Saturday, April 20, 2024
HomeErlentMMA molar: Chris Leben snýr aftur, CM Punk meiddur og fleira

MMA molar: Chris Leben snýr aftur, CM Punk meiddur og fleira

chris leben - CopySíðustu dagar hafa verið fremur rólegir í MMA heiminum. Eitt og annað hefur þó gerst í MMA heiminum sem vert er að greina frá.

Chris Leben semur við Bellator

Fyrrum UFC bardagamaðurinn Chris Leben ákvað að taka hanskana af hillunni og snúa aftur í búrið. Leben hætti í janúar 2014 eftir fjögur töp í röð en hann er 35 ára gamall. Leben mun berjast í Bellator á þessu ári en miðað við síðustu frammistöður hans í UFC á hann ekkert erindi í topp bardagamenn í dag. Vonandi er þessi ákvörðun Leben ekki vegna peningaskorts heldur vegna ástríðu hans fyrir íþróttinni. Leben var þó ákærður vegna heimilisofbeldis í sumar og verður að teljast líklegt að þessi ákvörðun hans sé af illri nauðsyn.

cm Punk

 

CM Punk meiddur

Fjölbragðaglímukappinn CM Punk samdi við UFC í janúar 2015. Enn á hann eftir að berjast sinn fyrsta bardaga og leit allt út fyrir að hann myndi loksins stíga í búrið í júní í sumar. Aðeins nokkrum dögum eftir að UFC fann andstæðing fyrir hann greindi Punk frá bakmeiðslum sínum og fór hann undir hnífinn í gær. Frumraun hans verður því frestað enn lengur.

Um helgina sigraði Mickey Gall sinn fyrsta UFC bardaga og aðeins hans annan bardaga á ferlinum. Hann mun mæta Punk þegar fjölbragðaglímukappinn verður loksins nógu hraustur til að berjast.

UFC staðfestir nokkra bardaga

Það er nóg um að vera hjá Joe Silva og félögum þessa stundina. Justin Scoggins átti frábæra frammistöðu gegn Ray Borg um helgina og óskaði eftir að fá að berjast aftur sem allra fyrst. Hann fær ósk sína uppfyllta og mætir Ben Nguyen í Brisbane í Ástralíu þann 19. mars. Á sama kvöldi munu þær Rin Nakai og Leslie Smith mætast í bantamvigt kvenna.

Roy Nelson og Derrick Lewis börðust báðir um síðustu helgi. Roy Nelson sigraði Jared Rosholt í fremur óskemmtilegum bardaga á meðan Derrick Lewis sigraði Damien Grabowski með tæknilegu rothöggi í 1. lotu. Nú hafa þeir báðir lýst yfir áhuga á að berjast við hvorn annan og deildi Nelson þessari skemmtilegu mynd á Twitter. Nelson gagnrýndi Rosholt eftir bardaga þeirra og sagði hann hafa einfaldlega ekki viljað berjast við sig. Lewis ætlar aftur á móti ekki að hlaupa undan Roy Nelson. Þess má geta að allir bardagar Lewis í UFC hafa endað með rothöggi (fimm sigrar og tvö töp).

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular