0

Bjarki Ómarsson: Langar strax aftur út að keppa

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Bjarki Ómarsson var einn af Íslendingunum átta sem kepptu á Evrópumótinu um nýliðna helgi. Þar vann hann tvo bardaga og tapaði einum. Við heyrðum í honum eftir að hann kom heim og spjölluðum um bardagana, mótið og það sem framundan er.

Á næstu dögum munum við birta viðtöl við alla keppendurna og er Bjarki Ómarsson fyrstur.

Bjarki Ómarsson er tvítugur að aldri og keppti í léttvigtinni á mótinu þar sem hann barðist þrjá bardaga á tveimur dögum. „Að berjast þrjá bardaga var gríðarlega erfitt andlega og líkamlega. Yfirleitt hefur mig langað að taka langa pásu eftir bardaga og æfa í rólegheitum en núna langar mig strax aftur út að keppa. Það er svona ákveðinn drifkraftur í mér sem ég er búinn að vera að leitast eftir síðan ég byrjaði að keppa og finn að hann er að koma fyrst núna,“ segir Bjarki.

Á föstudeginum keppti hann tvo bardaga og segir hann það hafa verið erfitt að koma sér í gírinn fyrir seinni bardagann. „Já það var dálítið erfitt að peppa sig fyrir seinni bardaga dagsins. Ég var mjög þreyttur í líkamanum.“

Eftir mótið hefur Bjarki keppt hátt í tíu bardaga í MMA. Í hans öðrum bardaga á mótinu sigraði Bjarki með tæknilegu rothöggi en það var í fyrsta sinn sem Bjarki sigrar með rothöggi. „Það var geðveikt að vinna með rothöggi. Áður en ég fór út vildi ég klára alla bardagana mína þar sem ég hef yfirleitt verið að vinna á stigum hingað til. Ég hafði aldrei unnið með rothöggi áður og það var alltaf stærsta markmiðið að klára mann með höggum. Ég var ekki viss hvort ég gæti það en núna veit ég að ég get það og mun gera það meira í framtíðinni.“

Að keppa á svona móti er gríðarleg reynsla fyrir unga keppnismenn og kemur Bjarki heim reynslunni ríkari. „Mér fannst ég læra svo ótrúlega mikið. Ég vildi hafa flesta bardagana standandi til að fá sem mesta reynslu standandi og ég fékk það. Það er mjög auðvelt að panicka standandi í bardaga þó maður sé striker. Ég fékk mikla reynslu úr þessu og svo sá ég hvar ég stend í mínum flokki í Evrópu. Ég sá það að ég er að fara verða bestur í heiminum, ég er bara 20 ára og fannst ég vera meðal þriggja bestu í mínum flokki,“ segir Bjarki. Þess má geta að fyrsti andstæðingur Bjarka var 15 árum eldri en hann.

„Núna ætla ég að vinna í glímunni mjög mikið og glíma tvisvar á dag. Ég ætla líka að lyfta mikið og styrkja mig líkamlega og styrkja mig andlega ennþá meira eftir þetta mót.“

Bjarki tapaði í 8-manna úrslitum í sínum flokki eftir dómaraákvörðun í frábærum bardaga gegn Norðmanninum Geir Kare Cemsoylu. En vissi Bjarki að hann væri að fara að tapa áður en dómaraákvörðunin var lesin? „Já mig grunaði að ég væri búinn að tapa. Ég var samt búin að sjá nokkur fáranleg úrslit þarna og það gaf mér smá von. Það hefði samt verið ósanngjarnt hefði ég fengið sigurinn dæmdan mér í vil ef ég á að segja eins og er.“

Bjarki var með „armbar“ á Norðmanninn í lokin á þriðju lotu og var olnbogi Norðmannsins yfirspenntur. „Ég var með armbarinn mjög djúpt og ég skil ekki ennþá hvernig hann slapp. Mér verður flökurt að hugsa um þetta því það munaði svo litlu.“

„Framundan hjá mér er smá hvíld í desember þar sem ég ætla bara að glíma og stunda jóga. Svo mun ég taka 1-2 áhugamannabardaga og fara svo í atvinnumennskuna,“ segir Bjarki að lokum.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.