spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMatthew Miller - kanadíski þjálfarinn sem hóf ferilinn með GSP en æfir...

Matthew Miller – kanadíski þjálfarinn sem hóf ferilinn með GSP en æfir nú á Íslandi

Matthew Miller er kanadískur glímumaður sem hefur margoft dvalið hér á landi. Matthew hefur þjálfað menn á borð við Georges St. Pierre, Robert Whittaker og Stephen Thompson og æfir nú mikið með Gunnari Nelson. Hann hreinlega elskar Ísland og fengum við aðeins að kynnast þessum áhugaverða Kanadamanni á dögunum.

Matthew Miller hefur ferðast víða í gegnum glímuna en hann byrjaði að æfa ólympíska glímu heima í Montreal þegar hann var 12 ára gamall. Matthew átti góðan feril í ólympískri glímu en glímuferillinn hefur gefið honum mun meira en einhver verðlaun og medalíur.

„Ég spilaði hokkí af mikilli alvöru sem krakki og eins og hjá flestum kanadískum krökkum var markmiðið að komast í NHL. Þegar foreldrar mínir skildu missti ég hins vegar áhugann. Ég átti vin sem var nokkrum árum eldri en ég og leit ég alltaf upp til hans. Þegar hann byrjaði að æfa ólympíska glímu vildi ég glíma líka. Það virtist vera leiðin fyrir mig til að ná þeim árangri sem ég vildi sem íþróttamaður. Ég hafði takmarkaða möguleika í boði svo ég hélt bara áfram að glíma þangað til mér tókst að gera mér feril úr því,“ segir Matthew.

Matthew var lengi vel glímuþjálfari hjá Tristar í Kanada en þar æfa menn eins og Georges St. Pierre, Rory MacDonald og fleiri. Þar byrjaði hann fyrst að þjálfa MMA bardagamenn og má segja að hann hafi byrjað að þjálfa þá allra bestu.

„GSP [Georges St. Pierre] og fleiri bardagamenn frá Tristar komu til að æfa með okkur í kanadíska glímuliðinu í Montreal. Síðan byrjaði ég að vinna með GSP fyrir nokkra af hans bardögum.“ Georges St. Pierre er einn allra besti bardagamaður allra tíma og var framúrskarandi glímumaður þrátt fyrir að hafa bakgrunn í karate.

Upp frá því hófst ferill Matthew sem glímuþjálfari fyrir MMA. „Ég var grunnskólakennari en var orðinn þreyttur á 9-5 vinnunni. Ég fékk tækifæri á að þjálfa hjá Tristar en Tristar er eins og snúningshurð, menn koma og fara endalaust alls staðar að úr heiminum. Ég byrjaði á að vinna með Tristar og fékk svo tækifæri á að þjálfa í öðrum bardagaklúbbum. Þannig náði ég að byggja upp ákveðið vörumerki og vinna með nokkrum af þeim bestu í heiminum. Ég gerði það samt nátturulega og eðlilega en þannig vil ég hafa það.“

Listinn af bardagamönnum sem hann hefur unnið með er langur. Má þar nefna UFC bardagamennina Stephen Thompson, Robert Whittaker, Jack Hermansson, Nordine Taleb og í rauninni allir sem hafa verið hjá Tristar. Hann ferðast einnig mikið til Englands þar sem hann hefur unnið með Arnold Allen og Tom Breese sem báðir berjast í UFC. Þetta eru fríðindin sem fylgja starfinu að mati Matthew – að ferðast um heiminn og deila dýnunum með skemmtilegu fólki.

Fangageymsla í Bretlandi

Það var hálfgerð tilviljun fyrir því að hann kom til Íslands fyrst enda var hann hér aðeins í sólarhring í fyrstu dvölinni hans á klakanum.

„Ég hitti Gunna [Gunnar Nelson] fyrst á Írlandi 2015. Ég var í horninu hjá nokkrum gaurum sem voru að berjast þar og Ryan Hall var á þeim tíma að æfa hjá SBG í Dublin. Ég ákvað að vera í auka viku í Dublin og þar æfði ég fyrst með Gunna, Conor [McGregor] og Artem [Lobov] og öllum þeim. Við Gunni héldum sambandi og ákváðum að æfa saman aftur einn daginn.“

„Ég átti svo að taka MMA bardaga á Englandi en var meinað að komast inn í landið. Ég átti að fá 30 daga vegabréfsáritun á Englandi svo ég gæti tekið þennan bardaga og fengið greitt fyrir. Af einhverjum ástæðum vildu þeir ekki hleypa mér inn í landið þó þeir hafi talað við bardagasamtökin og vin minn sem setti bardagann saman. Þeir enduðu á að láta mig dvelja í fangageymslu í eina nótt sem var mjög skemmtilegur tími í mínu lífi,“ segir Matthew og hlær.

„Ég þurfti því að fara til Íslands og áður en ég lagði af stað sendi ég Gunna skilaboð og hann sagði mér að koma og æfa. Þannig hófst okkar vinskapur. Ég var fyrst hérna bara í sólarhring en kom svo aftur og var þá í rúma tvo mánuði og hef komið nokkrum sinnum til landsins síðan þá.“

MMA ferillinn aldrei á flug

Matthew íhugaði að fara þá leið að gerast atvinnumaður í MMA en er sem stendur bara með einn bardaga að baki. MMA ferill er ekki eitthvað sem hann ætlar að eltast við.

„Ég hætti að keppa í glímunni 2015 og flutti til Dóminíska lýðveldisins. Þar var ég bara að brimbrettast og á kajak á hverjum degi. Ég var með öruggar tekjur þannig að ég hugsaði með mér að þetta væri bara málið, afslappað líferni í fallegu umhverfi. Ég var hættur að keppa og ætlaði bara að gera þetta. Eftir sex vikur af þessu fór mér bara að hundleiðast. Stephen [Thompson] bað mig þá um að koma og vinna með sér fyrir Johny Hendricks bardagann.“

„Ég ákvað að gera það og þegar ég var þar þrýstu menn á mig að byrja að keppa í MMA og ég þyrfti að drífa í því. Þeir voru sannfærðir um að ég gæti farið langt og ég lét til leiðast. Þetta var þó spurning um að finna sjálfan mig eftir að hafa lokið ferli mínum sem íþróttamaður í glímunni. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera við lífið mitt þannig að MMA lá beinast við. Þannig gat ég bara haldið áfram að vera íþróttamaður og eyddi 8 mánuðum í að undirbúa mig og að reyna að fá bardaga.“

„Um það bil 60 tilraunum seinna var þetta bara ekki að takast að fá bardaga. Menn sem voru að stíga sín fyrstu skref í MMA sáu þá reynslu sem ég hafði á bakinu og vildu ekki keppa við mig. Þeir gátu frekar fengið einhvern sem var bara svipaður og þeir og ekki með langan bakgrunn í glímu. Menn sem voru svo 6 eða 7-0 vildu ekki setja bardagaskorið sitt undir með því að berjast við einhvern sem var bara 0-0 í MMA. Þetta bara átti ekki að gerast greinilega.“

„Ég endaði á að fá einn bardaga með mjög stuttum fyrirvara. Gæjinn sem ég átti að berjast við hætti við og bardagasamtökin fóru í gegnum langan lista af mönnum til að berjast en enduðu á að fá bara einhvern til að berjast á síðustu stundu. Það var alveg gaman að vera í búrinu,“ sagði Matthew en hann sigraði bardagann með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.

„Ég var enn að eltast við þetta þegar mér var meinað að fara til Bretlands. Þegar sá bardagi datt upp fyrir sagði ég bara ‘nei, þetta á greinilega ekki að gerast’. Að lokum fann ég mína vegferð. Bara að fljóta, njóta og sjá hvar MMA og glíman passar saman sem er frábært. Ég tek tilboðum þegar ég fæ þau og stjórna því hvar og með hverjum ég vinn með og hef mjög gaman af því. MMA verður alltaf hluti af lífi mínu en ég er bara ekki viss hve stór hluti það verður sem þjálfari. Það verður bara að koma í ljós. Hingað til hefur þetta verið frábært. Ísland er æðislegt, ég elska að fara til Suður-Karólínu, Noregs og er ennþá með fullt af skemmtilegum hlutum í gangi.“

Lítill peningur í glímunni

Matthew keppti á alþjóðlegum vettvangi fyrir hönd Kanada í ólympískri glímu. „Frá 18-19 ára aldri keppti ég á alþjóðlegum mótum. Ég átti góð 11 ár þar sem ég keppti um allan heim, með fínum árangri og er sáttur með ferilinn. Ég var heiðarlegur og fór aldrei þá leið sem aðrir leiðast út í. Glíman snérist aldrei um að vinna medalíur eða heimsmeistaratitla enda voru þar ýmsar línur sem ég vildi aldrei fara yfir. Eins og sterar og frammistöðubætandi efni.“

„Þetta er ótrúleg íþrótt. Allir menningarheimar heims hafa einhvers konar glímu en það er ekki mikill peningur í þessu. Það var enginn hvati í glímunni til að ná langt til að opna aðrar dyr eftir að glímuferlinum lyki. Ekki eins og í öðrum íþróttum. Ef ég hefði unnið heimsmeistaratitil, hvað svo? Ég hefði ekki fengið einhvern fínan eftirlaunapakka og lifað þægilegu lífi. Glímuferillinn var ekki að fara að endast að eilífu og ég þurfti að hugsa um næstu skref.“

„Á seinni stigum glímuferilsins fór ég að meta reynsluna og fólkið sem ég hitti í gegnum glímuna. Það hefur gefið mér tækifærin sem ég fæ núna; að vinna með fólki um allan heim og hjálpa þeirra ferli. Það er meira gefandi en hvaða gullmedalía, ólympíugull eða hvað sem ég hefði getað gert á glímuferlinum.“

Matthew er mikill aðdáandi Kaleo hljómsveitarinnar og hefur eytt ágætis tíma með meðlimum sveitarinnar. „Ég vissi hverjir þeir voru áður en ég kom hingað fyrst. Jökull [Júlíusson, söngvari og gítarleikari Kaleo] er ótrúlegur listamaður en við kynntumst og náðum vel saman. Við fórum að spila tónlist saman, hanga saman og reyna að skilja þetta líf sem við lifum. Við höfum myndað sterkt samband sem ég dýrka, rétt eins og samband mitt við Gunna.“

Matthew hefur mikið æft með Gunnari í gegnum tíðina og segir hann Gunnar vera einstakan íþróttamann og þá sérstaklega í samanburði við alla þá flóru af íþróttamönnum sem hann hefur unnið með.

„Gunni er besti glímumaður sem ég hef unnið með, langbesti. Hann er með ótrúlega líkamsvitund og hefur auðvitað lagt mikla vinnu á sig til að læra og skilja hvað hann er að gera. Hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera með því að tengja fellurnar við höggin og jiu-jitsu. Hann nálgast æfingar á sama hátt og ég geri, og líka Ryan Hall. Ryan og Gunni eru mjög líkir. Mjög klárir, vita hvernig á að æfa almennilega og æfa skynsamlega án þess að drepa skrokkinn.“

„Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna með Gunna. Ef þú sýnir honum eitthvað þá tekur hann það strax og bætir því í sinn leik. Hann er ótrúlegur íþróttamaður og mjög auðvelt að vinna með honum.“

Matthew mun áfram dvelja hér á landi næstu vikurnar þar sem hann mun æfa með Gunnari og Keppnisliði Mjölnis. Þökkum Matthew kærlega fyrir þetta áhugaverða spjall.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular