Saturday, April 20, 2024
HomeErlentPétur Jóhannes: Er að þessu til að skora á sjálfan mig

Pétur Jóhannes: Er að þessu til að skora á sjálfan mig

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Pétur Jóhannes Óskarsson hafnaði í 3. sæti á Evrópumótinu í MMA á dögunum. Þetta var frumraun hans í MMA og segir hinn 35 ára Pétur að hann sé í besta formi lífs síns.

Evrópumótið fór fram í Birmingham á dögunum og kepptu átta Íslendingar á mótinu. Pétur keppti tvo bardaga á mótinu þar sem hann sigraði einn en tapaði þeim seinni.

Eins og áður segir var þetta frumraun hans í MMA og er skrokkurinn í góðu lagi eftir þessa ómetanlegu reynslu. „Mér líður mjög vel eftir mótið – það að æfa MMA og svo að keppa eru tveir mjög ólíkir hlutir. Þannig að þessi reynsla er ómetanleg. Ég er alveg meiðslalaus eftir keppnina, bara svolítið aumur í lærinu eftir þetta eina lowkick sem Svíinn gaf mér. Ekkert sem að jafnar sig ekki fljótt,“ segir Pétur

Pétur sigraði Búlgarann Yordan Ivanov frá Búlgaríu í fyrstu lotu en hvernig var tilfinningin að vinna sinn fyrsta bardaga? „Tilfinningin að vinna er ólýsanleg – það að fá staðfestingu á því að maður geti þetta var frábært. Og svo er þetta eitthvað svo primal, að sigra einhvern í svona viðureign. Höfðar mjög til frummannsins í manni.“

Að sama skapi þurfti Pétur að sætta sig við tap gegn Irman Smajic frá Svíþjóð eftir „guillotine“ hengingu í fyrstu lotu. Pétur tók þó tapið alls ekki inn á sig. „Ég var alls ekki ósáttur við að tapa fyrir Irman, hann er ágætis striker og ég átti erfitt með að finna opnun hjá honum. Ég ákvað því bara að hjóla í hann og náði honum niður eftir smá tíma. Þegar hann stóð svo upp hefði ég átt að losa takið sem hann var með á mér en í æsingnum þá bara gerði ég það ekki og því fór sem fór. Þetta var mín fyrsta ferð og því var reynsluleysið svolítið að há mér. En þegar upp er staðið var ég mjög sáttur við frammistöðuna og árangurinn.“

Pétur er stór maður, tæpir tveir metrar á hæð og um 110 kg. Þungavigtin í UFC í dag er afar þunnskipuð og er skortur á nýju blóði. En er Pétur að horfa svo langt? „Ég held ég myndi nú seint teljast ‘nýtt blóð’. Ég er 35 ára og á því ekki mörg ár eftir í þessum bransa, þannig séð. Það er ekki markmið hjá mér að ná í UFC heldur er ég að þessu til að skora á sjálfan mig. Og ekki skemmir fyrir að ég er í besta formi lífs míns um þessar mundir. En það er satt að endurnýjunin í þungavigtinni er hæg og oft eru það ‘eldri’ gaurar sem koma inn og endast lengi.“ Sjálfur er Pétur ekki mikið MMA nörd en reynir sitt besta til að fylgjast með.

Pétur sigraði bardagann sinn með uppgjafartaki og segir hann það henta sér betur en að rota andstæðinga sína. „Það væri geðveikt kúl að rota einhvern einhvern tímann. Ég er samt bara svo lítið fyrir það að meiða fólk þannig að það hentar mér betur, svona andlega, að ná uppgjafartakinu.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Liðsfélagi Péturs í Keppnisliði Mjölnis, Gunnar Nelson, mætir Demian Maia á UFC 194 í desember. Hvernig sér Pétur fyrir sér bardaga Gunnars gegn Maia? „Ég held að Gunnar halda bardaganum standandi og mýki Maia upp með höggum í fyrstu lotu, tekur hann svo niður í annarri og subbar hann með armbar.“

Að mati Péturs er Gunnar frábær ímynd MMA á Íslandi og frábær fyrirmynd. „Það skiptir öllu máli að hafa Gunnar sem fyrirmynd. Hann er búinn að kenna mér mjög margt, bæði beint þegar við höfum verið að eigast við og óbeint. Og þetta er bara það sem snýr að mér persónulega. Sem fulltrúi MMA á Íslandi þá er hann einstakur og framkoma hans og hugarfar hefur, að ég held, haft mjög margt að segja um hversu vel þessu sporti hefur verið tekið hérna heima. Ef hann væri æstur og brúkaði munn í tíma og ótíma (eins og margir gera) þá held ég að sportið hefði á sér mun neikvæðari stimpil en það hefur.“

Undir lokin er rétt að spyrja hver væri óskamótherji Péturs ef hann fengi tækifæri á að berjast við hvern sem er í þungavigtinni eftir góðan undirbúning. Pétur var ekki lengi að svara. „Ég myndi að sjálfsögðu velja titilhafann Fabricio Werdum! Hvers vegna? Hann er líklegast erfiðastur við að eiga og maður lærir lang hraðast að synda í djúpu lauginni,“ segir Pétur Jóhannes að lokum.

Sjá einnig:

Sunna Rannveig: Óraunverulegt að standa á verðlaunapallinum 

Bjarki Ómarsson: Langar strax aftur út að keppa

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular