Saturday, April 20, 2024
HomeErlentMax Holloway á stóran niðurskurð framundan

Max Holloway á stóran niðurskurð framundan

Fjaðurvigtarmeistarinn Max Holloway á erfiðan niðurskurð í vændum fyrir titilbardaga sinn í léttvigtinni á laugardaginn. Að sögn næringarfræðings hans verður þetta einn stærsti niðurskurður sem hann hefur tekið þátt í.

George Lockhart er einn virtasti næringarfræðingurinn í MMA heiminum í dag og hafa stórstjörnur á borð við Conor McGregor, Rory MacDonald og Jon Jones notið aðstoðar hans við að ná tilsettri þyngd fyrir bardaga sína.

Lockhart starfar nú með Max Holloway fyrir bardagann gegn Khabib Nurmagomedov á laugardaginn. Í samtali við Bloody Elbow segir Lockhart að Holloway eigi stóran niðurskurð framundan. Holloway tekur bardagann með aðeins sex daga fyrirvara eftir að Tony Ferguson meiddist og þó hann sé að fara upp um flokk verða næstu dagar erfiðir fyrir Holloway.

„Þetta er bókstaflega stærsti niðurskurður sem ég hef tekið þátt í. Þetta er nákvæmlega jafn mikill niðurskurður og sá stærsti sem ég hef tekið þátt í,“ segir Lockhart.

„Vanalega byrjum við 10 dögum fyrir vigtun þannig að þetta verður talsvert erfiðara. Holloway var í 18 tíma flugi til New York og það hefur áhrif á vatnsupptöku líkamans. Svona hlutir hafa áhrif á okkar starf.“

Holloway er að stíga upp úr meiðslum en aðeins eru tvær vikur síðan hann fékk leyfi frá lækni til að byrja að æfa á fullu. Lockhart segir þó að Holloway geti gert allt sem til þarf til að losa sig við vökvann og að Holloway hafi náð sér af ökklameiðslunum að fullu.

„Á þessum tímapunkti eru bardagamenn búnir að léttast mikið og mesta fitan farin og þurfa bara að losa sig við vökva. Þetta er aðeins öðruvísi núna með Max þar sem við þurfum að taka smá fitu af honum þó hann sé frekar grannur núna.“

Lockhart er í þeirri einstöku stöðu að vera einnig næringafræðingur Khabib Nurmagomedov. Hann ber því ábyrgð á að báðir bardagamenn verði í tilsettri þyngd á föstudaginn þegar vigtunin fyrir UFC 223 fer fram.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular