UFC heimsótti Síle um helgina í fyrsta sinn. Kamaru Usman sigraði Demian Maia í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagana.
Kamaru Usman vann sinn áttunda bardaga í röð í UFC með sigrinum á Demian Maia. Bardaginn var þó ekkert sérstaklega skemmtilegur og mun sigurinn ekki auka vinsældir Usman neitt sérstaklega mikið. Usman er að stefna í sama vinsældarflokk og Tyron Woodley enda klárar hann sjaldan bardaga sína þó hann njóti mikilla yfirburða.
Usman vill fá titilbardaga næst en ætli það sé ekki frekar ólíklegt á þessari stundu. Hann hefur vissulega unnið átta bardaga í röð en sigurinn um helgina var hans fyrsti gegn andstæðingi í topp 10 á styrkleikalistanum. Annað hvort Colby Covington eða Rafael dos Anjos mun mæta Woodley þegar meistarinn snýr aftur og þarf Usman að minnsta kosti bíða eftir því. Auk þess hélt hann því fram að hann hefði brotið báðar hendurnar sínar og ef það reynist rétt verður hann frá í nokkra mánuði.
Miðað við stílinn sem Usman býr yfir eru fáir sem krefjast þess að hann fái titilbardaga. Hann er ekki með áhorfendavænan stíl og það skiptir máli í þessari íþrótt. Fáum finnst skemmtilegt að horfa á hann og nýtur hann ekki mikilla vinsælda. Það verða hvergi hávær mótmæli ef Usman fær ekki titilbardaga.
Demian Maia er núna búinn að tapa þremur bardögum í röð, allt gegn andstæðingum með mjög svipaðan stíl. Maia á þrjá bardaga eftir á núverandi samningi sínum og ætlar hann að hætta þegar bardögunum þremur lýkur. Vonandi fær hann ekki fleiri sterka ólympíska glímumenn enda höfum við séð aðeins of mikið af því hingað til. Best væri ef hann myndi bara fá skemmtilega bardaga á síðustu metrunum. Bardagi gegn svartbeltingnum Sergio Moraes væri skemmtilegur.
Tatiana Suarez fór létt með Alexa Grasso í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Suarez er spennandi efni í strávigtinni og virðist eiga erindi í toppinn. Hún er 27 ára gömul og þarf því ekki að flýta sér fyrir stóru nöfnin í strávigtinni en Suarez gæti einn daginn gert atlögu að beltinu.
Dominick Reyes sýndi að hann er alvöru efni eftir að hafa klárað Jared Cannonier í 1. lotu. Þess má geta að Glover Teixeira og Jan Blachowicz tókst ekki að gera slíkt hið sama gegn Cannonier. Reyes gæti verið efniviðurinn í léttþungavigtinni sem þyngdarflokkurinn þarfnast svo óskaplega!
Næsta UFC fer fram á sunnudaginn þegar UFC heimsækir Liverpool í fyrsta sinn.