Cejudo og Marlon Moraes mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular