spot_img
Thursday, November 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMunaðarleysinginn Bobby Green

Munaðarleysinginn Bobby Green

Bardagamanninum Bobby Green hefur vegnað vel á UFC ferli sínum hingað til og sigrað alla fjóra bardaga sína. Líf hans hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum og er óhætt að segja að hann hafi gengið í gegnum ýmislegt.

Bobby Green vs Jacob Volkmann
Bobby Green gegn Jacob Volkmann

Þegar Strikeforce rann inn í UFC í ársbyrjun 2013 fluttist rjóminn af bardagamönnunum yfir. Mikil umræða var um stjörnur eins og Gilbert Melendez, Alistair Overeem og Nick Diaz en lítið fór fyrir minni spámönnum eins og Bobby Green (23-5). Sennilega er hægt að fullyrða að enginn vissi hver hann var þegar hann mætti til leiks í sínum fyrsta UFC bardaga á móti hinum virta Jacob Volkman á UFC 156. Green barðist af mikilli hörku, sigraði með „rear naked choke“ og fékk að launum bónus fyrir uppgjafartak kvöldsins. Eftir að hafa stimplað sig rækilega inn hefur Green fengið hvern erfiða andstæðinga og sigrað þá alla. Fyrst James Krause með lifrasparki í fyrstu lotu og svo Pat Healy og Josh Thomson eftir dómaraákvörðun.

Velgengni Green hefur komið mörgum í opna skjöldu, ekki síst ef litið er til forsögu hans. Green átti mjög erfiða æsku en móðir hans var fíkill og faðir hans var meira og minna alltaf í fangelsi. Hann varð snemma munaðarlaus og flakkaði mikið á milli heimila frá fimm ára aldri. Green áætlar sjálfur að fósturheimilin hafi verið ekki færri en fimmtíu og það meira og minna í hverfum þar sem mikið var um gengi, ofbeldi og fíkniefni. Green var á þessum árum vitni af því versta í fari manna og var að miklu leyti rændur æskunni.

bobby
Bobby Green gegn James Krause

Green varð fyrir vikið andlega harður og veraldarvanur á unga aldri. Aðskilinn bræðrum sínum, Davis og Mitchell, flakkaði Bobby á milli heimila í leit að festu. Þegar hann var um fimmtán ára gamall byrjaði hann að stunda ólympíska glímu í Fontana Miller High School í Kaliforníu. Á þeim tíma bjó Green hjá hvítri fjölskyldu í Kaliforníu. Eftir atvik þar sem Bobby Green var sakaður um að stela bifreið var honum sparkað út. Allt byggðist þetta á misskilningi að sögn Green en í örvæntingu fann hann kennara sem hjálpaði honum að takast á við lífið. Kennarinn tók hann að sér og varð föðurímyndin sem Green hafði alltaf vantað. Draumur um náið samband breyttist hins vegar fljótt í martröð þegar kennarinn fór að misnota Green. Ráðþrota flúði Green heimilið og fór til frænku sinnar í bænum Rialto þar sem bróðir hans, Michell, bjó. Vandamálið var að þar bjuggu ellefu manns í þriggja herbergja íbúð svo Bobby þurfti að leita annarra leiða.

bobby-green-wins-PNG

Bobby Green var átján ára þegar hann skráði sig í herinn. Þar fór hann í gegnum erfiða þjálfun en lærði aga og þroskaðist mikið á þeim tíma. Eftir tuttugu vikur var hann rekinn úr hernum vegna slagsmála sem hann skrifar einnig á misskilning. Green bjó í kjölfarið með fjölskyldu vinar síns. Eftir að hafa orðið vitni af heimilisofbeldi tók hann sig til og henti föður vinar síns út, fékk sér vinnu og fór að sjá fyrir fjölskyldunni.

Upp úr tvítugu fór Green að glíma aftur og fór í kjölfarið að æfa MMA í Team Tapout hjá Shad Smith. Hann hafði þó lítinn áhuga á að æfa nema kannski einu sinni í viku en tók bardaga um helgar á vafasömum stöðum í t.d. Mexíkó. Eftir að hafa setið inni í fangelsi í 90 daga (þar sem hann var meðal annars látinn dúsa í einangrun í 10 daga eftir að hafa prumpað í andlit fangavarðar) vildi hann breyta lífi sínu. Hann fór að æfa hjá Jake Benhey þar sem hann er enn þann dag í dag.

Eins og áður hafði Green ekki mikinn áhuga á að æfa en Benhey sá að það var mikið í hann spunnið. Benhey, snyrtilega klæddur hvítur maður á ágætis bíl, keyrði um verstu hverfi borgarinnar þar sem Green hélt sig og gekk húsa á milli í leit að Green til að fá hann til að koma að æfa. Svona gekk þetta í nokkra mánuði þangað til Green hætti í felum. Það má því segja að Benhey eigi mikið í velgengni Green.

Ferillinn gekk vel en í maí á þessu ári lenti Green í enn einu áfallinu þegar bróðir hans, Davis, var skotinn til bana. Hann samþykkti engu að síður bardagann á móti Josh Thomson og kom mörgum á óvart með sigri. Fyrir bardagann sagði Green að hann ætlaði að gefa sigurbónusinn sinn í styrktarsjóð til styrktar skólagöngu barna Davis.

Green er nú skráður nr. 7 á styrkleikalista UFC eftir sigurinn á Thomson. Hann berst næst við Jorge Masvidal í lok september. Sigri hann þann bardaga gæti hann hæglega barist um titil í nánustu framtíð. Það er óhætt að segja að Green hafi upplifað ýmislegt á sinni ævi en er að bæta líf sitt með hverjum sigrinum. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut.

GreenBobby

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular