Daniel Cormier rotaði Stipe Miocic í gær í aðalbardaga kvöldsins á UFC 226. Eftir bardagann skoraði hann á Brock Lesnar og varð uppákoman öll sú vandræðalegasta.
Daniel Cormier skráði nafn sitt í sögubækurnar með sigrinum á Miocic. Hann er nú ríkjandi meistari í bæði léttþungavigt og þungavigt en aðeins Conor McGregor hafði afrekað það að vera meistari í tveimur flokkum á sama tíma í UFC.
Afrek Cormier féll í skuggann á fáranlegri uppákomu í búrinu eftir sigurinn. Cormier skoraði á fjölbragðaglímukappann Brock Lesnar og mætti Lesnar í búrið. Úr varð fáranleg uppákoma með tilheyrandi stimpingum og látum – allt gert til að búa til gervi illindi til að selja mögulegan bardaga á milli Cormier og Lesnar.
Það er öllum ljóst að engin alvöru illindi eru á milli Cormier og Lesnar. Lesnar er gríðarlega stór stjarna í Bandaríkjunum og munu bardagar hans alltaf gefa vel í aðra hönd fyrir UFC, andstæðinginn og Lesnar sjálfan.
Það má þó segja að aðdáendur séu klofnir í tvennt. Sumir hafa bara gaman af fáranleikanum, hlæja að þessu og hlakka til að sjá Lesnar aftur í búrinu. Á sama tíma eru aðrir sem telja fáranlegt að Lesnar sé mögulega að fá titilbardaga þegar hann er enn í keppnisbanni eftir fall á lyfjaprófi og hefur ekki unnið bardaga síðan 2010.