Annað kvöld fer fram fyrsta titilvörn Holly Holm síðan hún rotaði Rondu Rousey í nóvember. Hún mætir þá erkifjanda Rousey, Mieshu Tate, í viðureign sem ætti að verða hörku bardagi.
Það er deginum ljósara að Holly Holm er allt önnur týpa heldur en Ronda Rousey. Holm er kurteisin uppmáluð og talar aldrei illa um andstæðinginn sinn. Holm og Tate hafa verið afar vinalegar í garð hvor annarrar í aðdraganda bardaga morgundagsins.
Þegar Rousey mætti Tate var gríðarlega mikill rígur á milli þeirra sem vakti mikla athygli. Rousey lét öllum illum látum í The Ultimate Fighter er hún þjálfaði andspænis Tate (sem var ekki alsaklaus sjálf svo sem). Það er erfitt að ímynda sér að Holm myndi senda andstæðingi sínum fingurinn eða neita að taka í hönd andstæðingsins.
Holly Holm nær kannski aldrei að feta í sömu fótspor og Rousey enda er hún gjörólíkur meistari. Óbilandi sjálfstraust, kjaftur og yfirburðir Rousey komu henni í sviðsljósið og gerðu það að verkum að fjölmiðlar utan MMA byrjuðu að fylgjast svona vel með henni. Hún er í dag stærsta stjarna UFC ásamt Conor McGregor. Rousey er frumkvöðull í kvenna MMA og hvernig sem ferill hennar þróast mun sagan ávallt muna eftir henni sem fyrstu konunni til að berjast í UFC.
Nú þegar Holm er meistari er bantamvigtin allt önnur og ekki eins mikil athygli á þyngdarflokknum á meðan Rousey er ekki að berjast. Hollywood hefur bankað á dyrnar hjá Holm en ólíkt Rousey hefur Holm engan áhuga á að leika í kvikmyndum. Hún hefur hafnað öllum tilboðum Hollywood enda vill hún nýta tímann vel og bara berjast.
Það hefði eðlilega hjálpað Holm að koma sér frekar á framfæri ef hún hefði samþykkt hin ýmsu tilboð frá Hollywood og mun hún kannski aldrei verða sama stjarna og Rousey. Holm virðist bara vera alveg sama um allt nema að berjast.
Rousey varð fljótt stjarna enda er hún áberandi karakter sem fólki fannst gaman að hlusta á. Holm er bara svo hrikalega kurteis og indæl og kannski er það eitthvað sem þessir stóru fjölmiðlar hafa ekki áhuga á. Ronda Rousey var í þætti Ellen fyrir skömmu en ekki konan sem vann hana.
Fjölmiðlar utan MMA elska líka fljóta bardaga og þar stóð enginn jafnfætis Rousey. Síðustu þrír sigrar Rousey voru samanlagt 64 sekúndur. Þarna getur Holm kannski saxað á Rousey og aukið vinsældir sínar með yfirburðum og tilþrifum í búrinu. Ef Holm verður risastjarna verður það líklegast bara vegna hæfileika hennar í búrinu en ekki vegna kvikmynda, munnbrúks eða annarra atriða sem hjálpuðu við að gera Rousey svona vinsæla.
Bardagar Rousey voru líka alltaf frekar snyrtilegir, stuttir og mjög lítið um blóð. Rothögg Holm gegn Rousey var hins vegar grimmilegt og það gæti fælt unga áhorfendur frá Holm en margar ungar stúlkur líta upp til Rousey.
Það myndi svo sannarlega hjálpa Holm ef hún klárar Tate með sannfærandi hætti á morgun en það er kannski ólíklegt að hún verði sama stjarna og Rousey. Þetta eru tvær ólíkar konur sem eru tveir ólíkir meistarar.
Það er kannski ekki jafn mikil umfjöllun fjölmiðla utan MMA um bardaga Holm og Tate líkt og fyrir bardaga hjá Rousey en takist Holm að verja beltið á morgun mun hún mæta Rousey þegar hún snýr aftur í haust. Sá bardagi gæti orðið sá stærsti í sögu UFC en bardagi Holm-Tate 2 myndi aldrei verða jafn stór.