Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Lewis vs. Hunt

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Lewis vs. Hunt

Mynd: Simon Watts-USA TODAY Sports

UFC heimsótti Nýja-Sjáland um síðustu helgi þar sem Mark Hunt bar sigur úr býtum gegn Derrick Lewis. Hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir bardagakvöldið.

Mark Hunt sigraði Derrick Lewis með tæknilegu rothöggi í 4. lotu. Hunt gerði einkar vel í að stjórna búrinu og neyddist Lewis til að bakka mest allan tímann. Þetta var kannski ekki klassískt „walk off KO“ eins og Mark Hunt er þekktur fyrir en engu að síður enn einn sigurinn hjá honum eftir rothögg. Þar með stöðvaði hann lengstu sigurgönguna í þungavigtinni í dag og getur verið sáttur með sigurinn á heimavelli.

Hinn 43 ára Hunt skiptir ennþá máli í þungavigtinni en óvíst er hvert framhaldið hjá honum verður. Hann er sem stendur að lögsækja UFC og gagnrýnir sífellt hve margir í þungavigtinni séu á sterum. Það var því nokkuð þægilegt fyrir hann að ná í sigur eftir tvö töp í röð.

Francis Ngannou gæti verið hans næsti andstæðingur en reyndar er talið líklegt að hann mæti Junior dos Santos næst. Hunt hefur ekki ennþá mætt Andrei Arlovski á löngum ferlinum og gæti það verið áhugaverð viðureign takist Arlovski að vinna Marcin Tybura nú um helgina.

Derrick Lewis sagðist eftir bardagann vera hættur í MMA. Hinn 32 ára Lewis sagðist ekki geta lagt þetta á fjölskylduna lengur enda ferlið sem fylgir því að keppa í MMA ekki beint fjölskylduvænt. Ekki getum við þó útilokað það að Lewis snúi aftur. Hann kvartaði undan bakverkjum í bardaganum og gæti viljað snúa aftur eftir góða hvíld og meðferð á meiðslunum. Lewis hefur líka tekið níu bardaga á rúmum tveimur árum þannig það er aldrei að vita hvort það verði annað hljóð í honum eftir smá hvíld.

Derek Brunson sigraði Dan Kelly í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Dan Kelly hefur verið á afar óvæntri sigurgöngu en henni lauk á laugardaginn. Það má segja að maður hafi lengi beðið eftir tapinu en alltaf kom ‘Dad bod’ Dan Kelly á óvart. Brunson komst aftur á sigurbraut eftir tvö töp í röð en þess má geta að síðustu fimm sigrar Brunson hafa allir komið eftir rothögg.

Dan Hooker náði geggjuðu rothöggi gegn Ross Pearson. Fáranlega vel tímasett hné rotaði Pearson en Hooker náði að tímasetja höfuðhreyfingar Pearson afar vel og smellhitti með hnénu. Þetta var fjórað tap Pearson í röð í UFC og líklega höfum við séð hans síðasta bardaga í UFC í bili.

Á heildina litið var bardagakvöldið nokkuð skemmtilegt en allir fimm síðustu bardagarnir enduðu með rothöggi eða uppgjafartaki.

Næsta UFC kvöld er á sjálfan Þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. júní, en þá mætast þær Holly Holm og Bethe Correia í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular