spot_img
Sunday, December 1, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 10: Henderson vs. Thomson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 10: Henderson vs. Thomson

Henderson

Á laugardaginn fór fram UFC on Fox 10 í Chicago, Bandaríkjunum. Það var enginn titilbardagi á kvöldinu en það fóru fram mikilvægir bardagar sem munu hafa áhrif á þróun nokkurra þyngdaflokka. Aðalbardagi kvöldsins var sérstaklega mikilvægur en tap fyrir Henderson hefði verið rosalegt bakslag á meðan Thomson átti að berjast um titilinn í næsta bardaga með sigri. Það hefði sennilega verið hentugra fyrir UFC ef Thomson hefði sigrað, sérstaklega þar sem Benson hefur tapað tvisvar fyrir ríkjandi meistara. Mögulega var það þeirra von. En eins og sagt er þá eru MMA guðirnir alltaf líklegir til að skemma slík áform ef þeir fá tækifæri til.

Alex Cacares hægir á Pettis eimreiðinni.

Sergio Pettis er einungis tvítugur en er almennt talinn eitt mesta efnið í MMA. Á laugardaginn var fyrsta tap hans hins vegar að veruleika. Eftir fjörugan bardaga  náði Cacares að klára Pettis með „rear naked choke“ í þriðju lotu. Erfitt tap fyrir Pettis en ekkert til að hafa of miklar áhyggjur af.

pettis cacares

Darren Elkins kemst ekki framhjá Jeremy Stephens.

Elkins hefur árum saman verið bardagamaður sem hefur barist á fyrri hluta UFC kvöldanna en fékk hér tækifæri í fyrsta bardaga kvöldsins í sjónvarpsútsendingu Fox gegn stóru nafni. Stephens náði hins vegar að stjórna bardaganum frá A til Ö og sennilega senda Elkins aftur niður í kjallara. Elkins hefur nú tapað fyrir Stephens og Chad Mendes með stuttu millibili. Hann er harður og hæfileikaríkur en sennilega verður hann aldrei meira en „gatekeeper“.

stephens elkins

Stipe Miocic færist upp listann í þungavigt.

Gabriel Gonzaga var á talsverðri siglingu, hafði unnið fimm af síðustu sex bardögum áður en hann mætti Stipe Miocic á laugardagskvöldið. Í fyrstu lotu leit hann vel út, ógnaði með spörkum og fellum en svo sprakk hann. Gonzaga virðist vera einna lotu bardagamaður, þ.e. stórhættulegur í eina lotu en viðráðanlegur í framhaldi. Eins og Joe Rogan kom á í lýsingu sinni þá er Gonzaga sennilega einn af þeim sem hefur það of gott í sínum eigin klúbbi og hefur engan til að ýta sér lengra. Einhvern sem segir honum að taka þessa auka spretti þegar Gonzaga er orðinn þreyttur. Það er einfaldlega ekki nógu gott ef hann ætlar að komst á toppinn. Miocic sýndi hins vegar að hann hefur úthaldið, góða felluvörn og skarpar hendur. Það verður gaman að sjá hversu langt hann kemst á því.

miocic gogp

Cerrone gerir það sem Cerrone gerir best

Donald Cerrone rotaði Adriano Martins með glæsilegu haussparki. Það fannst mörgum skrítið að Martins fengi tækifæri gegn svo stóru nafni en þegar í bardagann var komið sást að hann ætti ekki heima þar enn sem komið er. Cerrone er víst blankur og hann vill berjast strax aftur. Hann gæti hugsanlega fengið Khabib Nurmagomedov sem vantar andstæðing. Það gæti einnig verið gaman að sjá Cerrone mæta Edzon Barboza, sá bardagi yrði algjör sparkveisla!

cerrone ko

Henderson sigrar í klassískum Benson bardaga

Henderson er óumdeildur meistari þess að berjast jafna fimm lotu bardaga. Oftar en ekki enda þeir á klofnum dómaraúrskurði. Oftast vinnur hann en oft er það umdeilt, eins og eðlilegt er með jafna bardaga. Þetta er búið að gerast það oft að maður verður að spyrja sig hvort þessir menn í léttvigt séu allir svona jafnir eða hvort það sé Henderson sem er að jafna út þessa bardaga? Þar sem hinir virðast ekki lenda jafn mikið í þessu, fyrir utan Frankie Edgar sem nú berst í flokknum fyrir neðan, er Henderson samnefnarinn. Hann er með þannig stíl að hann nær oftast að halda yfirhöndinni en getur ekki klárað með sannfærandi hætti. Það er bara Benson.

Bardaginn við Josh Thomson var klassískur Benson bardagi. Thomson leit mjög vel út í byrjun en brotinn þumall á hægri hendi hafði augljóslega mikil áhrif á hann. Henderson virtist vera með yfirhöndina standandi og náði t.d. inn nokkrum skrokkhöggum sem hefðu gert út af við meðal manninn. Það sem kom á óvart var að Thomson náði bakinu á Henderson trekk í trekk en náði hins vegar aldrei að ógna með uppgjafartaki af alvöru. Það er ekki hægt að tala um að niðurstaðan hafi verið rán um hábjartan dag. Thomson hefði getað unnið en svona er íþróttin.

Nú er komið upp ákveðið vandamál í léttvigt, þ.e. varðandi næsta titil áskoranda. Það vill svo til að meistarinn, Anthony Pettis, er frá vegna meiðsla svo það er tími til að finna út úr þessu. Enn er ekkert vitað um endurkomu T.J. Grant, enginn vill berjast við Khabib Nurmagomedov og Nate Diaz neitar að berjast nema að það sé um titil. Það væri ekki vitlaust að láta Khabib berjast við Benson, nú eða Gilbert Melendez til að finna út úr þessu rugli. Sjáum til hvað Joe Silva gerir.

henderson thomson 2

Thomson tók tapinu mjög illa og hefur talað um að hætta í íþróttinni í kjölfarið. Frammistaða hans var hins vegar það góð og síðasti sigur hans á móti Nate Diaz að hann gæti verið kominn aftur á sama stað með einum til tveimur sigrum. Hvernig væri ef hann myndi berjast við Donald Cerrone?

henderson thomson 1

Vert er að fylgjast með í framhaldi:

Sergio Pettis: Já, hann tapaði en hann er ennþá eitt besta efnið í UFC. Hann er mjög ungur og hefur nægan tíma til að laga það sem þarf að laga.

Stipe Miocic: Með einum eða tveimur sigrum í viðbót gæti Stipe fengið tækifæri á að berjast um titilinn. Ekki slæmt fyrir gaurinn sem var rotaður af Stefan Struve í Nottingham hér um árið.

Donald Cerrone: Það er alltaf gaman af Cerrone. Hann segist ætla að berjast sex sinnum á árinu. Hver er ekki til í að sjá það?

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular