Fyrrum bantamvigtarmeistari WSOF, Marlon Moraes, hefur samið við UFC. Moraes mætir Raphael Assuncao á UFC 212 í sumar.
Marlon Moraes (18-4-1) hefur lengi verið sagður besti bantamvigtarmaður heims utan UFC. Nú fær hann tækifæri á að sýna sig meðal þeirra bestu og fær verðugan andstæðing í frumraun sinni. Frá þessu greinir MMA Fighting.
Moraes hefur unnið 13 bardaga í röð og klárað átta þeirra. Samningur hans við World Series of Fighting rann út seint á síðasta ári og hafa samningaviðræður við UFC staðið yfir í dágóðan tíma.
Moraes mætir Raphael Assuncao sem er í 3. sæti á styrkleikalista UFC í bantamvigtinni. Assuncao hefur unnið átta af síðustu níu bardögum sínum í UFC en eina tapið kom gegn T.J. Dillashaw.
Brassarnir mætast á UFC 212 sem fer fram þann 3. júní í Ríó. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Jose Aldo og Max Holloway.