spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMelendez semur við UFC og þjálfar í TUF 20

Melendez semur við UFC og þjálfar í TUF 20

melendez
Mynd: Sherdog

Gilbert Melendez hefur endurnýjað samning sinn við UFC og þjálfar í tuttugustu seríu raunveruleikaþáttarins The Ultimate Fighter (TUF) á móti léttvigtarmeistaranum Anthony Pettis. Melendez og Pettis mætast svo í titilbardaga eftir TUF. Serían byrjar 10. september næstkomandi og í henni verður strávigtarflokkur kvenna kynntur til sögunnar í UFC. Sigurvegarinn í 20. seríu verður fyrsti strávigtarmeistari UFC.

Melendez er í öðru sæti á styrkleikalista UFC í léttvigt en kláraði nýverið samninginn við UFC. Fréttir bárust af því fyrr í mánuðinum að Melendez hefði gert arðbæran samning við Bellator bardagasambandið, en samkvæmt gamla samningnum hafði UFC rétt á að jafna boð frá öðrum bardagasamtökum. UFC kaus að gera það og bjóða honum auk þess að þjálfa í TUF.

UFC vildi ekkert gefa upp um skilmála samningsins en samkvæmt heimildamönnum MMAFighting.com tryggir samningurinn að a.m.k. 75% af bardögum Melendez fari fram á viðburðum sem áhorfendur þurfa að borga fyrir (e. Pay per view). Þar að auki þurfa ekki jafn margir að kaupa viðburðinn eins og áður til að hann fái hlutdeild af tekjunum. Hingað til hefur enginn UFC-bardagamaður fengið tekjur af jafn lítilli sölu og Melendez fær. Það þýðir að hann fær tekjur af sölu viðburða jafnvel þó salan gangi ekki sérlega vel. Melendez fær auk þess tekjur af sölu á viðburðum sama hvenær hann berst á viðburðinum, hvort sem það er í aðalbardaga kvöldsins eða öðrum bardögum á aðalkortinu.

Þessir skilmálar þýða að öllum líkindum að Melendez verði einn hæst launaði bardagamaður heims. Hugsanlega er þessi samningur boðberi nýrra tíma í UFC, en kjör UFC-bardagamanna hafa mikið verið gagnrýnd upp á síðkastið. Kannski vill UFC bæta kjörin.

Bjorn Rebney, framkvæmdarstjóri Bellator, hafði þetta að segja um samning Melendez:

„Mér skilst að UFC hafi jafnað samninginn sem við gerðum við Gilbert. Ég hef ekki rætt við umboðsmenn Gilbert en hef heyrt þetta frá fjölmörgum aðilum. Við erum með öfluga léttvigtardeild og Gil hefði verið frábært viðbót við hana, en ég er ánægður með að hann gat farið og leitað að góðum tilboðum á opnum markaði og fengið launin sem hann á skilið. Það er það sem frjáls markaður snýst um. Ég er ánægður fyrir hönd Gil, að hann hafi getað tryggt fjárhagslegt öryggi sitt og fjölskyldunnar til frambúðar í gegnum þetta ferli. Það er það sem bardagamennirnir sem leggja allt að veði í búrinu eiga skilið.“

„Þetta ferli hefur sýnt að það eru tveir alvöru kostir í boði fyrir MMA-bardagamenn. Eins og ég sagði í síðustu viku hefur samningsstaða bardagamanna stórbatnað nú þegar tvö stór bardagasamtök eru til staðar. Aðgerðir okkar í þessu ferli bættu samningsstöðu Gilbert og munu halda áfram að gera það fyrir óteljandi bardagamenn í framtíðinni. Sumir munu enda í Bellator og sumir enda í UFC. En sama hvað, þá græðir íþróttin.“

Þetta þýðir að góðir bardagamenn sem klára UFC-samninga geta átt von á tilboðum frá Bellator. Líklega verður það til þess að fleiri góðir bardagamenn fara yfir í Bellator, en líka að UFC þarf að hafa meira fyrir því að tryggja sér samninga við bestu bardagamenn heims en áður. Aukin samkeppni þýðir að launin þeirra hækka.

Gilbert Melendez var léttvigtarmeistari Strikeforce áður en bardagasamtökin voru lögð niður og í fyrsta UFC-bardaga sínum mætti hann Benson Henderson, þáverandi léttvigtarmeistara, í titilbardaga. Melendez tapaði í umdeildum dómaraúrskurði og mætti svo Diego Sanchez í bardaga sem margir töldu besta bardaga ársins 2013.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular