Friday, March 29, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Ponzinibbio vs. Magny

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Ponzinibbio vs. Magny

Embed from Getty Images

UFC heimsótti Argentínu í fyrsta sinn um síðustu helgi. Santiago Ponzinibbio mætti þá Neil Magny í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Santiago Ponzinibbio átti frábæra frammistöðu í heimalandi sínu á laugardaginn og sigraði Neil Magny í aðalbardaga kvöldsins. Ponzinibbio rotaði Magny í 4. lotu eftir nokkuð einhliða bardaga og átti Ponzinibbio bardagann frá A til Ö. Ponzinibbio var með mjög góða pressu og króaði Magny af upp við búrið ítrekað. Magny átt fá svör við árásum Ponzinibbio fyrir utan nokkur augnablik í byrjun 2. lotu. Hann ógnaði lítið sem ekkert, var aldrei nálægt því að taka bardagann í gólfið og náði engri „clinch“ stjórn. Miðað við frammistöðuna er erfitt að sjá hvað planið hjá Magny hafi verið. Hvað sem planið var þá tókst Ponzinibbio gjörsamlega að núlla út allar árásir Magny.

Ponzinibbio er gríðarlega óvinsæll á Íslandi og þó víðar væri leitað eftir augnpotin sín gegn Gunnari Nelson og svo Mike Perry. Það verður samt ekki tekið af honum að hann átti frábæra frammistöðu á laugardaginn og er að stimpla sig vel inn í veltivigtina. Ponzinibbio er með sjö sigra í röð og hefur unnið níu af 11 bardögum sínum í UFC en þar af eru fimm eftir rothögg. Ponzinibbio óskaði eftir titilbardaga eftir sigurinn en þrátt fyrir gott gengi er hann ekki nógu framarlega í röðinni. Meistarinn Tyron Woodley sagði honum einfaldlega að taka númer og fara í röð enda eru þeir Colby Covington, Kamaru Usman og sennilega Ben Askren á undan honum í röðinni. Ponzinibbio hafði engan áhuga á að mæta Darren Till og sagði hann vera ófaglegan sem nær ekki tilsettri þyngd. Hann var hins vegar til í að mæta sigurvegaranum úr viðureign Usman og Rafael dos Anjos.

Eins og áður segir átti Neil Magny ekki mikinn séns gegn Ponzinibbio. Magny át mörg þung lágspörk og átti í erfiðleikum með að standa í 4. lotu. Þegar menn eiga erfitt með að standa eins og í tilviki Magny er erfitt að sjá hvernig svona menn eiga að fara að því að vinna bardaga. Hornið hefði því alveg getað kastað inn handklæðinu og komið í veg fyrir að Magny myndi vera rotaður en þetta er MMA þar sem hornamenn kasta handklæðinu alltof sjaldan. Það var komið í 4. lotu, Magny aldrei inn í þessum bardaga og hvað þá þegar hann var orðinn einfættur. En Magny hefur sjálfur sagt að hann hafi verið ánægður að hornið skyldi ekki hafa kastað inn handklæðinu. Stundum þarf samt að hafa vit fyrir þessum bardagamönnum og til þess er hornið. Það þarf samt að vera gagnkvæmt traust á milli hornamanna og bardagamanns. Hornið þekkir bardagamanninn mun betur en við áhorfendur gerum og er alltaf hægt að vera vitur eftirá. Ekki kjörstaða til að vera í en hornið er þarna til að taka erfiðar ákvarðanir.

Þetta hefur sennilega verið langt ferðalag frá Argentínu og heim til Denver. Ef Magny fann verki í bardaganum eftir lágspörkin var sársaukinn sennilega tífalt verri daginn eftir. Ekki beint drauma ástand á löngu ferðalagi að vera haltrandi um á flugvelli.

Darren Elkins var loksins kláraður! Ricardo Lamas náði að klára hinn ómannlega harða Darren Elkins með tæknilegu rothöggi í 3. lotu. Elkins var aldrei inn í þeim bardaga en leit út fyrir að vera drullu ósáttur með störf dómarans þegar hann stöðvaði bardagann. Johnny Walker rotaði Khalil Rountree í 1. lotu og sýndi að þetta er nafn sem vert er að taka eftir (og ekki bara þar sem hann heitir eins og viskí).

Dagskrá UFC heldur áfram um næstu helgi þegar UFC mætir til Kína. Þar mætast þeir Francis Ngannou og Curtis Blaydes í aðalbardaga kvöldsins.

Embed from Getty Images

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular