spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC helgarinnar

Mánudagshugleiðingar eftir UFC helgarinnar

carla eÞað var nóg um að vera um helgina en tvö UFC bardagakvöld fóru fram auk þess sem WSOF hélt stórt bardagakvöld. Junior dos Santos marði sigur á Stipe Miocic og Carla Esparza varð fyrsti strávigtarmeistari UFC.

Á föstudagskvöldið fór fram úrslitakvöld 20. seríu The Ultimate Fighter. Í lokabardaga kvöldsins mættust þær Carla Esparza og Rose Namajunas og stóð Esparza uppi sem sigurvegari. TUF meistarinn er þar með strávigtarmeistari og er strávigtin komin í fullt gang nú þegar seríunni er lokið. Esparza mætir líklegast Joanna Jędrzejczyk næst en Jędrzejczyk sigraði Cláudia Gadelha á laugardagskvöldið og hefur þar með sigrað báða bardaga sína í strávigt UFC. Það verður spennandi að fylgjast með strávigtinni spilast út en Esparza var strávigtarmeistari Invicta áður en TUF serían hófst.

Junior dos Santos sigraði Stipe Miocic eftir fimm lotu stríð en þetta var fyrsti bardagi hans síðan hann tapaði gegn Cain Velasquez í október í fyrra. Bardaginn sýndi ekkert sem benti til þess að dos Santos væri tilbúinn til að takast á við Velasquez aftur. Hann gerði sömu mistökin og gegn Velasquez (að bakka að búrinu) og gerði Miocic vel í að pressa dos Santos. Þegar dos Santos bakkar svona upp að búrinu er hann ekki í stöðu til að koma með þung högg og því er ekki eins mikil ógn af honum. Þetta var fyrsti bardagi dos Santos síðan hann skipti yfir í Nova Uniao eftir að hafa áður verið hjá Team Nogueira. Það var ekki að sjá að breytingin væri að skila miklu fyrir dos Santos og virtist hann vera nákvæmlega sami bardagamaður og áður.

Á undanförnum árum hafa spekingar og aðdáendur talað um að dos Santos og Velasquez séu talsvert betri en restin í þungavigtinni en Stipe Miocic sýndi að svo er ekki. Miocic stóð vel í fyrrum meistaranum og hefði getað sigrað dómaraákvörðunina með smá heppni en dos Santos sigraði eftir einróma dómaraákvörðun þar sem tveir dómarar gáfu dos Santos þrjár lotur á móti tveimur hjá Miocic. Tapið sýnir að Miocic á vel heima ofarlega í þungavigtinni og má segja að orðspor hann hafi stimplað sig inn sem einn af þeim bestu þrátt fyrir tapið.

Rafael dos Anjos gjörsigraði vandræðagemlinginn Nate Diaz eftir dómaraákvörðun. Diaz átti aldrei möguleika í dos Anjos sem sparkaði fætur Diaz sundur og saman. Diaz þarf að hugsa sinn gang en hann hagaði sér ansi kjánalega í síðustu viku. Diaz byrjaði á því að mæta ekki á opnu æfinguna sem fram fór á miðvikudaginn og taldi að hann hefði ekki þurft að mæta. Í vigtuninni var hann tveimur kílóum of þungur og náði því ekki léttvigtartakmarkinu. Í útsendingunni á laugardaginn var sýnt þegar Diaz gekk út úr miðju viðtali og sagðist ekki nenna þessu. Þessi hegðun er engum til framdráttar og þarf Diaz að hugsa sinn gang. Hugsanlega var hann að glíma við meiðsli fyrir bardagann og því lítið getað æft og þar af leiðandi ekki náð vigt.

Á sama tíma og Nate Diaz átti eina af verstu frammistöðum sínum á ferlinum sýndi Rafael dos Anjos að hann er einn af þeim bestu í léttvigtinni. Afar sannfærandi sigur hans á Diaz setur hann í góða stöðu í léttvigtinni. Á blaðamannafundinum eftir bardagana talaði Dana White að dos Anjos gæti fengið næsta titilbardaga gegn Anthony Pettis. Talið var að Khabib Nurmagomedov myndi fá næsta titilbardaga en hann hefur átt við hnémeiðsli að stríða og óvíst hvenær hann verði tilbúin til að berjast á ný.

WSOF hélt einnig stórt bardagakvöld þar sem Palhares sigraði Jon Fitch, við töluðum nánar um það í þessari grein hér.

Næstu helgi fer UFC Fight Night fram í Brasilíu þar sem Lyoto Machida mætir C.B. Dollaway.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular