Saturday, May 18, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Henderson vs. Masvidal

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Henderson vs. Masvidal

MMA: UFC Fight Night-Henderson vs MasvidalUFC hélt sitt fyrsta bardagakvöld í Kóreu á laugardaginn. Bardagakvöldið var ágætis skemmtun en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir helgina.

Hvað gerir Ben Henderson?

Bardaginn á laugardaginn var síðasti bardagi Henderson á samningnum hans við UFC. Henderson sigraði Jorge Masvidal eftir klofna dómaraákvörðun í góðum bardaga og getur því hafið samningaviðræður við hvern sem er. Henderson var ekki vinsæll léttvigtarmeistari enda fóru allir titilbardagar hans allar fimm loturnar (allir sigrarnir þ.e.a.s.). Hann ætlar að skoða markaðsvirði sitt og gæti fengið gott tilboð frá Bellator sem UFC getur alltaf jafnað. Henderson hefur nú sigrað tvo bardaga í röð, báða í veltivigtinni, og verður athyglisvert að sjá hvar hann endar.

Þetta er nokkuð sem fleiri bardagamenn gætu gert – klára samninginn sinn svo þeir geti fengið tilboð frá öðrum bardagasamtökum og séð virði sitt. Flestir bardagamenn framlengja samninginn sinn við UFC áður en hann klárast og fá því aldrei önnur tilboð.

Það er svo sem ekki auðvelt verk enda hefur UFC yfirleitt gefið bardagamönnum sem ætla að klára samninginn sinn erfiða bardaga. Til að mynda fékk Tito Ortiz hinn óþekkta (þá) en erfiða Lyoto Machida í síðasta bardaga hans á samningnum. Stóra spurningir hvort við munum sjá Henderson næst í UFC eða Bellator.

Henderson virtist vera með ákveðin skilaboð eftir bardagann á laugardaginn þó óljóst sé hver átti að fá skilaboðin.

Dong Hyun Kim biður um Maia

Dong Hyun Kim sigraði hinn óþekkta Dominic Waters eins og gert var ráð fyrir en upphaflega átti Kim að mæta Jorge Masvidal. Sigurinn gerir lítið fyrir Kim sem er í sjöunda sæti á styrkleikalista UFC. Eftir bardagann óskaði hann eftir bardaga gegn Demian Maia en þeir mættust í júlí 2012. Maia sigraði eftir að Kim fékk vöðvakrampa snemma í bardaganum og vill hann gjarnan fá annað tækifæri gegn Maia. Eins og allir vita er Maia að fara að mæta Gunnari Nelson í desember og þarf Kim því að bíða aðeins eftir Maia. Hver veit, kannski vill Kim frekar mæta Gunnari takist okkar manni að sigra Maia í desember?

Kim gleymist oft þegar talað er um þá sem eru nálægt titilbardaga í veltivigtinni. Hann hefur unnið tvo bardaga í röð (gegn andstæðingum utan topp 15) en þyrfti í raun ekki nema einn sigur á sterkum andstæðingi til að vera kominn ansi nálægt toppbaráttunni.

Choi Choi, hæplestin er farin af stað!

Doo Ho Choi rotaði Sam Sicilia eftir aðeins 1:33 á laugardaginn. Það var gaman að fá að sjá hinn 24 ára Choi aftur í UFC enda lítið barist undanfarin ár. Hann hefur átt við meiðsli að stríða og aðeins tvisvar barist síðan hann samdi við UFC árið 2013. Báðir bardagarnir hafa endaði með rothöggi í fyrstu lotu. Það tók hann ekki nema 18 sekúndur að klára Juan Puig í nóvember 2014 og svo 90 sekúndur að klára Sicilia um nýliðna helgi.

Choi hefur sigrað 11 bardaga í röð og eru honum allir vegir færir í fjaðurvigtinni. Það er kannski of snemmt að segja hann vera næstu ofurstjörnu Asíu en hann lofar svo sannarlega góðu. Hann er líka þrælskemmtilegur bardagamaður með 10 rothögg í 13 sigrum. Hann óskaði eftir að fá Tatsuya Kawajiri eftir bardagann og gæti fengið ósk sína uppfyllta. Kawajiri er án andstæðings fyrir UFC bardagakvöldið þann 11. desember og væri gaman að sjá Choi aftur sem fyrst.

Næsta UFC bardagakvöld er UFC Fight Night 80 fimmtudaginn 10. desember þar sem Paige VanZant og Rose Namajunas mætast í aðalbardaga kvöldsins. Daginn eftir fer svo TUF Finale fram og þann 12. desember er komið að stærsta bardagakvöldi ársins, UFC 194!

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular