spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC Glasgow

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Glasgow

Gunnar Nelson tapaði í aðalbardaga kvöldsins í Skotlandi á sunnudagskvöldið. Þetta var í fyrsta sinn sem hann hefur verið kláraður með höggum á ferlinum en hér eru Mánudagshugleiðingarnar örlítið seinna en vanalega eftir bardagann.

Hlutirnir breytast fljótt í íþróttum. Eina stundina ertu bara á leiðinni á toppinn en augnabliki síðar tekuru mörg skref til baka með einu tapi. Aftur þarf Gunnar að taka nokkur skref til baka eftir gott gengi.

Gunnar var rotaður eftir aðeins 1:22 í 1. lotu og var gríðarlega sárt að sjá okkar mann vera kláraðan svona. Svona er bara leikurinn gerður og var þetta nokkuð sem maður hefur óttast lengi að myndi einn daginn gerast. Það var óraunverulegt að sjá þetta og ég þurfti að spurja sjálfan mig að því hvort ég hefði raunverulega séð þetta gerast eða hvort ég væri að upplifa martröð. Það var svo óraunverulegt að sjá Gunnar kláraðan svona en á sama tíma óþægilega raunverulegt.

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Það er óhætt að segja að maður hafi verið ansi sorgmæddur í höllinni í Skotlandi. En eftir að hafa séð Gunnar eftir bardagann, séð að hann var í lagi og bara brattur, leið manni strax talsvert betur.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt um potaði Ponzinibbio ansi illa í augu Gunnars í bardaganum. Það hafði sannarlega áhrif á sjón Gunnars en hann gerði líka þau mistök að láta ekki dómarann vita til að gera hlé á bardaganum. Gunnar fann enn fyrir áhrifum augnpotsins á mánudagsmorgni.

Maður hefði viljað sjá dómarann taka eftir þessu og gera hlé. Auðvitað gerist þetta mjög hratt og erfitt að sjá þetta en dómarar verða að fara að taka harðar á þessu. Það er á nánast hverju einasta bardagakvöldi sem einhver fær putta í augað.

Það verður að taka harðar á þessu þegar menn eru með puttana úti. Sumir kenna hönskunum um en sama hverju er um að kenna þarf að gera eitthvað og í nýju reglunum reyna þeir það. Dómarar vara bardagamenn við að vera með opinn lófa og fingurnar úti en það hjálpaði Gunnari ekkert þó nýju reglurnar hafi verið í gildi á sunnudaginn.

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort þetta sé vijandi eða bara óviljaverk enda fer Santiago tvisvar, jafnvel þrisvar, með puttana í augu Gunnars. Án þess að hljóma of hlutdrægur lítur þetta hreint út sagt ekki vel út fyrir Argentínumanninn enda treður hann puttunum að minnsta kosti tvisvar í augun á Gunnari í 82 sekúndna bardaga. Þetta gæti bara verið slæmur vani að setja höndina svona út en það er undarlegt að vera með puttana svona úti þegar verið er að kýla eins og í síðasta potinu.

https://www.youtube.com/watch?v=1BGdjoYPh4Y

Auk þess greip hann grimmt í stuttbuxurnar hjá Gunnari eftir að hann vankaði hann. Það hafði sennilega engin áhrif á bardagann en er ekki að hjálpa málsstað Santiago enda eru þrjú brot á 82 sekúndum ansi mikið. Jon Jones er alltaf að pota í augu andstæðinganna og eru margir á því að það sé ekki óviljaverk.

Við höfum áður séð hvernig pot í augu geta breytt bardögum. Tony Ferguson potaði í auga Rafael dos Anjos er þeir mættust í nóvember í fyrra. Rafael dos Anjos fékk, ólíkt Gunnari, hlé á bardaganum en sagði eftir bardagann að hann hefði verið í vandræðum með að sjá allan bardagann eftir potið. Glover Teixeira fékk líka putta í augað frá Alexander Gustafsson er þeir mættust í maí og hann var einnig í vandræðum með að sjá út bardagann eftir atvikið.

Kannski hefði Ponzinibbio samt náð rothöggi gegn Gunnari þetta kvöld þó Gunnar hefði allan tímann verið með fulla sjón. Við munum aldrei komast að því en maður vill trúa því að Gunnar sé betri bardagaíþróttamaður. Gunnar var of nálægt Ponzinibbio þegar höggið átti sér stað enda var Gunnar ekki að lesa fjarlægðina rétt svona eineygður. Hann vill ekki vera í þessari fjarlægð og taldi sig vera lengra frá Ponzinibbio heldur en hann var.

Það sem er mest svekkjandi við þetta er þegar maður heyrir hversu vel Gunnari leið fyrir bardagann. Æfingabúðirnar gengu frábærlega, hann var í geggjuðu formi og hefur hann aldrei litið eins vel út í upphituninni eins og nú. Þetta byrjaði líka vel hjá Gunnari áður en hann fékk puttann í augað og kom með flotta tveggja högga fléttu sem virtist vanka Ponzinibbio eitthvað. Það sem maður vill helst sjá er endurat. Sjá þá bara mætast aftur og sjá þá Gunnar pakka honum saman. Það er ólíklegt á þessari stundu nema niðurstöðunni verði breytt eftir áfrýjun.

Ef niðurstöðunni verði ekki breytt verður þetta því miður bara tap á ferilskránni. Santiago Ponzinibbio og hans stuðningsmenn munu alltaf kalla þetta bara afsökun og vera hæstánægðir með sigurinn. Það er þó áhugavert að sjá hvernig umræðan hefur breyst á síðustu dögum.

Eins og alltaf þegar bardagamenn gefa hreinskilið svar eftir tap er það kallað afsökun. „Gunnar var bara að afsaka sig, hann á bara að sætta sig við tapið og halda áfram,“ var umræðan í fyrstu eftir bardagann. En eftir að potin (í fleirtölu!) hafa sést betur hefur umræðan gjörbreyst hjá aðdáendum. Þetta eru svo augljós brot og eru aðdáendur frekar að kalla Ponzinibbio svindlara í stað þess að hrósa honum fyrir sigurinn.

Gunnar bar sig samt mjög vel eftir bardagann. Kenndi sjálfum sér um fyrir að hafa ekki látið dómarann vita og hefur ekki sagt neitt slæmt um Ponzinibbio. Gunnar tekur nú nokkur skref til baka eins svekkjandi og það er. Það er enginn uppgjafartónn í honum, þetta er bara smá hraðahindrun á leiðinni hans. Hann vill ennþá fá topp andstæðinga og erfiða bardaga þrátt fyrir þetta. Við getum kvatt Stephen Thompson bardagann í bili en Gunnar mun vinna sig aftur upp.

Gunnar getur tekið sér gott sumarfrí núna áður en hann heldur áfram á sinni leið. Það kemur bardagi eftir þennan.

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular