spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Till vs. Masvidal

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Till vs. Masvidal

Mynd: Snorri Björns.

Gunnar Nelson tapaði fyrir Leon Edwards á UFC bardagakvöldinu í London. Bardaginn fór allar þrjár loturnar en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Bardaginn var jafn og nokkuð spennandi. Gunnar byrjaði bardagann vel og náði fellu en Edwards varðist vel. Gunnar náði ekki að tryggja yfirburðarstöðu í gólfinu og náði Edwards sjálfur að taka Gunnar niður.

Önnur lotan var einnig mjög jöfn en þar reyndi Gunnar að taka Edwards niður án árangurs. Fá högg voru að lenda framan af hjá báðum og var Edwards aðallega að ógna með höggum í „clinchinu“. Í lok 2. lotu náði svo Edwards vel tímasettum olnboga úr „clinchinu“ sem vankaði Gunnar og kláraði Edwards lotuna mjög sterkt en Gunnari tókst að lifa af.

Ég verð að viðurkenna en á þessum tímapunkti hélt ég að þetta væri bara búið. Ég óttaðist að Gunnar myndi fara vankaður inn í 3. lotuna og vera endanlega kláraður. En sem betur fer var Gunnar fljótur að jafna sig og kom nokkuð ferskur út í síðustu lotuna. Hann náði svo aftur fellu í 3. lotu þegar mínúta var eftir og komst í „mount“ en því miður var of lítið eftir. Edwards gerði vel í að lifa af undir Gunnari og passaði sig á að gefa alls ekki á sér bakið. Tíminn rann út og vann Edwards eftir klofna dómaraákvörðun.

Mynd: Snorri Björns.

Þetta var verðskuldaður sigur hjá Edwards og ekki hægt að vera ósáttur við dómaraákvörðunina. Edwards tók klárlega 2. lotu og Gunnar klárlega þá þriðju en dómararnir voru ósammála um 1. lotuna. Edwards var lengur við stjórn í 1. lotunni og kom með nokkur létt högg í Gunnar á meðan Gunnar var bara með sex högg alla lotuna.

Þetta er mjög svekkjandi tap enda átti þetta að vera upphafið að góðri sigurgöngu til að gera alvöru atlögu að toppnum. Aftur er Gunnar að taka skref fram en þarf svo að taka skref til baka. Gunnar er orðinn 30 ára gamall og hefur ekki enn náð þessum topp 10 sigri. Þetta var tækifærið til að ná topp 10 sigri í veltivigtinni og stimpla sig rækilega inn. Það er pínu erfitt að kyngja því að Gunnar hafi ekki náð þessum mikilvæga sigri.

Núna mun Gunnar sennilega þróast í ákveðinn hliðvörð (e. gatekeeper) í veltivigtinni. Hann er ekki stimplaður sem mögulegur áskorandi núna heldur verður hann sennilega prófraun fyrir bardagamenn sem vilja komast hærra. Það er ekkert sérstakur staður til að vera á en það er mjög auðvelt að brjótast úr svona hliðvarðarstöðu með því einfaldlega að vinna. Ef Gunnar vinnur þessa gæja sem eru að reyna að klifra hærra þá mun Gunnar auðvitað klifra sjálfur upp. Það er því enginn dómsdagur þó Gunnar hafi tapað um helgina þó útlitið hefði verið rosalega bjart með sigri.

Það má þó taka ýmislegt jákvætt úr þessum bardaga. Gunnar hefur undanfarið hálft ár verið í styrktar- og þrekþjálfun hjá Unnari Helgasyni og er það klárlega að virka þar sem hann var nokkuð ferskur í 3. lotu þrátt fyrir að hafa verið vankaður í 2. lotu. Þær æfingar eru klárlega að skila sér og er það gott fyrir Gunnar að vita að hann getur farið þrjár lotur á fullu gasi gegn erfiðum andstæðingi. Það var kannski eitthvað sem maður efaðist um hér áður fyrr en ekki lengur. Gunnar hefði sennilega getað farið tvær lotur í viðbót sem eru frábærar fréttir.

Það „góða“ við þetta tap er að Gunnar getur lært eitthvað af þessu en það sama var ekki hægt að segja um síðasta tap. Gunnar hefði átt að vera aggressívari og sækja meira standandi enda var Edwards sjálfur að sækja lítið. Þá vantaði kannski dálítið upp á fjölbreytnina standandi en Gunnar stökk í „clinchið“ yfirleitt bara með beina hægri og kom með nokkur spörk. Gunnar er með fínt vopnabúr standandi en hann sýndi að mínu mati of fá vopn standandi til að ógna Edwards. Það er hægt að læra af því.

Einn af veikleikum Gunnars er hve lítið hann gerir stundum standandi. Hann er oft með fá högg standandi en þau eru yfirleitt svo nákvæm og hröð að þegar þau hitta þá gera þau skaða. Það hefur því sjaldan komið að sök þessi skortur á höggum en þarna vantaði aðeins meira frá Gunnari.

Mynd: Snorri Björns.

Horfandi á frammistöðuna er erfitt að sjá Gunnar í dag eiga erindi í Tyron Woodley, Colby Covington og Kamaru Usman – allt bardagamenn á topp 5 í veltivigtinni. Leon Edwards er frábær bardagamaður en ég bjóst ekki við að Edwards myndi taka Gunnar niður og ná að hanga á honum í svo langan tíma eins og hann gerði í 1. lotu. Edwards var aldrei nálægt því að klára bardagann úr stöðunni eða gera mikinn skaða, en hann var að stjórna Gunnari og það er alltaf það sem maður hefur óttast að myndi gerast ef Gunnar myndi mæta fyrrgreindum mönnum. Það var svekkjandi að sjá Edwards ná að vinna 1. lotuna með því að stjórna Gunnari.

Þrátt fyrir úrslitin held ég að Gunnar sé betri bardagamaður en Leon Edwards, mér finnst það bara og kannski er ég fáranlega hlutdrægur að segja það. Þess vegna er svo svekkjandi að sjá þetta tap.

Mynd: Snorri Björns.

Það voru margir Íslendingar reiðir þegar fréttir bárust af því að John Kavanagh kæmist ekki í tæka tíð og myndi missa af bardaganum hjá Gunnari. Það var leiðinlegt að sjá ekki John ná að koma og vera í horninu en persónulega held ég að það hafi ekki skipt neinu höfuðmáli í þessu tilviki.

Hornið var að kalla á Gunnar og gefa honum ráð en hann var ekki að bregðast við því eins og mátti sjá eftir 1. lotuna og í 3. lotu í sjónvarpsútsendingunni. Kannski er það ósanngjarnt að grípa í tvö tilvik yfir 15 mínútna bardaga en mér fannst hornið hjá Gunnari koma með frábæra punkta þegar maður fékk tækifæri til að heyra í þeim en svo vantaði svörin frá Gunnari.

Það má samt setja spurningamerki við hvers vegna John ákvað að hafa þetta svona tæpt og koma bara á sjálfum laugardeginum þegar bardagakvöldið var þegar byrjað. John var við hornastörf með bardagamanni sínum, Cian Cowley, á Filippseyjum. Þar var Cowley að keppa á Brave CF 22 á föstudagskvöldinu hinu megin á hnettinum. Með fullri virðingu fyrir Cowley þá var bardagi Gunnars mun stærri og þýðingarmeiri.

Maður hefði haldið að yfirþjálfari myndi mæta fyrr í vikunni til að vera til staðar hjá nemanda sínum til 15 ára. Reyndar hefur samband John og Gunnars alltaf verið líkara vinasambandi heldur en sambandi þjálfara og nemanda. Auk þess var Gunnar með góða menn með sér, þjálfarana Matthew Miller og Luka Jelcic, sem John treystir og auðvitað pabba sinn. Persónulega held ég að leiðbeiningar frá John hefðu ekki breytt miklu miðað við mennina sem voru í horninu en kannski hefði röddin sem Gunnar hefur heyrt í 15 ár getað breytt einhverju.

Líkt og eftir hvert einasta tap hjá Gunnari þá fara fara menn að spá í því hvort Gunnar eigi ekki að skipta um lið og bara breyta öllu. Það hafa margir breytt til og skipt um lið með góðum árangri en líka margir skipt um lið og ekki náð betri árangri. Það veltur allt á bardagamanninum sjálfum og hvað hann vill gera. Bardagamaðurinn verður að finna þetta hjá sjálfum sér að gera breytingu.

Hversu margir ætli hafi stungið upp á því við Gunnar að hann myndi fá þrek- og styrktarþjálfara? Það vantaði ekki upp á tillögur að ýmsum þjálfurum í gegnum árin en Gunnar þurfti að finna það hjá sjálfum sér til að byrja að gera þessar æfingar. Kannski telur Gunnar að hann geti farið eins langt og hann getur með því að vera áfram á Íslandi með John Kavanagh sem sinn yfirþjálfara. Kannski er hann bara mjög sáttur með hvernig æfingarnar eru að fara og telur sig ekki þurfa að breyta miklu.

Sem dæmi má nefna Marc Diakiese sem vann Joseph Duffy um helgina. Diakiese vann fyrstu þrjá bardaga sína í UFC og leit vel út en ákvað að skipta um lið og æfa í einum stærsta bardagaklúbbi heims, American Top Team í Flórída. Eftir að hann gerði það tapaði hann þremur bardögum í röð og var á barmi þess að vera rekinn úr UFC. Fyrir bardaga hans um helgina æfði hann bara heima á Englandi eins og hann hafði gert fyrir sína fyrstu þrjá bardaga í UFC og náði frábærum sigri. Æfingarnar hjá American Top Team hafa örugglega ekki verið hræðilegar en miðað við frammistöðuna hentar það Diakiese betur að æfa á Englandi. Diakiese segist ekki vera búinn að loka dyrunum á ATT en vill frekar hafa lið í kringum sig á Englandi fyrir bardaga sína. Það hentar honum betur og sást það á laugardaginn með frammistöðu hans.

Persónulega held ég að Gunnar þurfi ekki að gera miklar breytingar. Það sem ég væri helst til í að sjá væri að hann myndi fara í 2-3 vikur erlendis af og til á nýja staði til að æfa með nýjum skrokkum. Það hafa allir gaman af því og gagn. Auk þess væri gaman að sjá fleiri bardagamenn í UFC-klassa koma hingað til að æfa með Gunnari – sérstaklega fyrir bardaga. Það myndi hjálpa Gunnari upp á að fá nýja æfingafélaga með nýjar áskoranir og bæta einhverju við vopnabúrið jafnvel. Allt eru þetta þó bara vangaveltur sófasérfræðings sem hefur eytt núll sekúndum í búrinu í alvöru bardaga.

Burtséð frá öllu má ekki gleyma því að Gunnar er á topp 15 í UFC í einum erfiðasta flokknum. Það er magnaður árangur sem má ekki gleymast þó við vonumst auðvitað til að sjá hann klífa hærra upp. Þetta er ekki búið enn, bardaginn var jafn og vantaði ekki mikið upp á að Gunnar myndi ná flottum sigri.

Mynd: Snorri Björns.

Í aðalbardaga kvöldsins sáum við svo Jorge Masvidal rota Darren Till. Þetta tap var áfall fyrir Till enda er núna búið að klára hann tvisvar í röð. Þetta var líka ógnvekjandi rothögg þar sem Till lá á gólfinu í dágóðan tíma eftir rothöggið.

Það er spurning hver næstu skref Till verða. Tapið gegn Woodley sveið sárt en þetta verður örugglega ennþá verra fyrir hann. Till sagði fyrir helgina að hann myndi sennilega aldrei komast yfir tapið gegn Woodley og spurning hvernig hann mun höndla þetta tap. Till er þó ennþá tiltölulega ungur en kannski var þetta allt, titilbardaginn og hæpið, of snemmt fyrir hann.

Jorge Masvidal náði síðan í sinn stærsta sigur á ferlinum. Frábær sigur hjá honum og kannski er þetta það sem hann getur gert ef hann setur allt í þetta í stað þess að taka fótinn af bensíngjöfinni eins og hann gerir svo oft.

Slagsmálin hans og Leon Edwards voru síðan hálf fáránleg. Ummæli Masvidal eftir atvikið voru áhugaverð: „Ég labba að honum með hendur fyrir aftan bakk til marks um að ég vilji engin vandræði en hann setur hendurnar upp og labbar að mér. Á mínum heimaslóðum ertu að fara að kýla mig ef þú gerir það og það var ekki að fara að gerast. Þannig að ég gaf honum þrjú góð högg og kom mér út.“

Það er einfaldlega ekki rétt en Masvidal byrjaði að kýla áður en Edwards setti hendurnar upp. Þeir voru þó heppnir að þetta skyldi hafa gerst í London en ekki Nevada því ef þetta hefði gerst í Bandaríkjunum ættu þeir von á nokkurra mánaða banni. Þar sem UFC sér sjálft um regluverkið í kringum bardaga á Englandi mun UFC ákveða refsingu. Einhvern veginn efast ég um að refsingin verði þung þó Dana White hafi verið steinhissa á þessu.

Svekkjandi helgi fyrir okkur Íslendinga en það kemur bardagi eftir þennan. Næstu helgi mun svo Stephen Thompson mæta Anthony Pettis í aðalbardaga kvöldsins þegar UFC heimsækir Nashville.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular