Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaBjarki Þór: Pain is temporary, glory is forever!

Bjarki Þór: Pain is temporary, glory is forever!

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Bjarki Þór Pálsson var einn af átta Íslendingum sem keppti á Evrópumótinu í Birmingham á dögununum. Bjarki gerði sér lítið fyrir og tryggði sér Evróputitilinn í stærsta flokki mótsins. Bjarki segir frá mótinu, ruglinu í gamla daga og kvíðanum sem hann hefur upplifað.

Bjarki Þór barðist fimm bardaga á fjórum dögum og var álagið á skrokknum gríðarlegt á þessum dögum. Þegar við hittum Bjarka í Mjölni hafði hann verið heima í þrjá daga og skrokkurinn allur að koma til eftir mótið. „Skrokkurinn er bara þokkalegur. Ég er aðeins laskaður í ökklanum en það var eitthvað sem gerðist áður en ég fór út að keppa. Ég lenti svo í armbar í einum bardaganum og meiddi mig aðeins í olnboganum, annars er ég bara góður,“ segir Bjarki.

Í sófanum í bakherbergi Mjölnis sötrar Bjarki kaffi og viðurkennir að hann sé enn ógeðslega þreyttur. „Ég er samt ennþá ógeðslega þreyttur og get varla haldið augunum opnum. Þetta var auðvitað fáranlega mikið álag.“

Fyrstu dagarnir eftir heimkomuna voru annasamir enda vildu margir ná tali af Evrópumeistaranum. „Ég  held ég hafi farið í tvö viðtöl á dag, sem er bara geðveikt að fólk sé að sýna þessu áhuga. Annars er eiginlega ekkert búið að breytast. Er bara búinn að vera þreyttur og rútínan tekur við og maður fer að þjálfa aftur og æfa aftur og hitta alla, same shit, different day,“ segir Bjarki og glottir.

Bjarki hefur eðlilega tekið því rólega síðustu daga og æft rólega. „Ég hef bara verið að mæta í jóga hér í Mjölni og á svona movement improvement æfingu hjá Einari Carli, bara aðeins til að fá blóðið til að flæða,“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Eins og áður segir barðist Bjarki fimm bardaga. Bjarki mætti Þjóðverjanum Lukas Licht í fyrstu umferð og sigraði eftir „rear naked choke“ í 2. lotu. Daginn eftir barðist hann tvo bardaga – fyrst gegn Ítalanum Eshan Ghandchiller sem Bjarki sigraði með „side-choke“ hengingu og svo gegn Frakkanum Christophe Choteau sem Bjarki sigraði með „armbar“. Hann var því kominn í undanúrslit þar sem hann mætti Bretanum Hairdeep Rai sem hann sigraði með tæknilegu rothöggi í 3. lotu. Í úrslitunum mætti hann svo Búlgaranum Dorian Dermendzhiev sem Bjarki sigraði eftir einróma dómaraákvörðun.

Þetta var stórkostleg frammistaða hjá Bjarka en hver var eiginlega erfiðasti bardaginn og af hverju? „Mér fannst annar bardaginn, gegn Ítalanum mjög erfiður. Hann var sterkur og sveiflaði höndunum eins og hann væri að taka skriðsund og ég fann mig ekki alveg í þeim bardaga. Ég var með fókusinn mikið á að ég þyrfti að taka tvo bardaga þann dag þannig að ég átti erfitt með að finna mig. Einnig var ég með áhyggjur af því að mæta einum Íra frá John Kavanagh í næsta bardaga. Hann var svo lítill og væskislegur og ungur og mig langaði bara ekki að lenda á móti honum. Mig langaði ekki að meiða hann. Það var eitthvað í hausnum á mér að flækjast fyrir.“

„Í fimmta bardaganum var ég auðvitað orðinn mjög þreyttur. Líkaminn var hættur að hlýða öllum skipunum, var svolítið mikið eftir á í upphitun. Líkaminn var tregur til og sprengikrafturinn var farinn og ég fann hvað ég var svakalega þreyttur.“

Þó allir íslensku keppendurnir hafi komið úr Mjölni voru þau þarna til að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópumótinu. Bjarki hefur áður talað um hve mikið hann hefur langað til að keppa fyrir hönd Íslands og hafði þetta hvetjandi áhrif á hann þegar hann var orðinn þreyttur.

„Þjóðarstoltið hjálpaði mér gríðarlega, ég elska Ísland og stuðningurinn sem ég fékk var geðveikur. Eftir hvern bardaga kíkti ég á Facebook og þar voru allir að hvetja mig áfram og ég bara klökknaði í hvert einasta skipti sem ég sá þetta. Síðan var ég með möntru í hausnum á mér, pain is temporary, glory is forever! Það var það sem ég mantraði, án djóks! Þetta var farið að verða erfitt þegar komið var að þriðja bardaganum. Þá er hætt við að maður geti orðið neikvæður og vildi ég passa mig á því. Ég sagði því bara við sjálfan mig ‘þetta er fyrsti bardaginn’ fyrir hvern bardaga.“

Þegar Bjarki fékk gullverðlaunin afhend var íslenski fáninn á skjánum og þjóðsöngurinn spilaður. Það hlítur að hafa kitlað þjóðarstoltið hjá Bjarka? „Jú algjörlega, það munaði litlu að ég hefði bara farið að hágráta. Ég var svo þakklátur og að heyra þjóðsönginn og með fánann, þetta var eitt besta augnablik lífs míns.“

Þessi lýsing Bjarka ætti ekki að koma á óvart enda var hann þarna að upplifa gamlan draum – drauminn um að keppa og vinna fyrir Íslands hönd. „Það er nefnilega svo skrítið að þegar ég var í kraftlyftingunum sá ég alltaf fyrir mér að ég myndi fara út að keppa fyrir hönd Íslands. Að fara út, vera í flugvélinni í keppnisgallanum merktur Íslandi, með íslenska fánann, ég var alltaf með þessa sýn í hausnum. Svo þegar þetta gerðist núna þá rifjaðist þetta upp fyrir mér, ‘vá þetta er bara akkúrat það sem mig langaði að gera’ hugsaði ég og það var bara geðveikt!“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Bjarki á Íslandsmeistaratitil í kraftlyftingum sem hann keppti í áður en hann byrjaði í MMA. Bjarki er frábær íþróttamaður í dag en það var ekki alltaf þannig hjá Bjarka. „Ég æfði hokkí sem krakki og var það eina íþróttin sem ég festist eitthvað í. En ég var aldrei góður íþróttamaður þannig séð. Ég var minnstur í mínum flokki, átti erfitt með þol og var bara lélegur íþróttamaður sem krakki. Það var ekki fyrr en ég varð svona 17 ára þá einhvern veginn varð líkaminn minn meira tilbúinn til að stunda íþróttir.“

Bjarki lifir afar heilbrigðu lífi í dag. Hann drekkur ekki áfengi, borðar hollan mat og hugsar auðvitað vel um hug og skrokk. Bjarki á sér þó fortíð sem er ansi ólík núverandi lífi. „Ég var bara í algjöru rugli. Ég drakk hverja einustu helgi og í algjöru rugli. Ég hafði enga stefnu í lífinu og upplifði alltaf sömu vikuna aftur og aftur og aftur. Ég var annað hvort að jafna mig eftir fyllerí eða að fara á næsta fyllerí og svona gekk þetta bara. Áður en ég byrjaði í MMA var ég reyndar búinn að ákvað að hætta að drekka.“

„Mér bauðst að taka fría tíma í Mjölni og á þeim tíma hafði ég ekkert að gera og langaði að prófa. Ég kíkti bara upp á flippið í Mjölni og fann þessa glímu og þetta var bara ógeðslega skemmtilegt. Gunni [Gunnar Nelson] var að kenna og ég gat ekki hætt að hugsa um glímuna. Eftir þessa tíma hitti ég síðan Gunna á skemmtistað þar sem ég var að vinna og spurði hann hvernig ég gæti byrjað í MMA. Hann sagði mér frá Mjölni 101 en það var fyrsta grunnnámskeiðið og ég skellti mér strax á það. Þetta var í september 2010 og ég byrjaði bara strax að æfa sem atvinnumaður. Ég vissi bara strax að mig langaði að gera þetta.“

Þetta hefur verið mikið gæfuspor fyrir Bjarka enda snýst lífið hans að miklu leiti í kringum íþróttina í dag. Hann er með einkaþjálfun og býr sig undir að keppa sem atvinnumaður á næsta ári.

Sigurinn í Birmingham er nokkuð sem Bjarki á eftir að muna eftir alla ævi. Að hans sögn er þetta það besta sem hann hefur afrekað á ævinni.

„Ég myndi segja að þetta sé það besta sem ég hef afrekað. Frá 2013 hef ég gengið í gegnum ótrúlega erfiða tíma. Ég missti vin minn í bílslysi 2013 og á sama tíma komu erfiðleikar í fjölskyldunni minni. Ég fékk vægt taugaáfall og byrjaði að fá kvíðaköst og greindist ég með kvíðaröskun. Ég hélt að það hefði eyðilagt ferilinn, að ég gæti ekki barist aftur því ég væri svo veikur andlega, af því ég var svo kvíðinn. Eftir að hafa farið í gegnum þetta mót, fimm bardaga á fjórum dögum, veit ég að þessir erfiðleikar hafa ekki gert neitt nema að styrkja mig. Mér líður bara ótrúlega vel með að hafa unnið þetta, það er bara geðveikt. Ég er ótrúlega stoltur af því.“

Það er óhætt að segja að Bjarki sé með gríðarlega sterkan hug enda afar andlega erfitt að fara í gegnum svona þolraun. Íþróttamenn bera oft ekki með sér andlega erfiðleika en sannleikurinn er sá að hver hefur sinn djöful að draga.

Það verður spennandi að fylgjast með Bjarka á næsta ári þegar hann mun taka sína fyrstu atvinnumannabardaga. Við þökkum Bjarka kærlega fyrir þetta viðtal og hlökkum til að sjá meira af honum á næsta ári.

Sjá einnig:

Bjarki Ómarsson: Langar strax aftur út að keppa

Sunna Rannveig: Óraunverulegt að standa á verðlaunapallinum 

Pétur Jóhannes: Er að þessu til að skora á sjálfan mig

Hrólfur Ólafsson: Get gert svo mikið betur

Inga Birna: Var kannski aðeins of kurteis í bardaganum

Egill Øydvin Hjördísarson: Tapið veitir mér innblástur til að bæta mig

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular