spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC: Glasgow

Mánudagshugleiðingar eftir UFC: Glasgow

bispingUm helgina fór fram enn eitt bardagakvöldið í UFC á undanförnum dögum. Að þessu sinni fóru bardagarnir fram í Skotlandi en þetta var fyrsta heimsókn UFC til landsins.

Bardagakvöldið í Skotlandi var fjórða UFC bardagakvöldið á einni viku. UFC 189 fór fram laugardaginn 11. júlí, daginn eftir fór TUF Finale fram, 15. júlí fór fram bardagakvöld í San Diego og laugardaginn 18. júlí fór bardagakvöldið í Skotlandi fram. Samtals fóru 46 bardagar fram í UFC á einni viku.

Bardagakvöldið í Skotlandi reyndist góð skemmtun. Michael Bisping og Thales Leitest mættust í hörku fimm lotu bardaga í aðalbardaga kvöldsins. Bisping sigraði eftir klofna dómaraákvörðun og uppskar skemmtileg támeiðsli í bardaganum. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2011 sem Bisping tekst að sigra tvo bardaga í röð. Hann ætlar enn einu sinni að reyna að ná titilbardaga í millivigtinni en þetta var 24. bardagi hans í UFC. Hann er orðinn 36 ára gamall og efast margir um að hann geti náð markmiðum sínum.

Á blaðamannafundinum eftir bardagann óskaði hann eftir bardaga gegn TRT-flónunum Dan Henderson og Vitor Belfort. Bisping hefur áður tapað gegn þeim báðum en báðir hafa verið á TRT (Testosterone Replacement Therapy). Nú er TRT-meðferðin bönnuð og vill Bisping fá annan séns gegn þeim. Það gæti verið gaman að sjá Bisping mæta TRT-lausum Vitor Belfort í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Dublin. Gunnar Nelson gæti þá mætt Stephen Thompson í næstsíðasta bardaga kvöldsins (e. co-main event).

Írinn Joseph Duffy sýndi aftur frábæra frammistöðu í UFC en hann hefur nú sigrað báða sína bardaga í UFC í fyrstu lotu. Á laugardaginn sigraði hann Ivan Jorge með „triangle“ hengingu eftir rúmar þrjár mínútur af bardaganum. Duffy er síðasti maðurinn til að sigra Conor McGregor og eru margir spenntir fyrir Duffy. Það gæti þó verið löng bið eftir öðrum bardaga gegn McGregor enda er McGregor orðin ein stærsta stjarnan í UFC í dag. Auk þess er Duffy í léttvigt og mun vera þar áfram. Kannski munu þeir mætast þegar McGregor fer upp í léttvigt en til þess þarf Duffy að sigra fleiri bardaga.

Heimamönnum (og konu) gekk vel á laugardaginn. Skotarnir Stevie Ray, Robert Whiteford og Joanne Calderwood sigruðu öll sína bardaga. Ray og Whiteford kláruðu sína bardaga með rothöggi í fyrstu en Calderwood sigraði eftir dómaraákvörðun. Calderwood lenti í basli í fyrstu lotu en náði að snúa taflinu sér í vil.

Calderwood hefur í tvígang dvalið hér á landi við æfingar en annar Íslandsvinur sigraði á laugardaginn. Paddy Holohan sigraði Vaughan Lee með ágætis yfirburðum. Hann vann seinni tvær loturnar eftir að hafa verið undir meiri hlutann af fyrstu lotu. Það má búast við að Holohan berjist næst á bardagakvöldinu í Dublin í október en hann er nú 3-1 í UFC.

Næsta bardagakvöld UFC fer fram á laugardaginn. Þá mætast þeir TJ Dillashaw og Renan Barao í aðalbardaganum á UFC on Fox 16 bardagakvöldinu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular